Rafgeymasalan ehf.

2022

Fagmennska og góð þjónusta í 70 ár
Rafgeymasalan ehf. er eitt elsta fyrirtækið í Hafnarfirði, en sögu fyrirtækisins má rekja aftur til áranna í kringum 1950 þegar framleiðsla íslenskra rafgeyma hófst í Hafnarfirði. Í dag er Rafgeymasalan eitt sérhæfðasta fyrirtækið á sínu sviði, þar sem öll áhersla er lögð á fyrsta flokks rafgeyma, ábyrga og örugga starfsemi og persónulega þjónustu. Fram undir 1950 voru allir rafgeymar fluttir inn til landsins, en með aukinni bíla- og vélaeign landsmanna jókst eftirspurn eftir rafgeymum. Til að mæta aukinni eftirspurn risu hér á landi tvær rafgeymaverksmiðjur upp með stuttu millibili, þ.e.a.s. Rafgeymir hf. í Hafnarfirði og Pólar hf. í Reykjavík og síðar sú þriðja, Tækniver hf. á Hellu. Á þessum tíma voru sett innfutningshöft á rafgeyma og ýmsar vörur og samhliða því náðu þessar verksmiðjur að eflast og styrkjast og fullnægja nánast allri þörf innanlandsmarkaðar fyrir rafgeyma.Stofnendur fyrirtækisins Rafgeymir hf. voru Jón Magnússon og Axel Kristjánsson ásamt fleiri aðilum. Jón hafði aflað sér þekkingar á framleiðslu rafgeyma í Danmörku þar sem hann hafði dvalið vegna náms og starfs. Fyrirtækið var í upphafi starfrækt í litlu rými í húsi við Lækinn í Hafnarfirði eða við Lækjargötu, sem í daglegu tali var kallað Steinullarhúsið, en þar var einnig framleidd steinull.

Starfsemin
Rafgeymar fyrirtækisins voru seldir undir vörumerkinu KENTAR og auglýstir sem kraftmiklir og endingargóðir geymar fyrir ljós, talstöðvar, dýptarmæla og ,,start”. Rafgeymarnir voru búnir til nánast frá grunni. Undirstöðuhráefnið sem er blý var flutt til landsins í 50 kg. stykkjum frá Evrópu. Hráblýið var steypt í plötur sem voru smurðar með blýdufti, rafmagnaðar og þurrkaðar. Plöturnar voru síðan lóðaðar saman í plús og mínus ,,sellur” og síðan var sérstakt einangrunarefni notað til að einangra þær. Þær voru að því loknu settar í geymsluhylkið og því lokað og þá var geymirinn tilbúinn til hleðslu.
Á fyrstu árum sjöunda áratugarins flutti starfsemin úr húsinu við lækinn þegar Jón Magnússon stóð að byggingu hússins við Dalshrauni 1 sem þótti á þeim tíma vera stórbygging. Starfsemin hjá Rafgeymi hf. fluttist í hluta af því húsi árið 1962.
Upp úr 1966 er slakað á innflutningshöftum á Íslandi og í kjölfarið jókst innflutningur á erlendum rafgeymum. Innlendu framleiðendurnir héldu til að byrja með nokkuð góðri markaðslhutdeild, en heldur fór róðurinn þó að þyngjast með tilkomu innfluttra geyma úr plasti og á endanum stóðst innlend framleiðsla ekki samkeppni við þessa nýju tegund rafgeyma og framleiðslu á rafgeymum hér á landi var hætt. Þegar best lét hafði framleiðsla innlendra rafgeyma veitt 5-6 mönnum atvinnu í Hafnafirði, en almennt eru litlar heimildir til um þessa starfsemi hér á landi og þeir sem störfuðu við þá framleiðslu eru nú fallnir frá. Í atvinnusögu landsmanna verður kaflinn um rafgeymaframleiðslu þannig fremur stuttur, en enn eru þó til einn KENTAR rafgeymir sem var búinn til hér á landi og er varðveittur og til sýnis í Rafgeymasölunni. Megináhersla í starfsemi Rafgeymasölunnar ehf. síðustu áratugina hefur verið á innflutning fyrsta flokks rafgeyma, fagmennsku og góða og örugga þjónustu. Fyrirtækið hefur ævinlega kappkostað að bjóða upp á hágæðarafgeyma. Fyrstu árin var það í formi eigin framleiðslu og síðan rafgeyma frá öflugum framleiðendum eins og Varta, Berga og Danbrit. Lögð er áhersla á að bjóða upp á fjölbreytt úrval af bílageymum, neyslugeymum, lyftarasellum, hleðslutækjum og startköplum til að mæta ólíkum þörfum fjölbreytts hóps viðskiptavina. Á verkstæði fyrirtækisins að Dalshrauni 17 er hægt að fá á einum stað rafgeyma fyrir öll farartæki, fólksbíla, jeppa, vörubíla, rútur, sendibíla, bifhjól og báta. Einnig er boðið upp á geyma fyrir vinnuvélar og atvinnutæki eins og vinnulyftur, lyftara og gólfþvottavélar, frístundatæki eins og golfbíla og golfkerrur og loks geyma fyrir öryggiskerfi og tölvu-varaafl. Rafgeymasalan ehf. býður einnig upp á sólarrafhlöður, en það var með fyrstu fyrirtækjunum hér á landi til að hefja innflutning á sólarrafhlöðum.

Myndir frá starfseminni.

Eigendur, stjórnendur og starfsmenn
Árið 1982 keypti Ármann Sigurðsson rekstur Rafgeymis hf. en hann hafði komið að starfsemi fyrirtækisins frá upphafi. Hann gaf fyrirtækinu nafnið Rafgeymasalan ehf. og hefur það verið rekið undir því nafni síðan. Fyrirtækið var með rekstur að Dalshrauni 1 í yfir 35 ár, en árið 1998 flutti fyrirtækið starfsemi sína í núverandi húsnæði að Dalshrauni 17. Þar er öll aðstaða fyrir starfsemina til fyrirmyndar, lögð er áhersla á góða aðkomu viðskiptavina og aðstaða starfsmanna mætir vel nútímakröfum. Húsið sem hýsti fyrirtækið að Dalshrauni hefur nú verið rifið og nýtt og glæsilegt skrifstofu- og verslunarhúsnæði verið byggt í staðinn.
Eftir fráfall Ármanns Sigurðssonar árið 2016 keypti sonur hans Kristján Ármannsson fyrirtækið. Hann hafði tekið þátt rekstri fyrirtækisins lengi ásamt föður sínum eða í á þriðja áratug. Á vormánuðum 2019 tók Kristján Ármannsson þá ákvörðun að láta af störfum og láta eignarhald sitt og eiginkonu Aðalheiðar Jóhönnu Björnsdóttur í hendur barna sinna. Eigendur Rafgeymasölunnar ehf. í dag eru því Guðfinna Sigríður Kristjánsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Theodór Kristjánsson sem jafnframt er stjórnarformaður. Daglegur rekstur fyrirtækisins er í höndum Róberts Theódórssonar, sonar Theódórs.
Starfsmenn Rafgeymasölunnar eru þekktir fyrir framúrskarandi þjónustu, en hjá þessu gamalgróna fjölskyldufyrirtæki hefur alla tíð verið lögð áhersla á fagmennsku, gæði og persónulega þjónustu þar sem sveigjanleiki og öryggi viðskiptavina er í forgrunni. Að auki er alltaf heitt á könnunni og oft hefur kaffistofunni í Dalshrauni 17 verið líkt við félagsmiðstöð í Hafnarfirði. Á verkstæðinu geta viðskiptavinir komið og látið mæla eða hlaða upp geyma og ástandsmeta. Lögð er áhersla á að skipta ekki út geymum nema þörf sé á og að geymirinn sé þannig fullnýttur. Í Dalshrauni er einnig tekið á móti ónýtum geymum til endurvinnslu og þar er einnig rekið rafgeymahótel þar sem hægt er að geyma rafgeyma. Þessar áherslur frá stofnun hafa skilað því að Rafgeymasalan ehf. heldur í dag stöðu sinni sem leiðandi þjónustufyrirtæki fyrir rafgeyma, enda eina fyrirtækið hér á á landi sem byggir nánast alla sína starfsemi einvörðungu í kringum þá vöru. Sú sérstaða, samhliða traustri, góðri og langri sögu, gerir Rafgeymasöluna að farsælu hafnfirsku fjölskyldufyritæki sem er stolt af faglegri og persónulega þjónustu við viðskiptavini sína í 70 ár.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd