Nútímalegt og samfélagslega ábyrgt fasteignafélag
Reginn hf. er íslenskt fasteignafélag sem fjárfestir í, leigir út og annast rekstur atvinnuhúsnæðis. Fasteignasafn Regins telur 115 fasteignir og er heildarstærð um 378 þúsund fermetrar. Félagið er hlutafélag í dreifðu eignarhaldi, skráð í Kauphöll Íslands og skiptist starfsemin í þrjú kjarnasvið í takt við eignasafn félagsins. Sviðin eru: Verslun og þjónusta, Opinberir aðilar og Atvinnuhúsnæði og Almennur markaður. Forstjóri félagsins er Helgi S. Gunnarsson. Stærst kjarnasviða Regins er Opinberir aðilar en sviðið stendur undir um þriðjungi tekna félagsins. Reginn hefur þar nokkra sérhæfingu á meðal fasteignafélaga en félagið hefur lagt áherslu á samstarfsverkefni við opinbera aðila, hvort sem er við uppbyggingu fasteigna eða hvort tveggja uppbyggingu og rekstur.
Stefnt að sjálfbærni
Reginn mótaði sjálfbærnistefnu árið 2019 og var hún leiðarstef verkefna ársins 2020. Stefnan skiptist í þrjá flokka, umhverfislega sjálfbærni, félagslega sjálfbærni og efnahagslega sjálfbærni. Með sjálfbærnistefnu er Reginn ekki einungis að svara eftirspurn viðskiptavina sinna heldur eru stjórnendur sannfærðir um að aukin sjálfbærni dragi úr áhættu í rekstri og styrki fjárhagslega arðsemi til lengri tíma.
Umhverfisvottun og snjalllausnir
Um þriðjungur losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu er frá byggingu og rekstri fasteigna. Ábyrgð fasteignafélaga er því mikil og þau geta með markvissum aðgerðum haft jákvæð áhrif á heildarlosun. Eitt af lykilmarkmiðum Regins hvað varðar umhverfislega sjálfbærni er vottun fasteigna félagsins. Smáralind var fyrsta fasteign félagsins til að hljóta umhverfisvottun árið 2019 og var jafnframt fyrsta fasteignin á Íslandi til að hljóta hina alþjóðlegu BREEAM In-Use umhverfisvottun. Árið 2020 hlaut Höfðatorg sömu vottun.
Reginn hefur tekið í notkun snjallsorpslausnina Snjallsorp sem styður við sjálfbærnimarkmið félagsins. Snjallsorpslosun gerir leigutökum kleift að fylgjast með sínu sorpmagni og flokkun ásamt því að gera hvern leigutaka ábyrgan fyrir sinni flokkun og kostnaði. Lausnin hefur gefið góða raun og er sorpflokkun 25% meiri á Hafnartorgi, þar sem hún var fyrst innleidd, en í öðrum fasteignum Regins. Unnið er að innleiðingu í fleiri eignum félagsins. Þá hefur félagið unnið markvisst að því að bæta aðstöðu fyrir umhverfisvæna samgöngumáta, meðal annars með uppsetningu rafbílahleðslna, hjólageymslna og hjólastæða.
Fasteignir
Reginn á fjölda fasteigna í verslunarkjörnum og á og rekur stærstu verslunarmiðstöð Íslands, Smáralind. Val á leigutökum á þess háttar svæðum getur haft mikil áhrif á mannlíf og menningu. Eitt af markmiðum félagsins er að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og gera þá kjarna þar sem félagið á fasteignir að betri stöðum til að búa á, leika og starfa. Lögð er áhersla á að fá fljótlega inn sterka leigjendur sem draga að sér viðskiptavini og önnur fyrirtæki. Gott dæmi um nýlegt vel heppnað verkefni eru nýbyggingar við Garðatorg í Garðabæ. Þar fengust fljótlega inn vinsæl fyrirtæki sem voru aðdráttarafl fyrir svæðið. Nú er Garðatorg öflug miðstöð mannlífs og menningar í Garðabæ.
Áhersla á skilgreinda kjarna
Reginn hefur skilgreint kjarna sem félagið leggur áherslu á og nú er 72% eignasafns félagsins innan þessara kjarna. Með þessu móti getur félagið haft meiri jákvæð áhrif á umhverfi sitt og hjálpað til við að auka fjölbreytni mannlífs, menningar og þjónustu innan kjarnanna. Kjarnarnir eiga það sameiginlegt að vera nálægt meginsamgönguæðum en 95% verslunarrýma sem félagið á eru staðsett við fyrirhugaða borgarlínu. Dæmi um kjarna sem félagið horfir til eru: miðbær Reykjavíkur, Borgartúnssvæði, Smáralindarsvæði, miðbæir í Garðabæ og Hafnarfirði og Egilshallarsvæði.
Fyrst til að gefa út græn skuldabréf
Við samþykkt sjálfbærnistefnu og BREEAM-vottun Smáralindar í lok árs 2019 skapaðist skilyrði til útgáfu grænna skuldabréfa. Með fimm milljarða króna útgáfu varð Reginn fyrsta skráða félagið í Nasdaq Iceland til að selja græn skuldabréf. Í lok árs 2020 nam græn fjármögnun félagsins 16 milljörðum króna eða 18% af vaxtaberandi skuldum. Höfðatorg hefur einnig fengið BREEAM In Use vottun sem eykur svigrúm til grænnar fjármögnunar um rúmlega tíu milljarða króna. Unnið er að vottun fleiri eigna og stefnt er að því að árið 2025 verði verðmæti vottaðra eigna yfir 70 milljarðar króna.
Framtíðin
Verkefni næstu ára eru spennandi og metnaðarfull og stefna Regins er að halda ótrauð áfram veginn að aukinni sjálfbærni. Fasteignafélög nútímans þurfa, eins og önnur fyrirtæki, að svara kalli viðskiptavina og almennings um aukna sjálfbærni í rekstri. Allt sem við gerum hefur áhrif og skref í átt að aukinni sjálfbærni og samfélagsábyrgð eru skref í átt að betri rekstri og samkeppnishæfara fyrirtæki.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd