Össur er alþjóðlegt heilbrigðistæknifyrirtæki sem hannar og framleiðir stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur með það að markmiði að bæta hreyfanleika fólks. Fyrirtækið er margverðlaunað fyrir hönnun á þessu sviði – þar á meðal fyrir þróun á sviði lífverkfræðilegrar hönnunar. Össur er í samstarfi við fagfólk á heilbrigðissviði um allan heim sem nýtir sér framleiðslu fyrirtækisins til að ná árangri á sviði lækninga.
Össur er leiðandi fyrirtæki á alþjóðamarkaði á sviði stoð- og stuðningstækja og gerir fólki kleift að lifa lífinu án takmarkana. Össur leggur áherslu á að laða til sín menntað fólk með reynslu og þekkingu.
Saga Össurar
Össur hóf starfsemi sem stoðtækjaverkstæði og var stofnað á Íslandi árið 1971 af Össuri Kristinssyni stoðtækjafræðingi. Að auki komu að stofnun fyrirtækisins félögin Sjálfsbjörg, Landssamband fatlaðra, SÍBS, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og Styrktarfélag vangefinna. Í upphafi þjónaði Össur aðeins innanlandsmarkaði á Íslandi. Fyrsta vara Össurar var sílikonhulsa (Iceross®) og má segja að sú uppgötvun hafi komið fyrirtækinu á kortið á alþjóðavísu. Árið 1986 fékk fyrirtækið fyrsta einkaleyfið skráð og hóf sama ár útflutning á vörum sínum.
Í gegnum nýsköpun og fyrirtækjakaup hefur Össur þróast úr því að vera stoðtækjaverkstæði á Íslandi með örfáum starfsmönnum yfir í alþjóðlegt heilbrigðistæknifyrirtæki sem hannar og framleiðir stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur með það að markmiði að bæta hreyfanleika fólks. Össur er nú annar stærsti stoðtækjaframleiðandi í heimi og leiðandi á sínu sviði. Fyrirtækjakaupin gerðu það að verkum að Össur er nú með heildstæða vörulínu – allt frá sílikonhulsum, í gervihné, gervifætur, gervihendur, auk stuðningsvara og sitt eigið dreifikerfi. Fyrirtækið hefur verið í fremstu röð í rannsóknum og þróunarvinnu frá 1971. Fyrirtækið var í einkaeigu Össurar Kristinssonar og fjölskyldu hans frá 1984 fram til 1999, þegar það var skráð á almennan hlutabréfamarkað í Kauphöll Íslands. Tíu árum seinna var Össur hf. skráð í kauphöll NASDAQ í Kaupmannahöfn.
Eigendur og stjórnendur
Stærsti hluthafi Össurar er William Demand Invest A/S (WDI) í Danmörku, sem á um 51% í fyrirtækinu. WDI hefur verið fjárfestir síðan 2004. Aðrir hluthafar sem eiga yfir 5% í fyrirtækinu eru ATP lífeyrissjóður (Danmörku), Lífeyrissjóður Verslunarmanna, Gildi lífeyrissjóður, LSR Lífeyrissjóður Starfsmanna Ríkisins og Oppenheimer Funds (USA).
Núverandi stjórnarformaður er Niels Jacobsen og hefur Jón Sigurðsson verið forstjóri Össurar síðan 1996. Í framkvæmdarstjórn fyrirtækisins sitja forstjóri og sjö aðrir framkvæmdastjórar sviða innan Össurar, sem hafa að meðaltali um nítján ára starfsaldur hjá fyrirtækinu.
Hlutverk Össurar
Margir þurfa að lifa með líkamlegri fötlun af völdum sjúkdóma eða aflimunar. Hlutverk Össurar er að gera því fólki kleift að njóta sín til fulls með bestu stoð- og stuðningstækjum sem völ er á. Áratuga þróunarstarf hefur skapað mikla þekkingu, sem gerir Össuri kleift að rækta þetta hlutverk sífellt betur. Markmiðið er að vörurnar og þjónusta fari fram úr væntingum viðskiptavina, því aðeins þannig verður Össur áfram leiðandi á sínu sviði.
Stefnumið og framtíðarsýn
Stefnumið Össurar er að bæta hreyfanleika fólks með tækni, rannsóknum og nýsköpun. Fyrirtækið aðhyllist mannleg gildi í hvívetna og vinnur náið með þeim sem þurfa á vörunum að halda. Þannig hefur Össur náð frábærum árangri í starfi og séð sýn sína verða að veruleika; fólk yfirstígur líkamlegar hindranir, fær notið sín til fulls og öðlast betra líf. Framtíðarsýn Össurar er að verða leiðandi fyrirtæki á alþjóðamarkaði á stoð- og stuðningstækjamarkaðinum.
Tækni, rannsóknir og nýsköpun
Allt frá stofnun Össurar hafa rannsóknir og vöruþróun verið í forgrunni innan fyrirtækisins. Össur fjárfestir um 5% af heildarsölu í rannsóknar- og þróunarvinnu árlega og er fjöldi einkaleyfa og einkaleyfaumsókna, sem fylla hugverkasafn Össurar, áreiðanlegur mælikvarði á þá áherslu sem fyrirtækið leggur á fjárfestingu í rannsóknar- og þróunarvinnu.
Össur á nú yfir 2000 einkaleyfi skráð og hefur fyrirtækið einnig safnað saman mörgum af merkustu vörumerkjum stuðnings- og stoðtækjamarkaðarins. Fyrirtækið setur fjölda vara á markað árlega, til að mynda voru yfir 25 nýjar vörur settar á markað á árinu 2019.
Markaðssvæði og viðskiptavinir
Markaðssvæði Össurar er skipt í þrennt, Ameríku, Asíu og EMEA (Evrópa, Mið-Austurlönd og Afríka). EMEA og Ameríka skipta bróðurparti heildarsölu fyrirtækisins á milli sín, EMEA með 44% og Ameríka með 48% á meðan Asía er með um 8% af heildarsölu (árið 2019).
Össur starfar á tveimur markaðssviðum; stoðtækjamarkaður er um 55% af heildarsölu á meðan 45% af heildarsölu Össurar eru spelkur og aðrar stuðningsvörur.
Þar sem sala á stoðtækjum er svo til alfarið háð tilvísun sérfræðinga, eru stærstu viðskiptavinir Össurar heilbrigðisstofnanir og stoðtækjaverkstæði um allan heim.
Mannauður og starfsmannafjöldi
Hjá fyrirtækinu starfa um 3500 starfsmenn í yfir 25 löndum, þar á meðal um 500 starfsmenn á Íslandi. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru á Íslandi en starfsstöðvar víða um heim sinna vaxandi markaði. Össur er hátæknifyrirtæki og er markmið þess að fyrirtækið hafi yfir að
ráða hæfu, áhugasömu og vel þjálfuðu starfsfólki sem axlar ábyrgð og sýnir frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð. Fyrirtækinu er ljóst mikilvægi sí- og endurmenntunar ásamt skýrri starfsmannastefnu. Til þess að fyrirtækið geti vaxið, þroskast og haldið samkeppnisstöðu sinni í síbreytilegu alþjóðlegu umhverfi er mikilvægt að starfsfólk fái tækifæri til að auka við þekkingu sína og færni. Starfsmannafélag Össurar, Stöss, er öflugt og skipuleggur fjölda viðburða allt árið um kring við góðar undirtektir starfsmanna. Auk þess eru öflugir hópar innan fyrirtækisins, til dæmis hjóla-, hlaupa-, golfhópar til að nefna dæmi.
Jafnlaunastefna
Össur var eitt af fyrstu fyrirtækjunum á Íslandi til að innleiða jafnlaunastefnu. Tilgangur Össurar með jafnlaunakerfi er að tryggja jafnrétti og jafna stöðu kvenna og karla innan fyrirtækisins. Markmiðið er að nýta hæfni, krafta og kunnáttu starfsmanna til fulls án þess að kynbundinn mismunur eigi sér stað.
Nær allir starfsmenn eru í fullu starfi og er tæplega helmingur þeirra með háskólamenntun. Kynjaskipting er nokkuð jöfn (2019: 51% karlar og 49% konur) og eru um 38% kvenna í stjórnunarstöðum hjá fyrirtækinu.
Gildi Össurar
Fyrirtækjamenning Össurar einkennist af frumkvæði, metnaði, drifkrafti og samvinnu. Til að viðhalda þeim starfsanda sem ríkir hjá Össuri eru þrjú megingildi höfð að leiðarljósi í daglegu starfi.
Heiðarleiki: Við auðsýnum virðingu með því að halda okkur við staðreyndir, standa við gefin loforð, uppfylla kröfur og viðurkenna mistök. Við hlúum að heiðarlegum samskiptum innan fyrirtækisins með því að deila upplýsingum og taka tillit til vinnuálags hvers annars.
Hagsýni: Við notum fjármuni fyrirtækisins af skynsemi. Við höfum það að markmiði að halda kostnaði í lágmarki á öllum sviðum viðskipta með árangursríkum samskiptum, undirbúningi og skipulagningu og kappkostum að bæta vinnuferla.
Hugrekki: Við notum frelsi okkar til athafna. Við erum opin fyrir breytingum og keppum stöðugt að framförum. Við bjóðum óskrifuðum reglum byrginn, sýnum frumkvæði og tökum meðvitaða áhættu, en tökum jafnframt ábyrgð á hugmyndum okkar, ákvörðunum og athöfnum.
Samfélagsleg ábyrgð og umhverfismál
Stærsta einstaka framlag Össurar til samfélagsins er vöruúrval fyrirtækisins, sem að á ári hverju aðstoða milljónir notenda við það að bæta hreyfanleika þess.
Össur tók upp alþjóðasáttmála Sameinuðu Þjóðanna (UN Global Compact) árið 2011 auk þess sem það skuldbatt sig að fylgja sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um valdeflingu kvenna (UN Women‘s Empowerment Principles) árið 2014. Fyrirtækið styður einnig Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og leggur sérstaka áherslu á markmið #3, 5, 12 og 13.
Árlega birtir Össur skýrslu sem inniheldur lykil framvindumælikvarða í fjórum þáttum sem er krafist samkvæmt aþjóðasáttmálanum; umhverfisþættir (environmental concerns), vinnuaðferðir (labor practices), mannréttindi (human rights) og vinna gegn spillingu (anticurruption).
Starfsfólk Össurar er einbeitt og metnaðarfullt og lætur sér annt um að liðsinna þeim sem búa við fötlun. Einkunnarorð fyrirtækisins, Life without Limitations, eða Líf án takmarkana, er miklu meira en söluslagorð. Það er til marks um framtíðarsýn og leiðarljós allra í fyrirtækinu sem grundvallast á umhyggju fyrir fólki og áhuga á að bæta líf þeirra sem þess þarfnast.
Starfsfólk Össurar trúir því að þar sem fyrirtækið er í fararbroddi á sviði framleiðslu stoð- og stuðningstækja, sé það skylda þess – auk þess sem það eru forréttindi – að styðja þá atvinnugrein sem það lifir og hrærist í og þjóna notendum og fagmönnum á allan þann máta sem unnt er.
Össur hugar einnig vel að umhverfismálum varðandi endurvinnslu og urðun á spilliefnum. Allt rusl er flokkað og endurunnið þar sem það á við. Þau efni sem ekki er hægt að endurvinna eða flokkast sem spilliefni er farið með á viðeigandi hátt og þeim fargað samkvæmt reglum um slík efni. Þess má geta að tæplega 60% af heildar orkunotkun fyrirtækins er endurnýtanleg orka og kolefnisjöfnun fyrirtækisins er í augsýn.
Velta og hagnaður
Össur hefur farið úr því að vera lítið stoðtækjaverkstæði með eina vöru og örfáa starfsmenn í að skipa sér í fremstu röð í stoðtækjaframleiðslu á alþjóðamarkaði. Í dag er fyrirtækið með heildstæða vörulínu um 700 hátæknivara, sitt eigið dreifikerfi og 3500 starfsmenn í yfir 25 löndum. Velta fyrirtækisins hefur rúmlega 50-faldast frá árinu 1996 og hagnaðurinn margfaldast sömuleiðis.
Vöxtur fyrirtækisins hefur verið drifinn áfram af bæði innri- og ytri vexti en félagið hefur keypt yfir 50 erlend fyrirtæki síðan það var upphaflega skráð á hlutabréfamarkað. Söluvöxtur er einna helst drifinn áfram af hátæknivörum félagsins. Aukningu í EBITDA framlegð má rekja til aukinnar sölu á hátæknivörum, stærðarhagkvæmni, verkefna um aukna hagkvæmni í rekstri og gjaldeyrishreyfinga.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd