Rapyd Europe (Valitor)

2022

Meginhlutverk Valitor er að gera kaup og sölu á vöru og þjónustu einfalda, fljótvirka og örugga í senn til þess að söluaðilar geti einbeitt sér áhyggjulaust að þeim hluta viðskiptanna sem þeir þekkja best. Valitor er alþjóðlegt greiðslulausnafyrirtæki sem veitir fjölbreytta þjónustu á sviði færsluhirðingar, greiðslugátta og kortaútgáfu. Höfuðstöðvar Valitor eru á Íslandi en einnig er félagið með starfsstöð í Bretlandi. Starfsemin nær til 28 Evrópulanda með sterkri stöðu á mörkuðum í Bretlandi, á Írlandi, Norðurlöndum og í samevrópskri (e. pan-European) smásöluverslun.

Visa Ísland
Visa Ísland var stofnað árið 1983. Stofnfélagar félagsins voru Landsbanki Íslands, Búnaðar-bankinn, Samvinnubankinn, Alþýðubankinn og Iðnaðarbankinn, auk 13 sparisjóða. Starfsemi félagsins náði upphaflega til færsluhirðingaþjónustu fyrir kaupmenn og útgáfu Visa greiðslukorta. Visa Ísland fékk leyfi til að hefja færsluhirðinugu í netviðskiptum í Evrópu
(e. Cross Border Acquring) árið 2003 og hófst þar með alþjóðleg starfsemi félagsins.
Árið 2007 urðu breytingar á rekstri félagsins þegar það fékk einnig aðild að MasterCard og hóf þar með færsluhirðingu á MasterCard greiðslukortum. Í kjölfarið á þessum umbreytingum í rekstrinum var nafni félagsins breytt í Valitor.

Viðskiptasvið
Valitor færsluhirðir Visa, MasterCard og AMEX greiðslukort og veitir kaupmönnum á Íslandi og Bretlandi greiðsluþjónustu beint, en þjónustar einnig alþjóðlega færslumiðlara sem veita og miðla greiðsluþjónustu áfram til kaupmanna víða um Evrópu. Þá taka útgáfulausnir Valitor til þjónustu og samstarfs við íslenska banka um útgáfu Visa greiðslukorta. Einnig veitir Valitor erlendum samstarfsaðilum útgáfuþjónustu og vinnsluþjónustu á útgáfusviði í Evrópu.

Eigendur og stjórnendur
Núverandi eigandi Valitor er Arion banki sem ræður yfir 100% hlutafjár. Forstjóri félagsins er Herdís Dröfn Fjeldsted og stjórnina skipa þau Þór Hauksson, stjórnarformaður, Guðfinna Helgadóttir og Roger Alexander.

Valitor og samfélagið
Í upphafi ársins 2021 voru starfsmenn félagsins af u.þ.b. 214 á starfsstöðvum félagsins á Íslandi og í Bretlandi.
Lögð er áhersla á jafnréttismál en kynjahlutfall starfsmanna er nú 53% karlar og 47% konur. Valitor hefur hlotið viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar og gengist undir jafnlaunavottun árlega síðan 2019. Meðalaldur starfsmanna  Valitor er 43 ár en meðalstarfsaldur 7,4 ár. Menntun og reynslu hefur starfsfólk sótt víða og hafa 75% háskólapróf.
Gildi Valitor
Valitor leggur mikla áherslu á að starfsfólk þess geti samsamað sig og fylgt gildum fyrirtækisins. Gildi Valitor eru þrjú: traust, samvinna og framúrskörun. Dýrmætasta eign fjármálafyrirtækis er traust og trúverðugleiki sem markast ekki síst af jákvæðum siðferðisgildum sem höfð eru í heiðri af öllum starfsmönnum þess. Þannig vill Valitor starfa.
Umhverfismál
Á árinu 2020 var samþykkt ný fjarvinnustefna Valitor. Eitt af markmiðum hennar er að draga úr mengun með færri ferðum starfsfólks til og frá vinnu, auk þess að fækka þeim ferðalögum erlendis sem ekki eru talin nauðsynleg.
Það er stefna Valitor að sýna gott fordæmi í umhverfismálum. Markmiðið er að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif rekstrarins með því að leggja rækt við sjálfbærni, hvort heldur sem er í innri og ytri starfsemi. Frá því í nóvember 2015 hefur Valitor verið aðili að loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar. Síðan árið 2017 hefur Valitor unnið með markvissum hætti að því að draga úr kolefnisspori félagsins.

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd