Rafmennt

2022

RAFMENNT fræðslusetur rafiðnaðarins er í eigu Rafiðnaðarsambands Íslands RSÍ og Samtaka fyrirtækja í rafiðnaði SART. RAFMENNT var stofnað á grunni Rafiðnaðarskólans og Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins sem hvoru tveggja var í eigu RSÍ og SART.
Í stjórn RAFMENNTAR árið 2019-2020 eru: Andri Jóhannesson, Hafliði Sívertsen, Helgi Rafnsson, Hilmar Guðmannson, Hjörleifur Stefánsson formaður, Hrafn Guðbrandsson, Sigurður Gunnarsson og Vilmundur Sigurðsson. Varmenn í stjórn eru: Kristján Daníel Sigurbergsson og Kristján Þórður Snæbjarnarson. Framkvæmdastjóri er Þór Pálsson.

Endurmenntun rafiðnaðarmanna
Upphaf endurmenntunar rafiðnaðarmanna má rekja til ásins 1972. Við endurnýjun kjara-samninga í álverinu í Straumsvík, það ár, náðist samkomulag um að fyrirtækið fjármagnaði í samvinnu við RSÍ þjálfun tveggja rafiðnaðarmanna til kennslu og uppbyggingar á endurmenntunar námskeiðum fyrir rafiðnaðarmenn. Allt frá upphafi hafa rök rafiðnaðarmanna fyrir endurmenntun verið sú að hröð tækniþróun í rafiðnaðargeiranum geri það að verkum að starfsmenn fyrirtækja verði að endurnýja menntun sína til að ráða við þau verkefni sem þeir eiga að leysa. Segja má að þær forsendur eigi enn frekar við í dag en á þeim árum sem voru kölluð voru ár tækniframfara með tilkomu stórra verksmiðja og öflugra raforkukerfis á sjötta áratugnum. Skipulögð voru nokkur kvöldnámskeið, sem voru haldin í félagsheimili FÍR veturinn 1973-1974. Námskeiðin gengu mjög vel hvað varðar aðsókn. Kennslan fór hins vegar að mestu ofan garðs og neðan hjá þátttakendum sakir þess að tæknibúnaðurinn sem kennslan snerist um var ekki til staðar. Námskeiðin voru fullbókuð til að byrja með en smám saman heltust fleiri og fleiri úr lestinni af framangreindum ástæðum.
Í viðræðum milli Rafiðnaðarsambandsins og Landsambands Íslenskra Rafverktaka náðist samkomulag um að setja á laggirnar formlega eftirmenntunarnefnd rafvirkja með fastráðinn starfsmann. Eftirmenntunarnefndin hóf svo rekstur námskeiða vorið 1975.
Farið var með námskeið víða um land með kennslubúnað sem var leigður frá dönsku eftirmenntuninni. Búnaðurinn var nokkuð fyrirferðarmikill, sérstaklega í segulliðanámskeiðunum því þar voru allar helstu gerðir rafmótora. Gengið var þannig frá búnaðinum að auðvelt var að flytja hann á milli staða og fljótlegt að stilla upp námskeiðum. Nokkru síðar er stofnuð á sama grunni eftirmenntunarnefnd rafeindavirkja.
Sumarið 1985, eftir 10 ára starf nefndanna og flutning starfseminnar í húsnæði í Skipholti 7, var ákveðið að stofna Rafiðnaðarskólann og er hann formlega opnaður þann 20. september 1985. Starfsemin var ekki nema í tvö ár í Skipholti 7 en síðan þá hefur starfsemin verið flutt þrisvar sinnum.
Samhliða auknum umsvifum endurmenntunarinnar í Rafiðnaðarskólanum og frumkvæði rafiðnaðarmanna í menntamálum rafiðnaðarins almennt var Fræðslumiðstöð rafiðnaðarins stofnuð. Gerður var samningur við mennta- og menningarmálaráðuneytið, fyrst árið 1991 um endurskoðun námskráa og í framhaldi af því um umsýslu sveinsprófa. Með tilkomu Fræðslumiðstöðvar rafiðnaðarins gjörbreyttist öll aðkoma rafiðnaðargeirans að stjórn og skipulagi verknámsins. Einnig voru gerðar breytingar á framkvæmd sveinsprófa og hefur öll umsýsla um þau og framkvæmd þeirra verið á hennar vegum síðan.
Fræðsluskrifstofan tók að sér eða setti í gang fjölmörg önnur verkefni sem sneru beint að grunnmenntun rafiðnaðarmanna. Frá árinu 2006 hefur verið haldið úti www.rafbok.is, vef með rafrænu kennsluefni fyrir nemendur í rafiðngreinum. Efnið er nemendum að kostnaðarlausu, en með þessu er verið að styðja við útgáfu á efni til nemenda.

RAFMENNT
Á vordögum 2018 ákváðu stjórnir Rafiðnaðarskólans og Fræðsluskrifstofu rafiðnaðarins að sameina þessi tvö félög í eitt undir merki RAFMENNTAR fræðsluseturs rafiðnaðarins og færa þannig öll verkefni sem snúa að menntamálum rafiðnaðarmanna, frá upphafi náms til loka meistaraskóla og síðan þeirrar endurmenntunar sem félagsmenn þurfa stöðugt að vera að nýta sér, í eitt félag. RAFMENNT er framsækið þekkingarfyrirtæki, leiðandi í fræðslu og miðlun nýjunga og vinnustaður með aðdráttarafl fyrir hæfileikaríkt og metnaðarfullt fólk sem vinnur í þágu raf- og tækniiðnaðarins á Íslandi. Hjá RAFMENNT starfa ellefu starfsmenn í tíu og hálfu stöðugildi.

Framtíðarsýn
Segja má að framtíðarsýn rafiðnaðarmanna sem mótuð var með stofnun fagnefnda sé enn í fullu gildi, að hafa sterka trú á menntun og endurmenntun til að takast á við þá stöðugu þróun sem starfsumhverfi rafiðnaðarmanna er í.
Stöðugt er verið að endurbæta kennslubúnað námskeiða. Áhersla undanfarin ár hefur verið á sjálfvirkni ýmiskonar eins og með róbótum og færiböndum til að færa hluti milli staða. Einnig hefur verið lögð áhersla á ýmsan tæknibúnað sem er að aukast í hússtjórnarkerfum sem er stýrt með forritum eins og KNX og Dali.
Fagnám meistaraskóla rafiðngreina hefur einnig notið góðs af þessari sýn þannig að nemendur eru að vinna með þann búnað sem er í gangi í atvinnulífinu þegar þeir eru í námi. Breytingar eru það örar í greinum rafiðnaðarmanna að stöðugt þarf að vera að uppfæra búnaðinn.
Ásamt tæknibreytingum í faggreinunum hefur einnig orðið til fjölbreyttari samsetning menntunar félagsmanna RSÍ og SART og því er það áskorun fyrir RAFMENNT að mæta þörfum félagsmanna til endurmenntunar. Krafa um fjölbreytt námskeið til að mæta þörf félagsmanna er það viðfangsefni sem starfsmenn eru stöðugt að vinna að. Einnig er aukin krafa að framsetning námskeiða verði í auknum mæli á rafrænu formi þannig að þátttakendur geti í auknum mæli sótt sér þekkingu þegar þeim hentar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd