Rakarastofan Herramenn var stofnuð 9. desember árið 1961 af Torfa Guðbjörnssyni hárskera og rakarameistara. Frá fyrsta degi hefur rakarastofan verið í hjarta Kópavogs, fyrst að Neðstutröð 8, þar sem hún tók undir sig sífellt stærri hluta hússins, en árið 2017 fluttist stofan í Hamraborg 9 í töluvert stærra húsnæði sem þá var orðið nauðsynlegt. Árið 1978 bættist önnur kynslóð við þegar Gauti, sonur Torfa, fylgdi í fótspor föður síns. Gauti lauk námi árið 1981 og hefur unnið alla tíð síðan á stofunni. Þriðja kynslóðin slóst í hópinn árið 2003 þegar sonur Gauta, Andri Týr, byrjaði að nema fagið. Í eitt ár unnu kynslóðirnar þrjár saman á rakarastofunni en Torfi lést árið 2004. Núorðið sér Andri Týr að mestu um rekstur fyrirtækisins.
Þróun
Í grunninn má segja að það að klippa hár breytist lítið en nýjar tískubylgjur kalla svo sannarlega á nýja nálgun í klippingum. Rakarastofan leggur áherslu á að fylgjast vel með því sem er að gerast í hártískunni og hluti af því er að fara reglulega á námskeið bæði innanlands og erlendis. Rakarastofan sérhæfir sig í snyrtingum fyrir herramenn, klippingum, skeggsnyrtingum og ekki síst rakstri. Skeggrakstur með hníf hefur staðið höllum fæti undanfarna áratugi hér á landi og því mikilvægt að viðhalda þekkingu á þessu sviði sem og fræðslu fyrir viðskiptavini um hvernig eigi að raka sig heima. Frá upphafi hefur verið lagður metnaður í að vera með góðar og fjölbreyttar vörur fyrir viðskiptavini og hefur úrvalið aukist og breyst jafnt og þétt, ekki síst í húðvörum sem verða sífellt vinsælli meðal karlmanna.
Herramenn í dag
Rakarastofan hefur tekið miklum breytingum á þeim tæplega 60 árum sem hún hefur verið
starfrækt frá því að Torfi var einn að vinna og starfshópurinn vaxið. Í dag vinna sex fullnuma rakarar hjá fyrirtækinu, þar af þrír meistarar, ásamt tveimur nemum og starfsmanni á skrifstofu.
Viðskiptavinirnir eru tryggir og fjórða kynslóð viðskiptavina er farin að mæta í stólinn.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd