Rafiðnaðarsamband Íslands (RSÍ) er landssamband 8 stéttarfélaga í rafiðnaði. Aðildarfélögin eru Félag íslenskra rafvirkja, Félag tæknifólks í rafiðnaði, Félag rafeindavirkja, Félag íslenskra símamanna, Rafiðnaðarfélag Norðurlands, Félag rafiðnaðarmanna á Suðurlandi, Rafiðnaðarfélag Suðurnesja og Grafía, stéttarfélag í prent- og miðlunargreinum. Heildarfjöldi félagsmanna árið 2020 er um 6.600 manns.
RSÍ er samband allra launþega er starfa í rafiðnaðargeiranum, hvort sem þeir hafa löggilt sveinspróf eða ekki. RSÍ sér um allan daglegan rekstur fyrir aðildarfélögin svo sem gerð kjarasamninga, rekstur styrktarsjóðs, orlofseigna o.fl. Starfsemi RSÍ felst í því að standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna og fjölskyldna þeirra. Helstu verkefni eru gerð og túlkun kjarasamninga sem er fyrirferðamikill þáttur í daglegu starfi. Félagsgjald RSÍ er 1% af heildarlaunum félagsmanns, auk þess greiðir atvinnurekandi 1% gjald í sjúkra/styrktarsjóð, 0,25% í orlofssjóð, 1,1% í eftirmenntunarsjóð og í tilfellum rafvirkja 0,1% ákvæðisvinnugjald. Skilyrði um greiðslu í eftirmenntunarsjóð geta þó verið misjöfn eftir kjarasamningum.
Sjúkra/styrktarsjóður
Hlutverk sjúkra/styrktarsjóðs er að styðja við félagsmenn á ýmsan hátt. Í langvinnum veikindum eiga félagsmenn rétt á greiðslum úr sjúkrasjóðnum þegar veikindaréttur er fullnýttur hjá atvinnurekenda. Styrktarsjóður greiðir félagsmönnum ýmsa styrki til uppbyggilegra þátta svo sem til líkamsræktar, viðtalsmeðferðar, gleraugnakaupa ásamt fjölda annarra styrkja.
Orlofsmál
Hlutverk orlofssjóðs er að standa undir rekstri sameiginlegs orlofskerfis þar sem félagsmenn geta leigt orlofshús eða notið útivistar á orlofssvæði RSÍ. RSÍ hefur yfir að ráða 61 orlofshúsi sem flest eru í eigu þess en örfá hús eru leigð af þriðja aðila á svæðum sem eru eftirsótt á hverjum tíma. Húsin eru víðsvegar um landið. Einnig á RSÍ þrjú hús á Torrevieja svæðinu á Spáni og tvö hús á Flórída í samstarfi við MATVÍS. Jafnframt hafa félagsmenn haft aðgang að leiguíbúð í miðborg Kaupmannahafnar.
RSÍ á og rekur glæsilegt orlofssvæði á Skógarnesi við Apavatn en á svæðinu eru fimmtán orlofshús sem eru frá 65 fm2 til 270 fm2. Á svæðinu er einnig rekið tjaldsvæði, þar sem ýmis afþreying stendur gestum svæðisins til boða, eins og golf, veiði, afnot af bátum og leiktæki fyrir börnin.
RSÍ á og rekur glæsilegt orlofssvæði í Miðdal við Laugarvatn. Þar eru fimm orlofshús, fjögur í heilsársútleigu til félagsmanna. Í Miðdal er einnig tjaldsvæði með salernis- og sturtuaðstöðu, leiksvæði fyrir börn, ærslabelg, körfuboltavelli og minigolfi. Stutt frá orlofssvæðinu er 9 holu golfvöllur sem Golfklúbburinn Dalbúi rekur. Félagsmönnum RSÍ stendur til boða að spila á vellinum á hagstæðum kjörum.
Endurmenntun
Umfangsmikill þáttur í starfsemi RSÍ er endurmenntun félagsmanna en RSÍ á og rekur Rafmennt í samstarfi við atvinnurekendur. Hlutverk Rafmenntar er að halda utan um endurmenntun RSÍ ásamt því að halda utan um gerð námsskráa, gerð og framkvæmd sveinsprófa og raunfærnimats. Þeir nemendur sem ekki ljúka formlegri skólagöngu á réttum tíma og taka frí frá skólagöngu hafa tök á að fara í raunfærnimat þar sem þekking og reynsla viðkomandi er metin. Rafmennt er staðsett á Stórhöfða 27.
RSÍ á og rekur netbókasafn í samstarfi við atvinnurekendur í rafiðnaði, www.rafbok.is, sem er rafrænt skráarsafn með námsefni fyrir rafiðnaðarnema. Þar er einnig að finna handbækur sem nýtast rafiðnaðarmönnum og tengla á ýmsar gagnlegar síður sem tengjast rafiðnaði. Aðgangur að rafbok.is er öllum heimil og notendum endurgjaldslaus.
RSÍ og SART, samtök rafverktaka gefa öllum nemendum sem hefja nám í rafiðngreinum spjaldtölvur. Tilgangur þessa er að tryggja að allir nemendur geti nýtt sér það mikla úrval kennsluefnis sem þegar er í boði á rafrænu formi og stuðla að betri námsárangri og fjölgun nemenda í þessum greinum.
RSÍ
RSÍ starfrækir í samstarfi við atvinnurekendur í rafiðnaði Ákvæðisvinnustofu Rafiðna. Stofan hefur umsjón með ákvæðisvinnutaxta og viðhaldi hans, auk þess gefur hún taxtann út í forriti sem er aðgengilegt félagsmönnum á vefnum þeim að kostnaðarlausu.
RSÍ, ásamt öðrum stéttarfélögum á Stórhöfða, hafa fimm VIRK ráðgjafa í fullu starfi við starfsendurhæfingu.
RSÍ lætur sig samfélagsleg málefni varða en á síðasta þingi í maí 2019 var tekin ákvörðun um að RSÍ gerðist bakhjarl UN Women á Íslandi. Með því vildi þing RSÍ stíga risastórt skref fram á við til að stuðla að breytingu á íslenskum vinnumarkaði, að vera breytingin. Markmiðið er að vinna að jafnrétti og leggja okkar að mörkum til að koma í veg fyrir ofbeldi á vinnumarkaði.
Aðalskrifstofur RSÍ eru staðsettar á Stórhöfða 31 í Reykjavík. Formaður og framkvæmdastjóri Rafiðnaðarsambands Íslands er Kristján Þórður Snæbjarnarson en hann var kjörinn á þingi RSÍ í apríl 2011.
Formaður sér um daglega stjórn skrifstofu í nánu samráði við framkvæmdastjórn sem og miðstjórn RSÍ.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd