Ragnar & Ásgeir

2022

Ragnar og Ásgeir ehf. er geysiöflugt flutningafyrirtæki á Snæfellsnesi. Á árinu 2020 eru liðin 50 ár frá því Ragnar Ingi Haraldsson og kona hans Rósa Björg Sveinsdóttur hófu rekstur á vöruflutningum milli Grundarfjarðar og Reykjavíkur. Þau hjónin höfðu verið á leið á Hólmavík þar sem þau ætluðu að stunda veiðar á rækju en þar sem lítið var um húsnæði á Hólmavík á þessum árum lágu leiðir þeirra í Grundarfjörð. Þau hófu reksturinn með eina vörubifreið af gerðinni Bedford. Í upphafi var reksturinn í smáum stíl og gekk erfiðlega á tímum. Ragnar fór tvær ferðir í viku til Reykjavíkur og flutti vestur vörur (matvörur, byggingarvörur o.fl.). Vegakerfið var slæmt á þessum tíma og því ansi langir vinnudagar hjá Ragnari. En með dugnaði og þrautseigju gekk þetta upp og að sögn Ragnars tók reksturinn að breytast til batnaðar upp úr 1982.
Þá fóru þeir sem ráku frystihúsin að sjá sér hag í að flytja frystan fisk landleiðina til höfuðstaðarins. Smám saman jókst eftirspurn eftir slíkum flutningum þar. Stjórnendum frystihúsanna þótti hagkvæmara að flytja afurðir sínar jafnóðum landleiðina í stað þess að bíða komu flutningaskipa, sem oft þurfti að bíða eftir vikum eða mánuðum saman. Þetta leiddi af sér minni birgðasöfnun hjá fiskvinnslunni og örari greiðslur fyrir framleiðsluna.
Þegar svo fiskmarkaðirnir komu til upp úr 1990 jókst starfsemin enn frekar.

Starfsemin
Starfsemin hefur stækkað og aukist með árunum. Í dag er fyrirtækið með starfsstöðvar í Grundarfirði, Snæfellsbæ og Reykjavík. Starfsemin snýst að mestu, eða u.þ.b. 90% um flutning á fiskafurðum (ferskur fiskur, frosinn fiskur og saltfiskur). Við bjóðum upp á allar gerðir flutninga, hvort sem það er flutningur á vörum, fersku sjávarfangi, gámum, búslóðum, vinnuvélum, byggingarefnum eða öðru. En langstærsti hluti starfseminnar snýst um flutning á fiskafurðum (ferskum fisk, frosnum fisk, saltfisk o.fl.) Bílaflotinn samanstendur fyrst og fremst af nýjum eða nýlegum ökutækjum og tengivögnum, sem sífellt verða fullkomnari með það að markmiði að tryggja sem best gæði þjónustunnar og þess flutnings sem skila þarf á áfangastað. Við hugsum vel um alla bílana okkar, þannig að þeir líti vel út og séu vel þrifnir. Það er okkar besta auglýsing.

Eigendur og rekstur
Ragnar og Ásgeir ehf. er fjölskyldufyrirtæki undir stjórn Ásgeirs Ragnarssonar, sonar þeirra hjóna. Hjá fyrirtækinu starfa um 30 manns við akstur, viðhald tækja og á skrifstofu. Starfsmenn vinna hörðum höndum saman sem ein heild og eru á vakt allan sólarhringinn. Þannig leggjum við okkur fram við að bjóða fljótlega, faglega og persónulega þjónustu fyrir viðskiptavini okkar. Fyrirtækið var í hópi framúrskarandi fyrirtækja á lista Creditinfo árið 2020.
Rekstur fyrirtækisins hefur gengið vel síðustu ár og getum við þakkað öllum tryggum viðskiptavinum og starfsmönnum okkar sem hafa staðið með okkur í gegnum árin. Meðan Breiðarfjörður verður áfram gjöful fiskimið þá sjáum við fram á bjarta framtíð fyrirtækisins.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd