Reiknistofa Fiskmarkaða hf.

2022

Reiknistofa fiskmarkaða hf. var stofnuð árið 1992. Starfsemi fyrirtækisins miðar að því að tengja saman alla fiskmarkaði á landinu í eitt uppboðs- og tölvukerfi. Eigendur RSF eru þrír fiskmarkaðir; FMS hf., Fiskmarkaður Íslands hf. og Fiskmarkaður Vestmannaeyja hf. Skrifstofa RSF er staðsett í Reykjanesbæ. Uppboðskerfi fiskmarkaðanna á Íslandi er einstakt í veröldinni. Það vekur athygli langt utan landsteinanna, enda eina rafræna uppboðskerfið sem tekur til allra seljenda og kaupenda fisks í einu landi. www.rsf.is

Fimmti hver bolfiskur seldur á markaði
Langflest skip og bátar á Íslandsmiðum koma við sögu á fiskmörkuðum á Íslandi. Fimmti hver bolfiskur skiptir til dæmis um eiganda í þessum rafrænu viðskiptum þar sem jafnvel er boðið í óveiddan fisk og hann seldur hæstbjóðanda. Seljendur skrá til uppboðs, tegundir fisks, stærð, tonnafjölda, veiðitíma, veiðisvæði og löndunarstað hjá viðkomandi fiskmörkuðum. Kaupendur bjóða í fiskinn óséðan. Oftast eru það fiskvinnslufyrirtæki, útflytjendur ferskfisks í gámum eða flugi en einnig fiskbúðir, stór veitingahús, harðfiskverkendur og fleiri. Erlendir kaupendur bjóða líka í fisk á íslenskum mörkuðum og láta vinna hann hér heima eða flytja út óunninn. Umfangsmikið flutningsnet á landi tengist fiskmörkuðum. Fiskvinnslufyrirtæki á Norðurlandi á til dæmis nógan þorsk en vantar steinbít til vinnslu. Fyrirtæki á Snæfellsnesi á nóg af steinbíti en vantar þorsk. Bæði kaupa þau það sem skortir til vinnslunnar á uppboði fiskmarkaða og flytja fiskinn á milli landshluta á sama tíma. Þannig meðal annars birtast hin frjálsu viðskipti á markaði þar sem verðlag ræðst af framboði og eftirspurn á hverjum tíma.

Allir bjóðendur sitja við sama borð
Uppboð fiskmarkaða fer fram kl. 13 alla virka daga og annast RSF uppboðshald í umboði fiskmarkaðanna (einnig á sunnudögum að vetrarlagi). Starfsmenn fiskmarkaða skrá til uppboðs það sem seljendur hafa fram að færa hverju sinni. Kaupendur sitja allir við sama borð á rafrænu uppboði á vef RSF. Á þriðja hundrað kaupendur hérlendis og tíu erlendis keyptu fisk á uppboðunum árið 2020. Fullkomið tölvukerfi mælir í upphafi hraða í rafrænum samskiptum við hvern einasta kaupanda sem skráður er til leiks hérlendis og erlendis og leiðréttir upp á tíunda þúsundasta hluta úr sekúndu ef á þarf að halda. Þannig er tryggt að kaupendur í Japan, Þýskalandi og á Akureyri hafi sömu möguleika í samkeppni um fiskinn. Sá er fyrstur ýtir á hnapp á lyklaborðinu fær viðkomandi boð slegið sér. Vegalengdir á heimskortinu breyta hér engu um möguleika og hraða í viðskiptum. Uppboðin ganga afar fljótt og vel fyrir sig. Boðin eru upp 400-600 númer á klukkustund eða eitt boð á innan við tíu sekúndum að jafnaði.

Markaðir skapa verðmæti
Fiskmarkaðir hafa með starfsemi sinni frá 1987 aukið verulega verðmæti sjávarafurða og verðmætasköpun í sjávarútvegi. Þeir skutu þannig stoðum undir sérhæfingu í fiskvinnslu. Sérhæfð vinnsla framleiðir fyrir sérhæfða seljendur sem borga þá jafnframt meira fyrir vöruna en ella. Mörg dæmi eru um fisktegundir sem voru verðlausar áður en eru verðmætar á markaði nú. Nægir að nefna skötuselinn. Sá er nú seldur fyrir mörg hundruð krónur kílóið en var lengi vel hvorki talinn matfiskur né verðmæti af öðru tagi. Markaðirnir hafa líka stuðlað að betri hráefnismeðferð. Lítt kældur fiskur fellur í verði á uppboði en vel ísaður og kældur afli er mun betri og verðmætari markaðsvara. Ársvelta fiskmarkaðanna í gegnum RSF er um 30 milljarðar króna á ári (samanlögð sala og þjónusta að viðbættum virðisaukaskatti). Þrettán fyrirtæki reka fiskmarkaði á 27 stöðum á landinu. Þau seldu fisk frá alls 55 löndunarhöfnum 2020.
• Árið 2020 voru seld rúmlega 115 þúsund tonn á mörkuðunum. 
• Föst stöðugildi á fiskmörkuðum eru yfir 130. Þar við bætist fjöldi afleiddra starfa vegna þjónustu sem fyrirtækin veita, svo sem við löndun, vigtun, slægingu, ísun og afgreiðslu á bíla til flutnings á landi eða í gáma til útflutnings. 
• Viðskiptavinir fiskmarkaða greiða þeim u.þ.b. 3,8% af aflaverðmæti í söluþóknun og móttökugjöld.

Greitt er sérstaklega fyrir viðbótarþjónustu (til dæmis löndun, vigtun, slægingu, ísun og bílaafgreiðslu). Tölvukerfi RSF er lykilforsenda farsæls uppboðs og ábyrgðar kaupenda. Allir fiskmarkaðir landsins eru tengdir sameiginlegu uppboðs- og upplýsingakerfi RSF.

• Öll sala er tryggð með bankaábyrgð eða fyrirframgreiðslu. 
• Reiknistofan gerir upp við fiskmarkaði á hverjum föstudegi. • Allar upplýsingar um uppboð, viðskipti og samskipti eru skráðar í gagnagrunn kerfisins og þar geta viðskiptavinir sjálfir fylgst með verðlagi, framboði og sölu. Hér er allt á einum stað sem varðar einstaka viðskiptavini og viðskipti á mörkuðunum í heild sinni til skemmri eða lengri tíma. Upplýsingakerfið er skilvirkt, aðgengilegt og notendavænt.

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd