RARIK ohf. er hlutafélag í eigu ríkisins sem var stofnað 1. ágúst 2006 og tók þá við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins sem hófu starfsemi sína 1. janúar 1947. Fyrirtækið á því djúpar rætur í liðlega 75 ára sögu rafvæðingar Íslands. Meginverkefni fyrirtækisins við stofnun var að afla almenningi og atvinnuvegum nægrar raforku á hagstæðan hátt og hefur fyrirtækið síðan haft mikilvægu hlutverki að gegna við öflun, dreifingu og sölu á rafmagni. www.rarik.is
Rafvæðing landsins
Um miðbik 20. aldar var rafvæðing Íslands enn skammt á veg komin. Aðeins lítill hluti vatnsafls landsins hafði þá verið virkjaður og einungis um 10% íbúa í dreifbýli höfðu aðgang að rafmagni. Þann 2. apríl 1946 voru ný raforkulög samþykkt á Alþingi. Veigamesta atriði þeirra var stofnun Rafmagnsveitna ríkisins sem hófu starfsemi 1. janúar 1947. Lögin þóttu mikið framfaraspor sem miðaði að skynsamlegri nýtingu auðlindanna í þágu atvinnulífs þjóðarinnar og aukinna lífsgæða þeirra. Með sérstakri lagasetningu árið 1954 var hrint af stað 10 ára áætlun um skipulega rafvæðingu sveita landsins. Það var stórátak sem færði sveitaheimilum í landinu rafmagn og stuðlaði meðal annars að því að tæknivæða landbúnað og jafna mjög aðstöðu fólks til búsetu.
Um 90% dreifikerfa raforku í dreifbýli
Megináhersla fyrirtækisins í dag er á raforkudreifingu og hefur verið unnið jafnt og þétt að uppbyggingu dreifikerfa í sveitum, en um 90% þeirra eru í umsjá RARIK. Dreifikerfi RARIK spannar Vestur-, Norður-, Austur- og Suðurland en auk þess nær dreifikerfi RARIK til 43 þéttbýliskjarna víðsvegar um landið. Lengd dreifikerfisins er ríflega 9.000 km þar af voru í lok árs 2020 um 70% jarðstrengir. Strengvæðing hófst hjá fyrirtækinu eftir 1990 en þá varð mikið tjón á loftlínukerfinu vegna veðurs. Síðan hefur endurnýjun dreifikerfisins nær alfarið falist í því að háspennujarðstrengir hafa verið lagðir í stað loftlína. Um og yfir 200 km af jarðstrengjum hafa verið lagðir á hverju ári ef undan eru skilin þrjú ár eftir bankahrunið 2008. Jafnframt hafa allar aðveitustöðvar, sem reistar hafa verið frá þeim tíma, verið með búnað undir þaki. Þetta hefur skilað sér í færri alvarlegum truflunum vegna veðurs.
Verðlækkanir á strengjum gerðu þá að raunhæfum valkosti í stað hefðbundinna loftlína. Eignir RARIK í veitukerfum 2020 voru um 56 milljarðar króna.
RARIK á og rekur jafnframt fimm hitaveitur, jarðvarmaveitur í Búðardal, á Blönduósi og Siglufirði en fjarvarmaveitur á Seyðisfirði og fram til 2020 á Höfn í Hornafirði. Á árinu 2020 lauk lagningu um 20 km stofnlagnar hitaveitu frá jarðhitasvæðinu við Hoffell í Nesjum til Hafnar í Hornafirði og var vatni hleypt á hitaveituna í desember. Þar með lauk rekstri fjarvarmaveitu sem rekin hefur verið á Höfn frá árinu 1980, þar sem rafmagn eða olía voru notuð í kyndistöð til að hita vatn sem dreift var til um 75% húsa á Höfn. Gert er ráð fyrir að flest hús í Nesjum sem liggja nálægt stofnlögninni og öll hús á Höfn geti tengst veitunni á árinu 2021.
Samkeppnisrekstur aðskilin
Með tilkomu nýrra orkulaga árið 2003 og ákvæðum um aðskilnað samkeppnis- og einkaleyfisþátta var ákveðið að stofna sérstakt dótturfélag, Orkusöluna, um framleiðslu og sölu á vegum fyrirtækisins. Orkusalan, sem tók til starfa í ársbyrjun 2007 og er í eigu RARIK ohf., starfrækir fimm virkjanir, Rjúkandavirkjun, Skeiðsfossvirkjun, Grímsárvirkjun, Lagarfossvirkjun og Smyrlabjargaárvirkjun. Uppsett afl þessara virkjana er 37 MW og er Lagarfossvirkjun þeirra stærst.
Með breytingum á raforkulögum hætti RARIK að sinna heildsölu rafmagns. Landsnet hf. tók til starfa 1. janúar 2005 og er hlutverk þess að sinna meginflutningi rafmagns í landinu. Meirihluti stofnlínukerfis RARIK var seldur til Landsnets hf. og eignaðist RARIK þá hlut í Landsneti, og á nú rúm 22% í félaginu.
Á árinu 2008 stofnaði RARIK sérstakt félag um þróunarverkefni hér á landi og erlendis. Félagið hlaut nafnið RARIK Orkuþróun og var ætlað að halda utan um verkefni sem hafa verið í vinnslu hjá fyrirtækinu og finna ný. Auk verkefna hér á landi hefur fyrirtækið komið m.a. að verkefnum í Tyrklandi á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Þá stofnaði RARIK á árinu 2009 dótturfélagið Ljós- og gagnaleiðara ehf., til að halda utan um og leigja út hluta af ljósleiðurum í eigu félagsins. Hægt vaxandi starfsemi hefur verið í félaginu á undanförnum árum.
Umhverfi, samfélag og þjónusta við viðskiptavini
Umhverfismál eru samofin rekstri RARIK. Það er umhverfisstefna RARIK að fyrirtækið starfi í sem bestri sátt við umhverfi sitt og í siðareglum RARIK er gerð krafa um að öryggi og virðing fyrir umhverfinu séu ávallt höfð að leiðarljósi í rekstrinum. Lögð er áhersla á að sýna varúð í allri starfsemi og að gæta þess að valda ekki spjöllum á náttúru landsins, mannvirkjum eða sögulegum minjum. Í starfsemi fyrirtækisins ber auk þess að kappkosta hagkvæma notkun aðfanga, að endurnýta efni og tækjabúnað svo sem unnt sé og sýna ábyrgð við förgun á úrgangi. Þá eiga hönnun og framkvæmdir að miða að því að valda sem minnstri röskun á umhverfi og lífríki.
Á undanförnum árum hafa orku- og veitufyrirtæki landsins lagt mikla áherslu á loftslagsmál og hefur nýsköpun á því sviði vakið heimsathygli. Með orkuskiptum er hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa aukin á kostnað jarðefnaeldneytis. Orkuskiptin leiða þannig til orkusparnaðar, aukins orkuöryggis, gjaldeyrissparnaðar og minni losunar gróðurhúsalofttegunda.
RARIK gegnir lykilhlutverki við orkuskipti á landsbyggðinni. Öruggt og öflugt raforkukerfi er ein af forsendum sjálfbærs samfélags og styrking raforkukerfisins ásamt annarri uppbyggingu innviða gerir almenningi og fyrirtækjum á landsbyggðinni kleift að taka þátt í orkuskiptum úr jarðefnaeldsneyti yfir í rafmagn.
Unnið er að því að skipta út hefðbundnum orkumælum í dreifikerfi RARIK um allt land, bæði raforkumælum og hitaorkumælum, fyrir snjallmæla. Með þessum nýju orkumælum munu reikningar viðskiptavina byggja á upplýsingum um raunverulega notkun hvers mánaðar í stað áætlunar og uppgjörsreiknings í kjölfar álesturs. Viðskiptavinir geta því fylgst betur með eigin orkunotkun, gripið fyrr inn í ef hún þykir óeðlileg og dregið þannig úr orkusóun. Jafnframt mun innleiðing snjallmæla draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna álesturs.
Starfsfólk
Árið 2020 störfuðu 214 hjá RARIK samstæðunni. Af þeim voru um 50 á aðalskrifstofunni í Reykjavík en annað starfsfólk dreifðist á um 20 starfsstöðvar fyrirtækisins víðs vegar um land.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd