Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ehf. (RML) hóf starfsemi 1. janúar 2013 við sameiningu ráðgjafarþjónustu búnaðarsambandanna í landinu og ráðgjafasviðs Bændasamtaka Íslands. Á búnaðarþingi í febrúar 2012 var samþykkt ályktun þar sem sagði að stefnt skyldi að því að sameina ráðgjafarþjónustu búnaðarsambandanna og Bændasamtaka Íslands í eina rekstrarreiningu. Í framhaldi af því var skipaður starfshópur og ráðinn verkefnisstjóri. Þær tillögur voru lagðar til grundvallar starfi aukabúnaðarþings sem haldið var 29. október 2012. Niðurstaða þingsins varð sú að samþykkja eftirfarandi ályktun: „Búnaðarþing – aukaþing 2012, samþykkir að stofna félag um leiðbeiningaþjónustu bænda. Félagið verði í eigu Bændasamtaka Íslands, en með sjálfstæðri stjórn og fjárhag. Stjórn félagsins skulu skipa framkvæmdastjóri BÍ auk fjögurra fulltrúa sem þingið velur. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Umboð stjórnar gildir til búnaðarþings 2013.“
Helstu verkefni fyrirtækisins
RML er ráðgjafarfyrirtæki í landbúnaði sem einnig er falið að sinna lögbundnum verkefnum, s.s. við framkvæmd ræktunarstarfs íslensku búfjárkynjanna. Öll dómstörf, kynbótamatsútreikningar og skýrsluhald eru á vegum RML. Einnig sinnir RML margs konar nýsköpunarverkefnum ásamt því að vera þáttakandi í verkefnum með samstarfsaðilum sem sinna fræðslu, nýsköpun eða rannsóknum á sviði landbúnaðarins. Verkefnin eru því mjög fjölbreytt og innan raða RML margir sérfræðingar sem oftast eru kallaðir ráðunautar, sem sinna hinum ýmsu verkefnum. Veitt er ráðgjöf á sviði jarðræktar, rekstrar, fóðrunar, ylræktar og almennt um aðbúnað einstakra búfjárkynja. Þjónusta við skýrsluhald, merkingar og skráningar er einnig veigamikill partur af starfsemi RML.
2020
Ráðgjafarmiðstöðin hefur nú starfað í rúm átta ár. RML hefur á þessum stutta tíma náð að festa sig í sessi, ásókn í störf hjá fyrirtækinu hefur verið góð og verkefni þess aukist jafnt og þétt. Fyrirtækið er nú leiðandi í verkefnum bænda vegna aðgerða á sviði loftslags og umhverfismála og má þar nefna til dæmis Loftslagsvænan landbúnað. Markmið verkefnisins Loftslagsvæns landbúnaðar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna landbúnaðar og landnýtingar og auka kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri. Í byrjun mars 2020 var undirritaður samningur um þetta samstarfsverkefni stjórnvalda, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Landssamtaka sauðfjárbænda um aðgerðir í loftslagsmálum. Ætlunin er að fleiri búgreinar komi inn í verkefnið og það myndi ramma utan um aðgerðir bænda í umhverfis- og loftslagsmálum. Um áramótin 2019-2020 kom tölvudeild Bændasamtaka Íslands inn í fyrirtækið og nú er haldið utan um öll skýrsluhaldskerfi bænda hjá RML bæði hvað varðar forritun og þjónustu. Með breytingunni færðist upplýsingatækni og ráðgjöf undir sama hatt, en svipaður háttur er hafður á hjá mörgum ráðgjafarþjónustum í nágrannalöndum. Útreikningar á kynbótamati, þróun forrita og forritun verður öll á sama stað. Flutningur verkefna tölvudeildar BÍ styrkir starfsemi RML og byggir upp aukna þekkingu starfsfólks. Tækniþróun í landbúnaði er gríðarlega hröð og mikilvægt að þekking sé sem breiðust innan raða RML, á þeim möguleikum sem upplýsingatæknin getur fært íslenskum bændum og orðið landbúnaði til framdráttar. Árið 2020 markaði starfsemi RML eins og hjá öðrum fyrirtækjum og öllum Íslendingum. Vegna þess hversu dreifð starfsemin er þá var frá upphafi lögð mikil áhersla á góða veftengingu innan fyrirtækisins sem og við viðskiptavini. Fyrirtækið var því vel undir það búið að takast á við þá áskorun að geta ekki farið út til bænda og miðlaði því fræðsluefni í gegnum netið og með fjarfundum. Því voru haldin bæði stærri og minni námskeið á netinu ásamt því að haldnir voru fræðslu- og spjallfundir. Einnig miðlaði RML fræðsluefni tengdu COVID-19 og landbúnaði á heimasíðu til þess að bændur gætu leitað að efni sem gæti aðstoðað við að varna því að þeir fengju COVID-19 eða að veiran bærist inn á búin. Stærri verkefni eins og Landbúnaður og náttúruvernd og Loftslagsvænn landbúnaður fóru að stórum hluta í gegnum netið. Árlegum verkefnum eins og kynbótadómum einstakra búfjárkynja var hægt að sinna, en þó með töluverðum takmörkunum. Fróðlegt var að fylgjast með hversu skamman tíma það tók að fá alla til þess að vera þátttakendur þrátt fyrir að um fjarfundi væri að ræða. Þarna opnuðust því ný tækifæri á að koma ráðgjöf og fræðsluefni á framfæri með þessum hætti.
Stjórn og stjórnendur
Samkvæmt samþykktum er stjórnarformaður RML á hverjum tíma framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. Fyrsti stjórnarformaður RML var Eiríkur Blöndal en Sigurður Eyþórsson tók við árið 2015 og var stjórnarformaður til áramóta 2020-2021 þegar Vigdís Häsler tók við. Framkvæmdastjóri frá upphafi utan eins árs í leyfi hefur verið Karvel Lindberg Karvelsson. Vignir Sigurðsson fjármálastjóri gegndi starfi framkvæmdastjóra á meðan Karvel var í leyfi. Í stjórn hafa að mestu setið bændur en þó eru nokkra undantekningar frá því. Við árslok 2020 voru eftirfarandi í stjórn auk stjórnarformanns, Guðríður Helgadóttir lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Hallfríður Ólafsdóttir bóndi, Jóna Björg Hlöðversdóttir bóndi og Guðmundur Stefánsson formaður ungra bænda. í hópi stjórnenda hafa frá upphafi verið Borgar Páll Bragason, Helga Halldórsdóttir og Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir. Auk þeirra tilheyra nú hópnum þeir Sigurður Guðmundsson, Sigtryggur Veigar Herbertsson og Þorberg Þórður Þorbergsson. Úr stjórnendahópnun hafa horfið þau Vignir Sigurðsson, Gunnar Guðmundsson, Runólfur Sigursveinsson og Berglind Ósk Óðinsdóttir.
Fjöldi starfsmanna og dreifing
Fjöldi starfsmanna er fimmtíu og tveir í fjörutíu og þrem stöðugildum og eru starfsmenn dreifðir út um allt land. Við lok árs 2020 voru starfsstöðvarnar 13 með allt frá einum starfsmanni upp í átta þar sem mest var. Starfsfólk RML þjónar í sínu nærumhverfi en jafnframt sinna flestir öllu landinu þannig að sérþekking hvers og eins nýtist sem best. Einnig eru einstaka starfsmenn að stýra eða eru þátttakendur í stórum verkefnum sem eru ekki bundin við einstök landssvæði. Starfsfólk RML er sérhæft í sínum fræðum, flestallir starfsmenn hafa grunnpróf frá háskóla en einnig eru margir með framhaldsmenntun og doktorspróf.
Framtíðarsýn samkvæmt stefnumótun til 2022 er að:
- RML sé faglega öflugt, og óháð ráðgjafarfyrirtæki með gott orðspor.
- RML sé leiðandi í ráðgjöf, þróun hennar og miðlun þekkingar til framþróunar í landbúnaði og tengdum greinum.
- RML sé traustur og eftirsóknarverður vinnustaður með vel menntuðu og hæfu starfsfólki sem nýtur sín í starfi og getur nýtt þekkingu sína í þágu landbúnaðar.
- RML sé rekið á ábyrgan og hagkvæman hátt.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd