Hópurinn, efri röð: Hafsteinn Helgi Jóhannsson, Sigurjón Óli Vignisson, Andri Týr Kristleifsson, Birna Rut Ragnarsdóttir, Sara Svavarsdóttir, Kristleifur Gauti Torfason og Óliver Magnússon. Fremri röð: Arndís Hulda Auðunsdóttir og Mélanie Molière. Ljósm. Sigurður Ólafur Sigurðsson.
Skeggrakstur með hníf.
Af stofunni. / Ljósm. Sigurður Ólafur Sigurðsson.
Þrjár kynslóðir rakara Frá vinstri: Kristleifur Gauti Torfason, Torfi Guðbjörnsson og Andri Týr Kristleifsson. Ljósm. Gunnar Kr. Sigurjónsson.
Rakarastofan Herramenn var stofnuð 9. desember árið 1961 af Torfa Guðbjörnssyni hárskera og rakarameistara. Frá fyrsta degi hefur rakarastofan verið í hjarta Kópavogs, fyrst að Neðstutröð 8, þar sem hún tók undir sig sífellt stærri hluta hússins, en árið 2017 fluttist stofan í Hamraborg 9 í töluvert stærra húsnæði sem þá var orðið nauðsynlegt. Árið 1978 bættist önnur kynslóð við þegar Gauti, sonur Torfa, fylgdi í fótspor föður síns. Gauti lauk námi árið 1981 og hefur unnið alla tíð síðan á stofunni. Þriðja kynslóðin slóst í hópinn árið 2003 þegar sonur Gauta, Andri Týr, byrjaði að nema fagið. Í eitt ár unnu kynslóðirnar þrjár saman á rakarastofunni en Torfi lést árið 2004. Núorðið sér Andri Týr að mestu um rekstur fyrirtækisins.
Þróun
Í grunninn má segja að það að klippa hár breytist lítið en nýjar tískubylgjur kalla svo sannarlega á nýja nálgun í klippingum. Rakarastofan leggur áherslu á að fylgjast vel með því sem er að gerast í hártískunni og hluti af því er að fara reglulega á námskeið bæði innanlands og erlendis. Rakarastofan sérhæfir sig í snyrtingum fyrir herramenn, klippingum, skeggsnyrtingum og ekki síst rakstri. Skeggrakstur með hníf hefur staðið höllum fæti undanfarna áratugi hér á landi og því mikilvægt að viðhalda þekkingu á þessu sviði sem og fræðslu fyrir viðskiptavini um hvernig eigi að raka sig heima. Frá upphafi hefur verið lagður metnaður í að vera með góðar og fjölbreyttar vörur fyrir viðskiptavini og hefur úrvalið aukist og breyst jafnt og þétt, ekki síst í húðvörum sem verða sífellt vinsælli meðal karlmanna.
Herramenn í dag
Rakarastofan hefur tekið miklum breytingum á þeim tæplega 60 árum sem hún hefur verið
starfrækt frá því að Torfi var einn að vinna og starfshópurinn vaxið. Í dag vinna sex fullnuma rakarar hjá fyrirtækinu, þar af þrír meistarar, ásamt tveimur nemum og starfsmanni á skrifstofu.
Viðskiptavinirnir eru tryggir og fjórða kynslóð viðskiptavina er farin að mæta í stólinn.
Rakarastofan Herramenn
Atvinnugreinar
Upplýsingar
Lesa bókina