PREMIS ehf. starfar á sviði upplýsingatækni með megináherslu á þjónustu við rekstur tölvukerfa og forritun á vefrænum lausnum fyrir fyrirtæki. Fyrirtækinu er skipt upp í tvö svið, rekstrarsvið og hugbúnaðarsvið sem hvort um sig sinnir þessum ólíku megináherslum. Rekstrarsviðið sér um rekstur tölvukerfa, einblínir á heildarþjónustu við fyrirtæki þar sem allt er innifalið í föstum mánaðarlegum kostnaði. Vissulega er líka hægt að fá þjónustu í einstaka þjónustuþætti eftir þörfum. Þar má nefna hýsingu tölvukerfa, skýjalausnir Microsoft, nettengingar, notendaþjónustu, rekstur netþjóna og kerfa, ásamt margskonar ráðgjöf og fræðslu. Hugbúnaðarsviðið framleiðir vefsíður og vefverslanir með tengingar í fjárhagskerfi, ásamt því að sérsmíða vefrænar lausnir. PREMIS býður líka hýsingu á þessum vefsíðum og veflausnum. PREMIS er vottað samkvæmt ISO 27001 öryggisstaðlinum í stjórnun upplýsingaöryggis. Á árinu 2020 var heildarfjöldi viðskiptavina rúmlega 1500 talsins og fjöldi starfsmanna 45. Höfuðstöðvar PREMIS eru í Skútuvogi 2, í húsnæði sem er sérsniðið að starfseminni.
Saga og framgangur PREMIS
Fyrirtækið var stofnað 1999 og hét í upphafi Nethönnun. Fyrstu verkefnin fólust í tölvuþjónustu við nokkur fyrirtæki í Reykjavík og Ísafirði. Vöxtur var hægur en stöðugur fyrstu árin. Árið 2007 urðu þáttaskil í rekstri fyrirtækisins þegar Nethönnun tók að sér heildarrekstur tölvu- og netkerfa fyrir N1. Árið 2008 kaupir Nethönnun fyrirtækið Greind ehf. og stofnaði í kjölfarið hugbúnaðardeild til að smíða lausnir sem auðvelduðu rekstur á tölvukerfum viðskiptavina, og í framhaldi af því bættist síðan vefsíðugerð í þjónustuflóru fyrirtækisins. Árið 2013 var ákveðið að breyta nafni og vörumerki fyrirtækisins í PREMIS. Önnur þáttaskil urðu í rekstrinum 2016 þegar nýir fjárfestar komu inn í reksturinn. Á næstu árum voru nokkur lítil upplýsingatæknifyrirtæki keypt inn í reksturinn þannig að fyrirtækið hefur stækkað hratt á skömmum tíma. Helst má þar nefna Netvistun, Davíð og Golíat, Opex og Tölvustoð. Öll þessi fyrirtæki móta þá heild sem PREMIS er í dag. Framundan er svo áframhaldandi vöxtur með áherslu á heildarþjónustu við fyrirtæki með traust og samtvinnuð markmið beggja aðila að leiðarljósi.
Eigendur PREMIS eru í dag tveir sem skipta hlut jafnt á milli sín. Það eru Eskimo Rental ehf. sem er að mestu í eigu Kristins Elvars Arnarssonar og Fiskisund ehf. Kristinn sem hefur verið einn af eigendum frá upphafi situr í stjórn ásamt Kára Þór Guðjónssyni sem situr fyrir hönd Fiskisunds, en Kári er jafnframt stjórnarformaður.
Í dag er Kristinn forstjóri PREMIS, en aðrir lykilstjórnendur eru Daði Hannesson fjármálastjóri, Gunnar Ingi Björnsson, sölu og markaðsstjóri, Björgvin Þorsteinsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og Halldór Áskell Stefánsson framkvæmdastjóri hugbúnaðarsviðs.
Rekstrarþjónusta
Rekstrarþjónusta tölvukerfa snýst að mestu leiti um að byggja upp áreiðanlega og örugga heild af búnaði og kerfum svo viðskiptavinir geti unnið að sínum verkefnum og markmiðum án atvika sem trufla starfsemina. Þegar eitthvað kemur upp þurfa að vera til staðar ferlar og þekking til að leysa úr málum hratt og örugglega. Með þetta að leiðarljósi nálgast PREMIS sína rekstrarþjónustu. Unnið er samkvæmt stöðlum og bestu aðferðum í uppsetningu og öryggismálum þar sem bæði búnaður og kerfi eru vöktuð til að tryggja samfellda þjónustu þeirra. Þjónustuframlínan er síðan til staðar með þau verkfæri sem þarf til að leysa vandamálin þegar þau koma upp.
Skýjalausnir
Á undanförnum árum hafa orðið straumhvörf í skýjaþjónustum fyrir fyrirtæki. Microsoft ber þar höfuð og herðar yfir aðra enda er nánast öll fyrirtæki og stofnanir að nýta sér Microsoft 365 skýjaþjónustu þeirra. PREMIS hefur lagt mikla áherslu á að byggja upp þekkingu þar. Það skiptir miklu máli hvernig þessar lausnir eru settar upp og að farið sé vel yfir stillingar á öryggismálum innan lausnarinnar. Einnig er mjög mikilvægt að fyrirtæki nýti þá miklu möguleika sem felast í þeim hugbúnaði sem fylgir skýjalausnapakkanum. Þar hefur PREMIS byggt upp öflugt fræðslukerfi og ráðgjöf í að sérsníða lausnirnar að þörfum viðskiptavina.
Hýsing og nettengingar
Tölvukerfin eru oft á tíðum hjarta hvers fyrirtækis. Þó svo að skýjalausnir séu almennt að ryðja sér til rúms og mörg fyrirtæki reka sína starfsemi eingöngu í skýinu, þá eru fjölmörg fyrirtæki og stofnanir sem þurfa að hýsa hluta sinna kerfa hér landi. PREMIS hefur byggt upp öflugt og öruggt hýsingarumhverfi sem staðsett er í þremur gagnaverum hér á landi. PREMIS er einnig fjarskiptafyrirtæki með sitt eigið netlag og getur boðið sínum viðskiptavinum nettengingar af öllum gerðum og stærðum.
Vefhýsing og veflausnir
PREMIS er annar stærsti vefhýsingaraðili landsins. Langflestar þeirra vefsíðna sem þar eru hýstar hafa verið smíðaðar af PREMIS eða fyrirtækjum sem nú er hluti af PREMIS, og má telja þær í þúsundum. Á hverju ári setur PREMIS í loftið 60-80 nýja vefi fyrir viðskiptavini sína.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd