Rafhorn ehf. var stofnað í október 2003 af Friðriki Jónasi Friðrikssyni rafvirkjameistara.
Rafhorn keypti húsnæði ásamt lager af Rafmagnsverkstæði Bjarna Jakobssonar og hófst starfsemin af fullum þunga 15. janúar 2004. Markmið félagsins er að sinna allri raflagnaþjónustu, sölu á raflagnaefni og viðgerðum á raftækjum.
Starfsemin í dag
Árið 2012 fluttist starfsemin í stærra húsnæði og var þá verslun bætt við reksturinn en ásamt því er félagið einnig með slökkvitækjaþjónustu, umboð fyrir Símann, umboð fyrir Bílaleigu Akureyrar ásamt því að sinna afgreiðslu flugvélaeldsneytis á Hornafjarðarflugvelli. Meginstarfsemi félagsins er til húsa í aðalskrifstofum fyrirtækisins en einnig er húsnæði leigt í nágrenninu fyrir hluta lagersins og þar er einnig hægt að sinna viðhaldi tækja og sérhæfðs búnaðar. Aðalstarfsemi félagsins felst í raflagnavinnu fyrir einstaklinga og fyrirtæki, félagið sinnir að stóru leyti allri þjónustu fyrir Mílu á svæðinu. Töluverð reynsla við nýlagnir og þjónustu við ljósleiðara er til staðar innan fyrirtækisins og margra ára reynsla. Félagið hefur á undanförnum árum tekið að sér nokkur umsvifamikil verk og ber þar helst að nefna; ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins Hornafjarðar, stærsta fjós á Íslandi í Flatey á Mýrum, endurbætur á fiskimjölsverksmiðju Brims á Vopnafirði og nýr leikskóli í sveitarfélaginu Hornafirði.
Eigendur og stjórnendur
Árið 2019 bættist Skinney-Þinganes í eigendahópinn og er félagið nú í helmingseigu Skinney-Þinganes og Friðriks Jónasar og eiginkonu hans, Ásgerðar Kristínar Gylfadóttur, sem jafnframt situr í stjórn félagsins ásamt Aðalsteini Ingólfssyni, forstjóra Skinney-Þinganess. Varastjórn skipa þau Guðrún Ingólfsdóttir, fjármálastjóri Skinney Þinganess og Friðrik Jónas. Við þessa breytingu á eigendahópnum var Gunnar Örn Reynisson, viðskiptalögfræðingur, ráðinn sem framkvæmdastjóri félagsins.
Starfsfólk
Hjá félaginu starfa að jafnaði á bilinu 10-12 manns, þrír á skrifstofu og í verslun, 6 rafvirkjar og
tveir símvirkjar. Að auki eru ráðnir einn til tveir sumarstarfsmenn ásamt því að mikið er notast við aðkeypta vinnu verktaka á svæðinu, þá helst við jarðvegsvinnu.
Framtíðarsýn
Töluverð uppbygging er um þessar mundir í sveitarfélaginu og mun Rafhorn halda áfram að þjónusta eintaklinga og fyrirtæki á svæðinu af bestu getu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd