Reitir

2022

Vegferð Reita fasteignafélags hófst með byggingu Kringlunnar og opnun árið 1987, en verslunarrými í Reykjavík jókst um 10% á einni nóttu með opnun hennar. Pálmi í Hagkaup var forsprakkinn að Kringlunni en út frá henni og öðrum fasteignum í eigu fjölskyldunnar varð til fasteignasafn sem óx í tvo áratugi með fasteignakaupum og sameiningum við önnur félög. Upp úr ryki fjármálahrunsins stigu Reitir svo í núverandi mynd, með handvalið fasteignasafn samsett af skrifstofu-, verslunar- og iðnaðarhúsnæði ásamt hótelbyggingum í leigu til fjölbreyttra fyrirtækja á Íslandi.
Í dag byggja Reitir því á um 35 ára arfleifð umsvifa í íslensku viðskiptalífi en á „eftirhrunsárunum“ voru skiptar skoðanir á framtíðarhorfum félagsins. Reksturinn hefur þó gengið afar vel að sögn Guðjóns Auðunssonar, forstjóra, sem hefur verið hjá félaginu frá árinu 2010.

Eignasafnið
Fasteignasafn Reita er í dag um 455 þúsund fermetrar í 135 fasteignum. Félagið er því stærsta fasteignafélag landsins ef undan er skilið íslenska ríkið. Um 97% safnsins er í útleigu enda eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði mikil. Um 700 leigusamningar eru í gildi á hverjum tíma við um 500 aðila. Í Kringlunni eru sem dæmi 120 einingar til útleigu.
Fasteignasafn Reita er metið á um 170 milljarða. Innan safnsins eru margar þekktar fasteignir, félagið á t.a.m. mikinn meginhluta Kringlunnar, Hótel Borg, Hilton og Natura, Kauphallarhúsið, skrifstofubyggingarnar að Vínlandsleið og húsnæði höfuðstöðva Advania, Origo, Sjóvár og Landspítala. Leigutakar félagsins eru fjölbreyttir og endurspegla atvinnulífið almennt, opinberir aðilar standa að baki um 20% leigutekna og stórfyrirtæki að baki tæpum helmingi. Eignasafn Reita er staðsett að mestu á höfuðborgarsvæðinu en 4% á Akureyri og 4% annarsstaðar á landsbyggðinni.

Leigusamningar og viðskiptavinir
Viðskiptahugmyndin gengur út á að skapa atvinnulífinu umgjörð því margir þeirra sem eru í atvinnurekstri kjósa ekki endilega að eiga sitt húsnæði heldur kjósa þess í stað að binda fé í eigin rekstri. Margir vilja ýmist minnka við sig húsnæði eða stækka og Reitir hafa svigrúm til að mæta þörfum þeirra sem eru á hreyfingu á atvinnumarkaðnum. Þjónustukannanir sem félagið hefur látið gera hafa komið vel út svo leigutakar virðast almennt vera ánægðir með viðskiptin við Reiti. Meðallengd leigusamninga er um sjö ár sem gerir það að verkum að félagið endurnýjar eða gerir um hundrað leigusamninga árlega.

Reksturinn – Fjárfestingar
Ársvelta Reita er í kringum 13 milljarðar. Fjölbreytnin í eignasafninu, bæði hvað varðar leigutaka og húsnæðið sjálft, gerir það að verkum að sveiflur í rekstrarárangri eru tiltölulega litlar. Rekstrarhagnaði er fyrst varið í afborganir og vaxtagreiðslur til lánveitenda, en einnig í arðgreiðslur til hluthafa, sem eru að mestu leyti íslenskir lífeyrissjóðir, en ekki síst til frekari uppbyggingar á eignasafninu.

Fjárfesting í eignasafninu getur falist í endurbótum núverandi eigna, til dæmis þeirri sem nú á sér stað á þriðju hæð Kringlunnar, eða í fasteignakaupum eða þróun.

Korputún er þróunarverkefni sem nú er í deiliskipulagsferli og væntingar eru um að gatnagerð og fyrstu framkvæmdir geti hafist á næsta ári. Það er um níutíu þúsund fermetra atvinnukjarni, þ.e. á stærð við Skeifuna, sem staðsettur verður á sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar.

Þá eru Reitir stöðugt að meta fjárfestingakosti og er þá horft til þess að þær uppfylli ávöxtunarkröfu og séu til þess fallnar að styðja við núverandi viðskiptasambönd eða stryki svæði þar sem félagið á fasteignir fyrir.

Starfsmenn
Guðjón hefur fengist við ýmislegt um dagana en sl. 12 ár hefur hann starfað hjá Reitum og lætur vel af því. „Á meðan það er gaman að því sem maður er að gera og á meðan maður hefur stuðning stjórnar til góðra verka, þá heldur maður eitthvað áfram“, segir hann. Hann er stoltur af starfsmannahópnum sem hann segir vera landsliðið í rekstri fasteignafélaga.

Hjá Reitum starfa að jafnaði um 20 manns, fimm hafa umsjón með framkvæmdaverkefnum, rekstri og viðhaldi fasteignanna. Fjórir eru á viðskiptasviði sem hefur umsjón með útleigu, markaðsmálum og kaupum og sölu eigna. Þrír lögmenn starfa hjá félaginu og sjö starfa við bókhald og fjármál.

Starfsmannahópurinn gerir ýmislegt sameiginlega til að lyfta sér upp þegar stund gefst á milli stríða. Það eru haldnar veglegar árshátíðir, skroppið í golf, út að borða og annað þvíumlíkt og þykja svokallaðir „hreingerningadagar“ upplagðir til að gera sér glaðan dag.
Lítil hreyfing er á starfsfólki sem er samhljóma starfsánægjukönnun VR þar sem Reitir koma virkilega vel út. Fjarvinna hefur verið nýtt að hluta eins og mörg fyrirtæki gerðu í WWCOVID-19 en sá sveigjanleiki krefst ítarlegri skoðunar þótt starfsmenn geti unnið ýmis stök verkefni heiman að frá sér. Guðjón segist vilja endurskoða fjarvinnuna að einhverju leyti.
Óneitanlega hafa Reitir sterka stöðu á markaði en því fylgir ábyrgð og sú skylda um leið að taka þátt í þróun og uppbyggingu íslensks samfélags.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd