Rafal ehf.

2022

Rafal sf. var stofnað í Búðardal árið 1983, að frumkvæði Orkubús Vestfjarða og var tilgangurinn með stofnun félagsins að annast hvers konar þjónustu á rafbúnaði orkufyrirtækja. Stofnendur voru Kristjón Sigurðsson og Hilmar Óskarsson. Rafal var breytt í hlutafélag árið 1990. Núverandi eigendur Rafal ehf. eru Kristjón Sigurðsson, stjórnarformaður, Sigurjóna Valdemarsdóttir og Valdimar Kristjónsson sem einnig er framkvæmdastjóri. Upphaflega rúmaðist starfsemin í 30 fm bílskúr að Sunnubraut 10 í Búðardal. Þann 26. nóvember 1986 fékk Rafal A löggildingu Rafmagnseftirlits Ríkisins. Í desember árið 1986 keypti Rafal 190 fm í iðnaðarhúsi að Vesturbraut 20 í Búðardal. Í september 1988 hófst starfsemi Rafal í Reykjavík og nágrenni. Í janúar 1991 sótti Rafal um rafverktakaleyfi á orkuveitusvæði Rafmagnsveitu Reykjavíkur, þá var aðstaðan meðal annars í 40 fm bílskúr við Eyjabakka 3. Árið 1993 hætti Rafal rekstri í Búðardal og seldi húsnæðið að Vesturbraut 20. Haustið 1994 flutti Rafal starfsemina í 40 fm bílskúr að Heiðarhjalla 5. Í árslok 1999 fjárfesti fyrirtækið í 420 fm iðnaðarbili að Miðhrauni 22 í Garðabæ og flutti alla starfsemi sína þangað

Starfsemin
Haustið 2004 var Reykjanesvirkjun boðin út og í framhaldinu gerði Rafal samning um að útvega og setja upp allan rafbúnað virkjunarinnar. Þetta var langstærsta verkefnið sem Rafal hafði tekið að sér á þeim tíma. Starfsmönnum fjölgaði úr rúmlega 10 í 30 og ráðist var í mikla fjárfestingu í tækjabúnaði og ökutækjum, sem gerði fyrirtækinu kleyft að taka að sér stærri verkefni í framtíðinni. Þarna var lagður grunnur að þeirri víðtæku þjónustu sem Rafal sinnir í dag. Árið 2009 stofnaði Rafal dótturfyrirtæki, Faðmlag sem keypti 1660 m² glæsilegt iðnaðarhús á 1,5 hektara lóð að Hringhellu 9 í Hafnarfirði. Þar hóf Rafal framleiðslu á dreifispennum, m.a. fyrir Rarik og brást þannig við breyttum aðstæðum í atvinnulífinu vegna hruns fjármálakerfisins. Með þessari ákvörðun var komið í veg fyrir verkefnaskort og Rafal hélt áfram sama vexti og fyrri ár. Frá 2013 er eignarhlutur Rafal 33% í Faðmlagi ehf. sem er eigandi að húsunum á Hringhellu 9, og Hringhellu 9a. Vorið 2017 stofnaði Rafal annað dótturfyrirtæki, Lýsir ehf. Megin starfsemin er sérhæfing á sviði fjarskipta og ljósleiðara ásamt sölu á tengdum vörum. Í janúar 2019 keypti Rafal verkfræðistofuna Afl og Orku ehf. og eru bæði fyrirtækin til húsa að Hringhellu 9a.

Verkefni og rekstur
Verkefni Rafal hafa verið af sama toga frá upphafi en aukist mikið og þróast. Nú er rekin fjölbreytt þjónusta við fjölda raforkufyrirtækja og aðra notendur raforku. Að verulegu leyti er verslað við innlenda birgja en einnig er nokkur innflutningur á sérhæfðum vörum.
Rafal framleiðir dreifispenna í nokkrum stærðum og gerðum, dreifistöðvahús og einnig svonefnda straumbeina, en aðalsöluvara fyrirtækisins er þjónusta og þekking á sviði rafmagns og fjarskipta. Fyrirtækið er orðið annað stærsta rafverktakafyrirtæki landsins og alfarið í eigu tengdra aðila. Haustið 2020 var tekin upp deildarskipting í fyrirtækinu til þess að öðlast betri yfirsýn yfir reksturinn og dreifa ábyrgð og álagi. Rafal starfar í hörðu samkeppnisumhverfi sem hefur hjálpað til við að þroska fyrirtækið og efla. Sérstaða Rafal snýst fyrst og fremst um að vera leiðandi á sviði háspenntrar raforku. Í einkageiranum starfa hvergi fleiri hæfir rafveituvirkjar, meðal annars sem línumenn, en hjá Rafal. Frá árinu 2010 hefur starfsmannafjöldinn tvöfaldast, vaxið úr rúmum fjörutíu í um áttatíu starfsmenn. Tugir rafvirkja og rafveituvirkja hafa lært og lokið sveinsprófi hjá Rafal á liðnum árum.

Rafal leggur áherslu á:
Öryggi starfsmanna, umhverfi og góða vinnuaðstöðu.
Tækifæri til að vaxa í starfi. Fyrirtækið styður starfsmenn til náms og gefur tækifæri
á krefjandi verkefnum og aukinni ábyrgð.
Virðingu milli starfsmanna, jákvæðni og jafnrétti.
Traust milli starfsmanna og trúnað. Rafal leggur ríka áherslu á að starfsmönnum
líði vel í vinnunni og að þeir búi við gott starfsöryggi.
Að starfsmenn upplifi sig sem mikilvægan hluta af stórri og metnaðarfullri heild þar sem jákvætt starfsumhverfi, gott samstarf, virðing fyrir samstarfsfólki og samheldni er lykilatriðið. Með þetta að leiðarljósi vill Rafal hafa yfir að ráða hæfum, áhugasömum og framsæknum starfsmönnum í þau verkefni sem upp koma.

Saga Rafal sögð af listmálaranum Hermanni Árnasyni, fyrrverandi starfsmanni Rafal

Framtíðin okkar er björt
Fyrirtækið hefur verið í hópi framúrskarandi fyrirtækja frá 2014 að mati CreditInfo. Rafal hefur vottun samkvæmt ISO 9001:2015 sem nær yfir alla starfsemi fyrirtækisins og vinnur samkvæmt fjölda sérhæfðra staðla. Skipulagsbreytingar hafa verið gerðar til að mæta hröðum vexti síðustu ára en viðskiptavinir hafa aldrei verið fleiri. Rafal er fyrst og fremst þjónustufyrirtæki þó einnig sé unnið að nýframkvæmdum, svo sem breytingum á, og stækkun aðveiturtöðva og virkjana en stækkun Reykjanesvirkjunar hefst á næstu mánuðum. Rafal hefur gríðarlegan metnað fyrir eigin framleiðslu og hefur góða aðstöðu, tæki og búnað til að takast á við áskoranir samtímans og framtíðarinnar. Mikilvægasti hlekkurinn í velgengni Rafal er mannauðurinn, reynsla, menntun og hæfni starfsmanna, gera það að verkum að sömu viðskiptavinir hafa haldið tryggð við fyrirtækið frá stofnun. Starfsemi Rafal er í glæsilegu 1850 fm húsnæði, á 10.000 fm, lóð að Hringhellu 9 í Hafnarfirði. Heimasíðan er rafal.is. Starfsmenn sem eru nú árið 2020 um 80, hafa víðtæka þekkingu og reynslu á störfum rafveitna og stórnotenda rafmagns. Árið 2011 var heildarsala Rafal tæpar 500 milljónir, 2015 rúmar 800 milljónir og 2019 rúmar 1.400 milljónir. Rafal er aðili að samtökum iðnaðarins með aðild að SART.

COVID-19 og samfélagsleg ábyrgð
Árið 2020 var húsinu skipt í fjögur sóttvarnarhólf vegna sóttvarnarreglna á árinu og samgangur milli starfsmanna hafður í algjöru lágmarki. Meirihluti starfsmanna á skrifstofu starfaði heiman frá til að lágmarka smithættu þeirra sem þjónusta viðskiptavini fyrirtækisins. Verkefni drógust saman en aðhald í kostnaði og gott skipulag tryggðu áframhaldandi góða starfsemi.
Rafal leggur áherslu á að sýna samfélagsábyrgð og leggja góðum málefnum lið. Frá upphafi reksturs fyrirtækisins hefur verið lögð mikil áhersla á nýtingu auðlinda og virðingu fyrir umhverfinu. Fjöldi verkefna sem unnið er að, hafa það að leiðarljósi að minnka kolefnislosun viðskiptavina, með nýtingu á rafrænan búnað til vöktunar. Rafal er meðal annars stoltur stuðningsaðili körfuknattleiksdeilar Hauka.

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd