PMT – Plast miðar og tæki ehf.

Upphafið - 2022

Upphafið
Plast miðar og tæki ehf. (Pmt) á rætur sínar að rekja er Oddur Sigurðsson sá plastpoka í fyrsta sinn og stofnaði í kjölfarið fyrirtækið Plastprent í bílskúrnum heima hjá sér á Flókagötu 69. Plastprent óx og dafnaði en eins og stundum gerist kom upp ágreiningur milli eigenda sem endaði með því að Oddur sagði skilið við fyrirtækið. Hann sagði þó ekki skilið við plastpokana fyrir fullt og allt, heldur stofnaði nýtt fyrirtæki í bílskúrnum heima, Plastos. Líkt og gefur að skilja var samkeppnin á milli fyrirtækjanna mikil og varð það ekki fyrr en sonur Odds, Sigurður Oddsson, tók til starfa að Plastos fór að beina sjónum sínum að nýjum vörum til þess að auka söluna. Þeir feðgar ferðuðust saman alla leið til Japans og heilluðust þar af Ishida tölvuvogum og var þá ekki aftur snúið. Í kjölfarið hóf Plastos innflutning og sölu á Ishida vogum og var fyrsta fyrirtækið í Evrópu til þess. Ishida vogirnar urðu strax vinsælar í flestum matvöruverlsunum enda þekktar fyrir góða endingu. Samhliða aukinni eftirspurn um vogirnar jókst á sala á límmiðum í þær og því ekkert annað í stöðunni fyrir Plastos en að festa kaup á límmiðaprentvél og hefja framleiðslu á slíkum límmiðum sem og ótal öðrum merkimiðum. Sigurður hélt ótrauður áfram í leit að nýjum viðskiptahugmyndum og ekki leið á löngu þar til Plastos hafði bætt við sig pökkunarvélum, iðnaðarprenturum, límmiðaprenturum og svo mætti lengi telja.
Árið 1997 var Plastos skipt upp í tvö fyrirtæki: Plastos Umbúðir ehf. annars vegar og Plastos, Miðar og Tæki ehf. hins vegar. Síðar var Plastos Umbúðir selt og nafni hins fyrirtækisins breytt í Plast, miðar og tæki ehf., daglega kallað Pmt. Í dag er Pmt ennþá rótgróið fjölskyldufyrirtæki og hefur þriðji ættliður tekið við stjórninni, það eru börn Sigurðar. Alnafni stofnanda, Oddur Sigurðsson er framvæmdastjóri, Anna Margrét Sigurðardóttir er stjórnarformaður, Rakel Breiðfjörð Pálsdóttir er fjármálastjóri, Jóhann Ó. Jóhannsdóttir er gjaldkeri og Aðalsteinn Sigurðsson er sölustjóri.

Starfsemin í dag
Í dag er starfsemin rekin á Krókhálsi 1 í þremur samliggjandi húsum. Þar er verslun með allar helstu rekstrarvörur og fullkomin prentsmiðja, stimpla- og skiltagerð. Prentaðir eru límmiðar af öllum stærðum og gerðum, sem og plastfilmur fyrir pökkunarvélar. Stimplagerð Pmt hefur að sama skapi stóraukist undanfarin ár, þá sér í lagi eftir að Pmt festi kaup á Stimplagerðinni Boða sem sameinaðist fyrirtækinu árið 2017. Pmt rekur því stærstu stimplagerð landsins. Hinn hluti starfseminnar snýr að filmum, tölvuvogum, pökkunarvélum, skurðarvélum og margvíslegum tækjum fyrir iðnað að ógleymdum pokum og plastfilmum. Líkt og áður kom fram hefur Sigurður ávallt glöggt auga fyrir nýjum tækifærum og þegar hann sá TurboChef ofninn í fyrsta sinn þá var hann snöggur að ná í umboðið fyrir þá á Íslandi. Ofnarnir eru notaðir til að elda mat á örfáum mínútum og er í notkun víða á Íslandi á veitingahúsum, skyndibitastöðum, hótelum, kaffihúsum og víða þar sem ferðamenn koma við. Meðal þekktra staða sem eru með TurboChef eru t.d. Subway, Sbarro, Olís og Te og Kaffi.
Pmt hefur allta tíð lagt mikinn metnað í góða prentun og skjóta afgreiðslu. Fjárfest hefur verið í fullkomnasta búnaði sem völ er á til forvinnslu og prentunar á límmiðum og plastfilmum. Það er því ekki að undra að mörg af stærstu matvælafyrirtækjum í dag að láta prenta miðana sína hjá Pmt. Pmt býður uppá heildarlausnir fyrir flest fyrirtæki á Íslandi í dag. Þar má nefna vélar til að vinna matvöru, vélar og umbúðir til að pakka, vigta og merkja. Það er því ekki að ástæðulausu að slagorð Pmt er: „Allt til merkinga og pökkunar“.

Starfsfólk
Hjá Pmt starfa nú um 20 manns við hin ýmsu störf, skrifstofu-og sölufólk, prentarar, hönnuðir og lagermaður. Hjá Pmt starfa einnig tæknimenn sem sjá um allar uppsetningar og viðhald á tækjum sem seld eru. Gríðarleg reynsla hefur safnast hjá starfsfólki í gegnum árin og starfsmannavelta ekki verið há.

Framúrskarandi fyrirtæki og framtíðarsýn
Árið 2018 náði Pmt þeim merka áfanga að komast í hóp um 2% fyrirtækja á Íslandi sem eru framúrskarandi í rekstri.
Stefnan er að byggja á þeirri reynslu sem hefur myndast í fyrirtækinu og fylgjast með öllum tækninýjungum í pökkun og merkingum á vörum. Einnig munum við reyna að bæta þjónustuna enn frekar og er ráðgert að setja allar vörur fyrirtækisins á netið til að einfalda fyrirtækjum innkaup og spara tíma.

2023

Miklar breytingar

2024

Ný stafræn prentvél

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd