Raffó ehf er rafverktakafyrirtæki í Fjallabyggð (Siglufirði) stofnað hrunárið 2008. Fyrirtækið stofnuðu feðgarnir Aðalsteinn Þór Arnarsson og Marteinn Örn Aðalsteinsson.
Aðalsteinn er rafmagns- og rekstrariðnfræðingur og rafvirkjameistari og Marteinn sveinn í rafvirkjun og nú í meistaraskóla.
Í stjórn sitja þeir feðgar ásamt Vilborgu Rut Viðarsdóttur (eiginkona og móðir).
Sömu eigendur og sama stjórn hafa verið frá stofnun til dagsins í dag.
Mannauður
Í upphafi voru starfsmenn þrír en fjölgaði fljótlega í fjóra. Fjöldi starfsmanna hefur verið á bilinu fjórir til átta eftir verkefnum.
Raffó hefur verið með stór verkefni sem kallaði á fleiri rafvirkja. Ákveðið var að fjölga ekki starfsmönnum Raffó heldur fá aðra rafverktaka á svæðinu í samstarf tímabundið. Reyndist þetta vel. Raffó ehf. hefur verið ákaflega heppið með starfsfólk og er lítil starfsmannavelta.
Frá upphafi hafa starfað hjá fyrirtækinu, Aðalsteinn Þór Arnarsson, Marteinn Örn Aðalsteinsson og Sigurbjörn Jóhannsson sem starfar í dag í hlutastarfi vegna aldurs. Fljótlega hóf Agnar Sveinsson vinnu hjá Raffó og starfar þar enn í dag.
Raffó nýtti sér starfskrafta eldri starfsmanna tímabundið og verkefnatengt. Voru það starfsmenn í fullu fjöri en hættir vinnu vegna aldurs. Þessi hópur var kallaður Sésveitin, sem samanstóð af þremur eldri rafvirkjum. Einn af þeim var Arnar Ólafsson faðir og afi eigenda. Hann hafði starfað áður hjá Rafveitu Siglufjarðar og síðan Rarik.
Í dag starfa hjá Raffó: Aðalsteinn, Marteinn, Sigurbjörn (eitt og eitt verk), Agnar og synir Aðalsteins, þeir Hjörvar Már Aðalsteinsson, sveinn frá 2020 og Bjartmar Ari Aðalseinsson nemi og stundar skóla í VMA með vinnu.
Starfsemin
Raffó ehf. er alhliða rafverktakafyrirtæki. Um það bil 70-75% af starfseminni er þjónusta við sjávarútveginn og fyrirtæki í Fjallabyggð og víðar og þá um það bil 25-30% er vinna við nýbyggingar, breytingar og verk fyrir einstaklinga.
Meðal stærri þjónustuverkefna Raffó í sjávarútvegi eru: Rammi hf. rækjuverksmiðja og skip þeirra, Sólberg ÓF 1 (sem er eitt af nýjustu og fullkomnustu fiskiskipum Íslendinga) og
Múlaberg SI 22. Fiskkaup Kristrún RE 177 og á haustin, þ.e. frá ágúst til jóla, línuskipaflotinn sem leggur upp hjá Fiskimarkaði Siglufjarðar. Skip frá Þorbirni hf., Stakkavík hf. og fleiri stórum útgerðum víðs vegar um landið. Raffó þjónustar líka fyrirtæki í líftækniiðnaði. Primex ehf. sem vinnur kítin og kitosan úr rækjuskel, Genis ehf. sem áframvinnur fæðubótarefni úr kítin.
Önnur stærri þjónustuverkefni eru: Vegagerðin, þjónustusamningur vegna Strákagangna, Héðinsfjarðargangna og Múlagangna, HSN, Fjallabyggð og Skíðasvæðið Skarðsdal. Meðal stærri nýbygginga- og uppbyggingaverkefna Raffó eru: fyrir Selvík ehf. og athafnamanninn Róbert Guðfinnsson, Sigló Hótel, veitingastaðina Hannes Boy, Kaffi Rauðku (veitinga og tónleikastað), stóreldhús (iðnaðareldhús) í svokölluðu græna húsi. Fyrir Fljótabakka ehf.: lúxus Hótel að Deplum í Fljótum og önnur hús þeirra. Fyrir Orkusöluna: endurnýjun á stýribúnaði Skeiðsfossvirkjunar efri og alls rafbúnaðar Skeiðsfossvirkjunar neðri.
Framtíðin
Starfsemi Raffó ehf. er í fullum gangi nú árið 2021. Við horfum björtum augum til framtíðar og erum vel mannaðir með réttindamenn og góða aldursdreifingu. Við leggjum metnað í að þjónusta og halda okkar góðu og traustu viðskiptavinum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd