Rafmiðlun hf

2022

Rafmiðlun hf. er rafverktaka- og innflutningsfyrirtæki stofnað 1996. Eigendur voru þrír í upphafi en í dag eru þeir níu. Frá upphafi var markmið að veita alhliða þjónustu og lausnir á sviði rafverktöku hvort sem verkefnin væru stór eða smá. Strax á fyrsta rekstrarári Rafmiðlunar fékk fyrirtækið stórt verkefni fyrir Ísal í Straumsvík og allar götur síðan hafa verkefni tengd iðnaði verið stór þáttur af starfsemi Rafmiðlunar. Má þar m.a. nefna verkefni fyrir Elkem, Norðurál, Orku Náttúrunnar, Veitur, Orkuveitu Reykjavíkur, Ísal, Landsvirkjun og mörg fleiri fyrirtæki sem eru fastir viðskiptavinir. Fyrirtækið hefur einnig sótt verkefni út fyrir landsteinana og má þar nefna tvær virkjanir á Grænlandi ásamt skóla en þessi verkefni voru unnin í góðu samstarfi við Ístak. Einnig má nefna verkefni í Noregi, Svíþjóð og Danmörku en þessi verkefni hafa verið unnin í samstarfi við ýmis fyrirtæki svo sem eins og Norsk Hydro, Eflu, Exton, Goodtech, Eitech Electro AB o.fl. aðila en frá árinu 2010 hefur Rafmiðlun rekið dótturfélag í Noregi sem heitir Electroson.

Starfsemin
Starfsemi Rafmiðlunar hefur einnig verið mjög viðamikil á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni en Rafmiðlun hefur komið að mörgum stærstu byggingaframkvæmdum undanfarna áratugi í samstarfi við aðra og eða sem undirverktaki. Nokkur helstu verkefnin eru Smáralind, höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur, Korputorg, Bauhaus, Kringlan, Samskip vöruhótel, stækkanir á Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Ikea, Costco, Háskólinn í Reykjavík, Harpa, Alvotech, US Embassy og m.fl. Málin hafa þróast þannig að oft er Rafmiðlun sá rafverktaki sem hefur verið valinn sem samstarfsaðili ef verkefnið er stórt og flókið en í dag eru m.a. á verkefnalistanum Marriott hótel við hlið Hörpu, sorpeyðingar- og gasgerðarstöð á Álfsnesi ásamt stórum verkefnum sem tengjast stærstu fasteignafélögum landsins. Rafmiðlun hefur einnig gert þjónustusamninga við sína stærstu viðskiptavini sem hefur reynst vel til að tryggja stöðugleika. Einnig býður fyrirtækið uppá heildarlausnir á sviði rafverktöku, þ.e. ráðgjöf, hönnun, teikningar, efnisöflun sem og framkvæmd. Fyrirtækið hefur í auknum mæli og vegna harðnandi samkeppni flutt inn efni til eigin nota í verkum sínum og einnig selt til annarra fyrirtækja. Vegna þessarar þróunar hafa orðið til sérhæfð dótturfyrirtæki sem sinna viðskiptavinum á ákveðnum sviðum sérstaklega. Progastro var stofnað árið 2009 og sérhæfir sig í sölu á vörum og tækjum sem tengjast eldhúsum og stórum mötuneytum. Í tengslum við þjónustuna rekur Rafmiðlun öfluga, sérhæfða viðgerðarþjónustu á flestum gerðum tækja fyrir mötuneyti. Pronet sinnir ráðgjöf og sölu á búnaði fyrir net- og öryggiskerfi ásamt allri almennri þjónustu og uppsetningu á slíkum kerfum. Hlaða sérhæfir sig í sölu og ráðgjöf á rafbílahleðslustöðvum og nýjasta þjónustan er Ilux sem sinnir sölu og ráðgjöf á lýsingarbúnaði fyrir iðnað, verslanir og skrifstofur. Eigendur Rafmiðlunar hafa ávallt lagt ríka áherslu á ábyrga og góða þjónustu við viðskiptavini sína og byggja á trausti, virðingu og skilningi á þörfum viðskiptavinarins en Rafmiðlun hefur verið með 24 tíma þjónustuvakt alla daga ársins frá 2005 fyrir valda viðskiptavini svo sem eins og Símann, Mílu o.fl. Vefsíða: www.rafmidlun.is
Gæðakerfi
Í fyrirtækinu hefur verið unnið frá árinu 1998 eftir gæðakerfi hönnuðu af VSÓ-ráðgjöf og eftir öryggis- og heilbrigðisáætlun sem hönnuð er af Heilsuvernd en einnig er Rafmiðlun með D vottun frá Samtökum Iðnaðarins.

Aðsetur
Höfuðstöðvar Rafmiðlunar eru í Ögurhvarfi 8 í Kópavogi. Þar er öflugt verkstæði sem er sérhæft í skápasmíði en allt frá stofnun fyrirtækisins hefur skápasmíði í samstarfi við danska fyrirtækið Elsteel verið mjög umfangsmikil og hefur sú starfsemi verið eitt af aðalsmerkjum Rafmiðlunar.
Á Grundartanga er verkstæði sem vinnur í nánu samstarfi við stóriðjuna á svæðinu en þar hefur Rafmiðlun verið með þjónustu meira og minna síðan um aldamót. Rafmiðlun hefur B-leyfi Löggildingarstofu en einnig er fyrirtækið með réttindi til að vinna við rafverktöku á Grænlandi, í Noregi, Danmörku og Svíþjóð.

Starfsmenn og eigendur
Fjöldi starfsmanna er breytilegur frá ári til árs en í dag er fjöldinn með mesta móti vegna góðrar verkefnastöðu og u.þ.b. 130 starfsmenn eru á launaskrá.
Gott starfsfólk sem margt hefur unnið hjá fyrirtækinu í fjölda ára er ómetanlegt. Það má fullyrða að þekking, reynsla og fagmennska starfsfólks Rafmiðlunar sé mikil og hefur það verið eitt af aðalsmerkjum félagsins frá upphafi að geta tekist á við mismunandi og krefjandi verkefni stór sem smá. Eigendur eru: Ásgrímur Örvar Jónsson, Baldur Á. Steinarsson,
Björgvin R. Pálsson, Gísli Birgisson, Hannes Grétarsson, Kolbeinn Sverrisson, Magnús Már Steinarsson, Óskar Þórisson og Valgarður Lúðvíksson.

Ögurhvarf 8
203 Kópavogi
5403500
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd