Rangárþing eystra er eitt þriggja sveitarfélaga í Rangárvallasýslu. Heildarstærð sveitarfélagsins er 1841km2 og nær frá Eystri-Rangá í vestri til Jökulsár á Sólheimasandi í austri og að Tindfjöllum og Emstrum í norðri. Sveitarfélagið var stofnað þann 9. júní 2002 með sameiningu sex hreppa í austanverðri Rangárvallasýslu í eitt sveitarfélag. Þeir hreppir voru Hvolhreppur, Fljótshlíðarhreppur, Austur-Landeyjahreppur, Vestur-Landeyjahreppur, Austur-Eyjafjallahreppur og Vestur-Eyjafjallahreppur. Íbúafjöldi svæðisins hefur aukist þó nokkuð á síðustu árum en þann 1. janúar 2020 voru íbúar í Rangárþingi eystra 1962 og þar af búa um 1150 á Hvolsvelli og nágrenni. Fjölgun í sveitarfélaginu er mjög jákvæð þróun og sveitarfélagið er í stöðugri sókn en það sést hvað best á uppbyggingu svæðisins með fjölgun íbúðarhúsa, nýjum götum, nýjum hverfum og auknu atvinnuframboði allt árið um kring. Rangárþing eystra starfar á sveitarstjórnarstigi og er aðsetur stjórnsýslunnar á Hvolsvelli. Sjö fulltrúar sitja í sveitarstjórn sem fer með stjórnunarvaldið. Sveitarstjóri er Lilja Einarsdóttir.
Hvolsvöllur
Hvolsvöllur er þéttbýliskjarni sveitarfélagsins og þar er aðsetur stjórnsýslunnar. Byggð fór að myndast á Hvolsvelli er Kaupfélag Hallgeirseyjar hóf þar verslun árið 1930. Frá þeim tíma hefur byggðin stækkað jafnt og þétt og eflst sem þjónustukjarni sveitarfélagsins. Helstu atvinnuvegir þar eru iðnaður, verslun og þjónusta. Á Hvolsvelli er grunnskóli, leikskóli, héraðsbókasafn, lögreglustöð, dýralæknir, dvalar- og hjúkrunarheimili, heilsugæslustöð, apótek, sundlaug, íþróttahús með líkamsrækt, verslun, banki, veitingastaðir og fleira.
Skólastarf
Í kjölfar sameiningar hreppanna voru sameinaðir allir skólar og leikskólar svæðisins og er nú aðeins einn skóli, Hvolsskóli, og einn leikskóli, leikskólinn Örk. Báðir skólarnir eru á Hvolsvelli. Skólaakstur sveitarfélagsins er einn sá umfangsmesti á landinu þar sem öllum börnum úr dreifbýlinu er ekið með skólabíl á Hvolsvöll. Til að koma til móts við þau börn sem eiga sem lengstan veg að fara í skóla er sett regla um 45 mínútna hámarksviðveru í skólabíl. Samfella skóla, tómstunda og íþrótta er eitt af samstarfsverkefnum í tengslum við skólastarfið. Með samfellunni er unnið að aukinni samþéttingu í tómstunda- og skólastarfi í Rangárþingi eystra. Markmiðið er að sem flest börn hafi tækifæri til að stunda íþróttir og aðrar tómstundir þrátt fyrir fjarlægðir frá skóla og sé það samstillt akstri skólabílanna. Þá er einnig áætlað að börn hafi lokið starfsdegi sínum á sama tíma og hefðbundnum vinnudegi foreldra og forráðamanna lýkur. Sveitarfélagið er í góðu samstarfi við Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi og Háskólafélag Suðurlands til að efla möguleika íbúa til frekari menntunar. Góð fjarnámsaðstaða hefur verið byggð upp í tengslum við það enda er útibú Háskólasetursins og Fræðslunetsins á Hvolsvelli.
Atvinna og náttúra
Sveitarfélagið er mikið landbúnaðarhérað þar sem matvæla- og landbúnaðarframleiðsla eru undirstöðuatvinnugreinar og í héraðinu er öflug mjólkur- og kjötframleiðsla. Höfuðstöðvar Sláturfélags Suðurlands eru á Hvolsvelli en þar er rekin stærsta kjötvinnsla landsins. Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein og hefur blómstrað mikið undanfarin ár. Í sveitarfélaginu er að finna einstakar náttúruperlur og þekkta sögustaði. Meðal helstu staða eru Þórsmörk, Tindfjöll, Eyjafjallajökull, Skógafoss, Seljalandsfoss og Paradísarhellir en auk þess er að finna einstakar náttúru- og jarðfræðiminjar sem eru minna þekktar eins og Mögugilshelli sem talinn er vera með stærri náttúrugerðum móbergshellum í Norður Evrópu og Drumabót, þar sem finna má minjar um aldagamlan skóg. Öflug og lifandi náttúra gefur ferðaþjónustunni góðan meðbyr. Auk þessa minja teygir sögusvið Brennu-Njáls sögu sig um allt svæðið og gestum sveitarfélagsins er gefinn kostur á að upplifa söguna á lifandi og eftirminnilegan hátt. Rangárþing eystra er hluti af Kötlu, hnattrænum UNESCO jarðvangi (Katla UNESCO Global Geopark). Rangárþing eystra er inngangurinn vestan megin inn í Kötlu jarðvang. Jarðvangurinn kynnir náttúru og búsetu á einu mesta náttúrhamfarasvæði Evrópu og skartar einstökum jarðminjum á heimsvísu sem segja sögu virkra afla.
Afþreying
Sögusetrið er starfrækt á Hvolsvelli. Þar er sögusýning tengd Njálu, veitingastaður í Víkingastíl og sérstakt kaupfélagssafn sem segir sögu kaupfélaga á Suðurlandi, frá Vík, Vestmanna-eyjum, Hvolsvelli, Hellu og Selfossi. Þjónusta við ferðamenn er fjölbreytt og afþreying er af ýmsu tagi sem hentar öllum aldurshópum, s.s. söfn, sýningar, sundlaugar, hestaleigur, gönguleiðir, íþróttamiðstöð, golf, gallerí, veiði og margt fleira. Skógasafn er eitt stærsta og öflugasta byggðasafn á landsbyggðinni. Safnið er opið allt árið og árlega heimsækja það um 46 þúsund gestir. Landeyjahöfn hefur skapað aukin tækifæri með tengingu við Vestmannaeyjar.
Félags- og menningarlíf
Mikið félags- og menningarlíf er í sveitarfélaginu. Íbúar eru virkir þátttakendur og leiðandi í því starfi sem fer fram. Tónlistarstarf er öflugt og fjölmargir kórar eru starfandi í Rangárþingi eystra; Karlakór Rangæinga, Kvennakórinn Ljósbrá, Kammerkór Rangæinga, Hringur kór eldri borgara auk kirkjukóra og sönghópa. Þá er mjög virkt og öflugt íþróttalíf leitt áfram af íþróttafélögunum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd