Prófílstál ehf

2022

Alexander Bridde er stofnandi Prófílstáls ehf. Ungur að árum hóf hann nám í vélsmíði og varð meistari í sinni grein. Hann fór að starfa við fagið hjá ýmsum aðilum eins og Sindra og Sól. Síðan starfaði hann hjá Stáltækni þar sem hann kláraði samning og útskrifaðist með sveinspróf í vélvirkjun. Í dag er hann vélvirkja- og stálvirkjameistari með byggingastjóraréttindi. Aðeins 23 ára var hann farinn að starfa sjálfstætt því næg voru verkefnin. Hann fékk nokkra starfsfélaga sína í lið með sér og fór að vinna að hinum ýmsu verkefnum sem nóg var af á þeim tíma. Umsvifin jukust smám saman, allt frá því að vera með aðstöðu í skúrnum heima foreldrunum til þess að taka húsnæði á leigu í Kópavoginum þangað til fest voru kaup á eigin húsnæði á Smiðshöfðanum. Prófílstál var stofnað formlega 1985 en hét þá Galdrastál og fór starfsemin fram við Vesturvör í Kópavogi. Prófílstál hóf síðan starfsemi sína á Smiðshöfða 15 árið 1999 og á árunum 2007-2008 var húsnæðið stækkað um helming og er í dag rúmir 600 fermetrar.

Verkefnin
Verkefnin hafa alla tíð verið næg og í kreppunni varð frekar aukning en samdráttur í járnsmíði í samanburði við það sem átti sér stað í t.d. trésmíði. Prófílstál hefur sérhæft sig í því að smíða aukahluti og sérstakan útbúnað fyrir bíla eins og dráttarbeisli, toppgrindur, ljósagrindur, veltigrindur o.fl. Einkum hefur fyrirtækið hannað og smíðað sérstakan búnað fyrir lögreglubíla, sérsveitarbíla, stóra jeppa, björgunarsveitabíla, fyrir slökkviliðið o.fl.
Prófílstál smíðar mikið fyrir Arctic Trucks og ýmis önnur bílaumboð. Þeir hjá Prófílstál útbjuggu m.a. annars jeppa sem fóru á Suðurskautslandið. Í dag eru 6 manns sem starfa hjá fyrirtækinu og sumir hverjir hafa starfað þar í yfir 20 ár svo starfsmannaveltan er ekki mikil. Störfin krefjast ákveðinnar sérþekkingar sem sumpart hefur orðið til innan fyrirtækisins undir forystu Alexanders Bridde sem getið hefur sér gott orð fyrir hugvit og útsjónarsemi í greininni.
Það er óhætt að segja að starfsemin sé fjölbreytt enda kemur járnsmíði víða að góðum notum. Fyrir utan bílahlutina þá þjónustar Prófílstál byggingariðnaðinn. Þeir hafa smíðað t.d. stálgrindarhús, stigahandrið og unnu við að laga gluggapóstana í gömlu Sundhöllinni í Reykjavík sem er friðuð, ásamt því að vinna við endurbætur á stálhlutum í friðuðum húsum og á listaverkum. Ryðfrí smíði er stór þáttur í starfinu og eru fáar sundlaugar á landinu sem Prófílstál hefur ekki unnið við.
Alexander er metnaðarfullur fyrir hönd fyrirtækisins og hefur gaman af að starfa við fagið. Hann er stoltur af því sem hefur verið gert og nýtur þess að fást við ný og fjölbreytt verkefni sem snúa að hönnun og smíði. Góð samvinna hans og annarra starfsmanna Prófílstáls hafa skilað góðri hönnun og vandaðri smíði til viðskiptavina bæði hérlendis sem erlendis. Sonur hans og tengdasonur starfa báðir hjá fyrirtækinu.
Alexander Bridde er margt til lista lagt og smíðar ýmiskonar skrautgripi fyrir sérstök tilefni í frítímanum. Hann er bjartsýnn á framtíðina og telur að verði nóg að gera í járnsmíði á næstu árum. Að vísu er ekki mikil nýliðun í faginu svo hann telur sig lánsaman að hafa hæfa og góða menn í vinnu og ekki síst jafn lengi og raun ber vitni. Alexander telur að það sé vissulega tækifæri fyrir unga menn í járnsmíði í dag því alltaf verði þörfin til staðar.

Starfsmenn
Hvað varðar starfsmannahaldið þá er ýmislegt gert til að halda vinnuandanum góðum eins og að fara saman á jólahlaðborð og ýmsa viðburði. Ekki er óalgengt að skroppið sé í lengri eða styttri ferðir þegar svo ber undir.

Þess má gera að Prófílstál ehf. er eitt fárra fyrirtækja í þessum geira sem hefur hlotið gæðavottun samkvæmt gæðavottunarkerfi frá hinu opinbera.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd