Fyrirtækið Rafmenn ehf. er rafverktakafyrirtæki og var stofnað árið 1997 af tveimur aðilum og er enn í dag í eigu annars þeirra, Jóhanns Kristjáns Einarssonar. Í upphafi störfuðu eigendurnir einungis tveir við fyrirtækið en mjög fljótlega þurfti að bæta við starfsmönnum þar sem verkefnum í rafmagninu fjölgaði ört. Að 10 árum liðnum voru fast ráðnir starfsmenn orðnir rétt um 40. Á þeim tímapunkti urðu einnig kaflaskil því þá seldi meðeigandi Jóhanns sinn hluta til Jóhanns og inn í fyrirtækið kom sonur Jóhanns, Árni Páll og tók við stöðu framkvæmdarstjóra af fyrrum meðeiganda og kaupir sig svo síðar inn í fyrirtækið. Árni Páll starfaði í um 11 ár hjá fyrirtækinu en snéri þá til annarra starfa.
Árið 2018 keypti Eva Dögg Björgvinsdóttir hluta í fyrirtækinu en hún hefur sinnt bókhaldi og fjármálum fyrirtækisins frá árinu 2006. Í lok árs 2020 seldi Árni Páll sinn hluta en í staðinn fjölgaði hluthöfum um þrjá til viðbótar þegar þeir Björgvin Björgvinsson, Halldór Eiríksson og Ketill Þór Thorstensen keyptu hluti í fyrirtækinu. Þeir hafa allir starfað til fjölda ára hjá fyrirtækinu og sinna allir stöðu verkstjóra. Aðaleigandi fyrirtækisins, sem einnig sinnir nú stöðu framkvæmdastjóra, er Jóhann Kristján Einarsson rafvirkjameistari.
Starfsemin
Rafmenn ehf. er kröftugt markaðssinnað þjónustufyrirtæki staðsett á Akureyri. Eyjafjörður er stærsta markaðssvæðið en auk þess starfar fyrirtækið í hinum ýmsu verkefnum um allt land. Í þau rúmlega 20 ár sem fyrirtækið hefur verið starfrækt hafa starfsmenn þess þjónustað fjölbreyttan og kröfuharðan hóp viðskiptavina við allt er viðkemur raflögnum og fjarskiptum.
Mannauður og deildir
Starfsmannafjöldi hefur haldist í kringum 40 manns eftir 2007 en við stærri framkvæmdir eins og t.d jarðgangnagerð og virkjanagerð hefur þurft að bæta við starfsmönnum en mest hefur starfsmannafjöldi verið um 50 manns. Nú árið 2020 starfa hjá fyrirtækinu 35 manns í tveimur deildum, verkefnadeild og þjónustudeild. Í þessum deildum starfa aðallega rafvirkjar en einnig eru starfandi við fyrirtækið rafeindavirkjar, verkamenn, rafmagnsverkfræðingur, rafmagnstæknifræðingur og vélvirki. Á skrifstofunni starfa eigendurnir Jóhann og Eva ásamt einum starfsmanni sem sinnir færslu bókhalds.
Verkefnadeild sinnir stærri verkefnum, s.s. raflögnum í nýbyggingar, veitinga- og skrifstofu-húsnæði, jarðgöngum og endurnýjun eldri raflagna.
Þjónustudeild býður upp þjónustu og bilanaleit í heimilis- og fyrirtækjalögnum. Þá liggur aðalstarfsemi þjónustudeildar í bilanagreiningu og viðgerð á stórum sem smáum tækjum fyrir fyrirtæki og stofnanir á Akureyri og nágrenni ásamt uppsetningu á hinum ýmsu tækjum og tólum. Þjónustudeild sinnir einnig árlegum úttektum á brunaviðvörunarkerfum og neyðarlýsingu hjá fyrirtækjum og stofnunum ásamt útskiptingu og uppsetningu á slíkum búnaði. Á árunum 2008-2017 var starfrækt hjá fyrirtækinu fjarskiptadeild með þjónustusamning við Mílu. Í þessari deild störfuðu til að byrja með 8 manns. Mikið var að gera í byrjun en með árunum fækkaði þessum verkefnunum og fór svo að samstarfssamningi var sagt upp og starfsemninni hætt seinnihluta árs 2017.
Verkefnin
Frá því Rafmenn ehf var stofnað hefur fyrirtækið komið víða við í bæði stórum sem smáum verkefnum. Hjúkrunarheimili, íþróttamannvirki, skrifstofuhúsnæði, veitingahús, íbúðabyggingar, menningarhús, virkjanir, tengivirki, kirkjur, skólar og hótel eru allt verkefni sem fyrirtækið hefur unnið að og skilað vel af sér. Þess má geta að Rafmenn hlutu viðurkenninguna „Lofsvert lagnaverk“ fyrir vinnu sína við byggingu Menningarhússins Hofs árið 2012. Þá hefur fyrirtækið komið að eða séð alfarið um raflagnir í stórum hluta jarðganga á Íslandi til þessa en það eru Norðfjarðar-, Héðinsfjarðar-, Vaðlaheiðar-, Múla- og Almannaskarðsgöng. Sú sérþekking sem byggst hefur upp innan fyrirtækisins við jarðgangagerð hófst um 1990 þegar Jóhann eigandi tók þátt í gerð Múlaganga.
Stórframkvæmdir
Meðal annarra stórframkvæmda sem fyrirtækið hefur komið að á síðustu árum eru Kárahnjúkavirkjun, álver Alcoa Fjarðaál, tengivirkin á Þeistareykjum, Kröflu og Bakka við Húsavík og stöðvarhús Þeistareykjavirkjunar. Þá hefur fyrirtækið einnig umsjón með öllum rafstöðvum fyrir Mílu, Neyðarlínuna, Sýn og RÚV um allt land. Stærsta verkefni Rafmanna á árunum 2019 og 2020 er raflagnir í nýju frystihúsi Samherja á Dalvík sem ætlunin er að verði fullkomnasta fiskvinnsla í heimi, eins og forstjóri Samherja sagði þegar bygging hússins var kynnt. Síðustu ár hefur verið góð verkefnastaða hjá fyrirtækinu og eigendur horfa björtum augum til framtíðar. Árið 2019 var fyrirtækið í hópi fyrirmyndarfyrirtækja í rekstri samkvæmt skilyrðum Keldunnar og Viðskiptablaðisins og eru eigendur afar stoltir af því að vera meðal þeirra 2,7% fyrirtækja sem náðu því það árið. Rafmenn hafa sýnt með verkum sínum að engin verkefni eru of stór eða of smá fyrir fyrirtækið því samheldinn hópur starfsmanna vinnur glaður við hvaða verkefni sem er.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd