Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf.

2022

Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. er rótgróið fyrirtæki sem sinnir jarðborunum á Íslandi. Félagið hefur mikla reynslu af hvers kyns jarðborunum innalands, meðal annars borun eftir heitu og köldu vatni, rannsóknarborunum, borun vatns- og sjótökuhola og borun hola fyrir varmadælur.

Saga Ræktunarsambands Flóa og Skeiða
Ræktunarsamband Flóa og Skeiða var stofnað sem samvinnufélag þann 22. janúar 1946 og telst því í dag vera eitt elsta verktakafyrirtæki landsins. Félaginu var svo breytt í hlutafélag árið 1993. Að stofnuninni komu bændur í fimm hreppum á því svæði sem í dag telst til Flóa og Skeiða, en hér var um að ræða einskonar samruna búnaðarfélaga sveitanna undir merki eins ræktunarsambands. Gaulverjabæjarhreppur, Hraungerðishreppur, Sandvíkurhreppur, Skeiðahreppur og Villingaholtshreppur komu að stofnun félagsins en síðar bættust Eyrabakka- og Stokkseyrarhreppur við. Tilgangurinn með stofnun félagsins var að stefna að stórfelldri þurrkun lands þar sem svæðið var blautt og illfært, sérstaklega á vorin, og hentaði illa til ræktunar. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða átti sinn þátt í að gjörbreyta búsetuskilyrðum á sínum tíma með því að rækta upp fyrir bændur í Flóanum og Skeiðunum og byggja upp starfsemi í sveitunum.
Félagið hefur lengi verið einn öflugasti jarðvinnuverktaki á heimasvæði sínu og byggði upp öfluga bordeild.  Fyrstu ár félagsins var helsti tækjakostur félagsins gröfur og jarðýtur. Í kringum árið 1980 jókst umfang félagsins jafnt og þétt. Fjölbreytni verka jókst, verktakastarfsemi jókst og fyrsti bor félagsins var keyptur í kjölfarið.
Miklar breytingar urðu á rekstri Ræktunarsambandsins á síðasta áratug. Árin 2008-2014 voru félaginu þung en í kjölfar efnahagshruns á landinu breyttist staðan á einni nóttu. Á árinu 2014 lauk endurskipulagning á rekstrinum. Í kjölfar endurskipulagningar var jarðvinnudeild félagsins seld og starfsemi Ræktunarsambands Flóa og Skeiða hefur frá þeim tíma einblínt á undirbúning og framkvæmd jarðborana. Árið 2015 keyptu Jarðboranir hf. allt hlutafé í Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða en þar sameinast miklir kraftar og sérþekking á sviði jarðborana.

Starfsemi og tækjabúnaður
Félagið sinnir eins og áður borun eftir heitu og köldu vatni en verkefnin eru fjölbreytt og felast auk þess í borun rannsóknarhola, borun hitastigulshola (hitaleit), kjarnaborun, hreinsun gufuhola, og borun grundunarhola. Einnig hefur félagið átt sinn þátt í því að stuðla að fjölbreyttari eldsneytisnotkun bifreiða en félagið hefur á undanförnum árum borað eftir metangasi. Borun hola fyrir varmadælur og borun víðra vatns- og sjótökuhola fyrir sjó og vatns- og sjóeldi hefur á undanförnum árum einnig verið góð viðbót við þjónustu félagsins. Viðskiptavinahópur félagsins er því fjölbreyttur en meðal þeirra eru bændur, sumarhúsaeigendur, hitaveitur, sveitarfélög og stór fyrirtæki.
Verkefni félagsins eru því ólík en mannauður félagsins býr yfir gríðarlegri reynslu sem skiptir miklu máli þegar leysa þarf flókin verkefni. Hluti starfsmanna hefur starfað hjá félaginu allan sinn starfsaldur og aðrir hafa áratuga reynslu af borframkvæmdum. Innan félagsins býr því mikil þekking og reynsla á borverkefnum og með kaupum Jarðborana á Ræktunarsambandinu jókst sú sérþekking til muna. Starfsmenn félagsins eru 23 talsins.
Borfloti félagsins samanstendur af 7 ólíkum borum sem henta í mismunandi boranir og eru með lyftigetu allt frá 5 tonnum og upp í 65 tonn.

Framtíð félagsins
Framtíð félagsins er björt. Víða á landinu eru sveitafélög að stækka og með aukinni vatnsnotkun eykst eftirspurn veitufyrirtækja og sveitarfélaga eftir vatni fyrir íbúa og til húshitunnar. Ræktunarsambandið er vel í stakk búið til þess að þjónusta veitufyrirtækin og sveitarfélögin með því að tryggja nægt famboð með hitaleit og borun vinnsluhola. Einnig er mikil uppbygging fyrirsjáanleg í fiskeldi á landi og félagið er með reynslu og tæki til að skaffa þeim fyrirtækjum það vatn og sjó sem þarf fyrir þá framleiðslu.
Markmið félagsins er að vera áfram leiðandi á sviði jarðborana á landsvísu og tryggja að viðskiptavinum sé veitt framúrskarandi þjónusta.

Aðsetur
Höfuðstöðvar Ræktunarsambands Flóa og Skeiða hafa frá upphafi verið á Selfossi og árið 2020 flutti félagið í nýtt húsnæði á Víkurheiði 6, 801 Selfossi. Framkvæmdastjóri félagsins er Guðmundur Ármann Böðvarsson.
Vefsíða: www.raekto.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd