Persónuvernd

2022

Upphafsár verndar persónuupplýsinga
Fyrstu íslensku lögin um skráningu og vernd persónuupplýsinga tóku gildi 1. janúar 1982. Með lögunum var forvera Persónuverndar, Tölvunefnd, komið á fót. Nafnið ber með sér hversu ríkjandi tölvan var í bakgrunni laganna sem fengu fljótlega heitið tölvulögin í daglegu tali. Tölvunefnd hafði eftirlit með framkvæmd laganna og starfaði allt þar til Persónuvernd var sett á laggirnar með lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sem lögfestu tilskipun nr. 95/46/EB. Persónuvernd tók formlega til starfa 1. janúar 2001 og voru starfsmenn stofnunarinnar þá sex að forstjóra meðtöldum.

Starfsemi Persónuverndar
Í upphafi árs 2020 voru starfsmenn Persónuverndar 17 talsins í fullu starfi. Helga Þórisdóttir lögfræðingur var skipuð forstjóri Persónuverndar frá og með 1. september 2015. Auk hennar starfa hjá Persónuvernd þrír sviðsstjórar, átta lögfræðingar, tveir sérfræðingar í upplýsingaöryggi, skrifstofustjóri rekstrar, skjalastjóri og bókasafns- og upplýsingafræðingur. Persónuvernd er til húsa að Rauðarárstíg 10 í Reykjavík. Áhersla er lögð á góðan aðbúnað starfsmanna og tækifæri þeirra til símenntunar. Persónuvernd hefur verið útnefnd stofnun ársins þrjú ár í röð, þ.e. árin 2017, 2018 og 2019. Persónuvernd er sjálfstæð stofnun með sérstaka stjórn og eru úrlausnir stofnunarinnar endanlegar á stjórnsýslustigi.

Vitundarvakning um persónuvernd
Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá því að Persónuvernd var sett á laggirnar og hefur þörfin fyrir öfluga vernd persónuupplýsinga sjaldan verið jafn mikil og nú. Tækninni fleygir fram á ógnarhraða og löggjafinn sem og eftirlitsstofnanir takast í sífellu á við nýjar áskoranir. Persónuverndarlöggjöfin gildir um alla vinnslu persónuupplýsinga á Íslandi. Hún gildir því um starfsemi hins opinbera, fyrirtækja, sveitarfélaga og annarra sem vinna með persónuupplýsingar. Helstu málaflokkar þjóðfélagsins hafa þannig snertiflöt við persónuverndarlöggjöfina, svo sem heilbrigðismál og vísindarannsóknir, fjármálaþjónusta, fjarskipti og netöryggi, skólastarf, ferðaþjónusta, verslun og þjónusta, vinnsla persónuupplýsinga á vinnustöðum, Schengen-samstarfið og samkeppnismál. Viðamestu breytingar á lagaumhverfi á sviðinu í áraraðir voru gerðar með almennu persónuverndarreglugerðinni, (ESB) 2016/679, sem innleidd var í íslenskan rétt með setningu laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Lögin tóku gildi þann
15. júlí 2018. Með þeim voru auknar skyldur lagðar á þá sem vinna með persónuupplýsingar og einstaklingum veitt aukin réttindi. Mikil vitundarvakning hefur orðið á Íslandi um mikilvægi verndar persónuupplýsinga og hefur Persónuvernd lagt lóð sín á vogarskálarnar til að stuðla að aukinni umræðu þar að lútandi, meðal annars með landsfundaherferð haustið 2018, útgáfu fræðslubæklinga og þátttöku í ýmsum fundum og ráðstefnum.
Persónuvernd á tímamótum
Ljóst má vera að Persónuvernd stendur á miklum tímamótum, þar sem vægi persónuverndar í þjóðfélaginu er að aukast og almenningur krefst þess að vita meira um hvernig persónuupplýsingar eru unnar. Rúmlega fjórfalt fleiri mál berast nú Persónuvernd en á upphafsárum hennar. Þannig voru nýskráð mál árið 2018 hjá Persónuvernd 2.413, á árinu 2019 2.454 og á árinu 2020 voru þau 2.518, en til samanburðar voru málin 1.917 árið 2017 og um 600 talsins árið 2002. Rúmlega 3.000 málum var lokið á árinu 2019 og rúmlega 2.500 á árinu 2020.Verkefni stofnunarinnar eru margvísleg. Auk þess að annast eftirlit með því að farið sé að lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, úrskurðar Persónuvernd í ágreiningsmálum um vinnslu persónuupplýsinga. Persónuvernd veitir jafnframt leiðbeiningar, afgreiðir leyfisumsóknir, tekur við tilkynningum um öryggisbresti og mælir fyrir um ráðstafanir varðandi vinnslu persónuupplýsinga. Þá veitir Persónuvernd álit um álitaefni um meðferð persónuupplýsinga og umsagnir við setningu laga og annarra reglna.

Hvað er framundan?
Með tilkomu nýrrar tækni er nær allt sem við gerum frá morgni til kvölds rekjanlegt og skráð, hvort sem um ræðir ferðir okkar, viðskipti, starfsumsóknir, greiðslusögu eða lífstíls- og heilsusögu. Allt okkar daglega líf fer orðið fram með aðstoð nettengdra tækja sem skrá athafnir okkar með ítarlegri hætti en flestir gera sér grein fyrir. Við þetta bætist gagnagnótt (e. Big Data), sjálfvirk ákvarðanataka véla og gervigreind. Persónuvernd fagnar framþróun tækni, en bendir að sama skapi á að gæta þarf að ákvæðum persónuverndarlaga til að hægt sé að taka á móti tækniframförum með mannlegri reisn. Með aðstoð tækninnar er hægt að greina mynstur í mannlegri hegðun sem einstaklingar koma ekki auga á. Hægt er að greina svipbrigði, tilfinningar, hugsanir og margt fleira. Þetta getur bæði orðið til góðs og ills fyrir okkur. Því er mikilvægt að til staðar sé sterk Persónuvernd, sem stendur vörð um ein mikilvægustu réttindin sem við eigum sem manneskjur – persónuréttindin okkar og persónuupplýsingarnar – það sem gerir okkur að því sem við erum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd