Árið 1985 hófust framkvæmdir við að reisa Kringluna og var henni valinn staður á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Það þótti heppileg staðsetning fyrir verslunarmiðstöð við þessi fjölmennustu gatnamót í hjarta borgarinnar.
Þorkell Erlingsson hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen var hönnunarstjóri hússins. Richard Abrams, arkitekt hjá Bernard Eagle Architects & Planners Ltd í Englandi, átti grunnhugmyndina að húsinu en hún var síðan útfærð og aðlöguð í samvinnu við Hrafnkel Thorlacius arkitekt á samnefndri teiknistofu. Fyrirtækið Byggðaverk var aðalverktaki á meðan byggingu stóð. Í dag eru THG arkitektar, arkitektar Kringlunnar.
Sagan
13. ágúst 1987 var Kringlan opnuð í 28.000 fm útleigjanlegu rými á þremur hæðum. Þar voru samtals 85 verslanir, veitinga- og þjónustuaðilar undir sama þaki. Veitingarýmið Kvikk var nýlunda á Íslandi þar sem svo þétt klasamyndun veitingastaða hafði ekki áður verið í boði. Kringlan hefur tekið miklum breytingum í gegnum tíðina. Stærsta einstaka framkvæmd var bygging tengibyggingar sem tengdi saman Kringluna og gömlu Borgarkringluna árið 1999. Stækkunin tókst einstaklega vel og hlaut Evrópuverðlaun alþjóðasamtakasamtaka verslunarmiðstöðva ICSC árið 2001 fyrir best heppnaðar endurbætur á verslunarmiðstöð það árið. Í dag er Kringlan 53.000 fm og 150 verslanir og veitingastaðir eru starfrækt í Kringlunni auk sjúkraþjálfunarmiðstöðvar, læknastofa, skrifstofu og annarar þjónustu. Stór nýjunig í þjónustuframboði hússins er opnun líkamsræktarstöðvar í stóru verslunarrými á 2 hæðum og teygir sú framkvæmd sig á útisvæði Kringlunnar þar sem heitir pottar eru í boði fyrir viðskiptavini.
Að jafnaði vinna um 5-600 manns innan veggja Kringlunnar. Kringlan hefur frá upphafi notið mikilla vinsælda meðal Íslendinga og erlendra ferðamanna. Fjöldi gesta hefur margfaldast frá opnun hennar. Í dag heimsækja um fimm milljónir viðskiptavina Kringluna ár hvert.
Upphafsmaður Kringlunnar var Pálmi Jónsson sem stofnaði verslunina Hagkaup árið 1959. Nokkrir öflugir fjárfestar fylktu lið með Pálma og deildu þeir allir áhuga hans og draumi um byggingu stórrar verslunarmiðstöðvar. Eignarhald Kringlunnar er talsvert frábrugðið eignarhaldi annarra verslunarmiðstöðva sem alla jafna eru í eigu eins aðila. Eigendahópur Kringlunnar telur um fjörutíu og fjóra en þar er lang stærstur hlutur Reita hf. sem nemur um 83%.
Verslunarmiðstöðin Kringlan er rekin af Rekstrarfélagi Kringlunnar sem er félag í eigu allra eigenda Kringlunnar. Hjá félaginu starfa 13 starfsmenn auk aðkeyptrar þjónustu. Hlutverk félagsins er að sjá um sameiginlegan rekstur og viðhald verslunarmiðstöðvarinnar, markaðssetningu, samsetningu verslana og þjónustuaðila í húsinu. Framkvæmdastjóri Kringlunnar er Sigurjón Örn Þórsson og markaðsstjóri er Baldvina Snælaugsdóttir. Stjórn félagsins er skipuð Margréti Kristmannsdóttur, Magneu Hjálmarsdóttur og Guðjóni Auðunssyni sem jafnframt er formaður stjórnar.
Nútíminn, framtíðin, samfélagsleg ábyrgð, breyttir tímar
Kringlan var til margra ára eina stóra verslunarmiðstöðin á Íslandi og hefur frá upphafi verið leiðandi á sviði verslunar og þjónustu. Árið 2001 var opnuð verslunarmiðstöð í Kópavogi en þar áður höfðu minni verslunarkjarnar verið opnaðir. Árið 2009 steig Kringlan fyrst íslenskra verslunarmiðstöðva það skref að flokka sorp. 2021 er flokkun Kringlunnar komin í 55% en Kringlan vill með flokkun sinni sýna samfélagslega ábyrgð á þessu sviði sem og öðrum. Að auki eru nú í boði fjöldi hleðslustöðva á bílastæðum Kringlunnar samfara þróun í fjölda rafbíla.
Fastur liður á aðventunni er jólagjafasöfnun fyrir börn í samstarf við Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands. Árlega gefa viðskiptavinir um 5000 gjafir í söfnunina sem á sér fastan sess hjá fjölmörgum fjölskyldum. Jólagjafasöfnun er eitt af fjölmörgum samfélagslegum verkefnum sem Kringlan er þáttakandi í.
Verslun á Íslandi stendur fyrir einum mestu umbreytingum frá upphafi. Með örri tækniþróun er kauphegðun að taka miklum breytingum og verslun og þjónusta í miklum mæli að þróast á netið. Kringlan setti fram árið 2018 metnaðarfullt loforð um að Kringlan verði stafræn verslunarmiðstöð. Stærsta einstaka verkefnið í þeirri vegferð er nýr vefur, kringlan.is. Hann fór í loftið 2019 með öflugri vöruleit þar sem í raun er hægt að heimsækja verslunarmiðstöðin á netinu og undirbúa og jafnvel klára kaup. Samhliða stafrænni þróun er samsetning verslana og þjónustu einnig í breytingafasa þar sem hlutverk verslunarmiðstöðva er að þróast í átt að afþreyingu og upplifun til viðbótar fjölbreyttu úrvali verslana sem áfram verður lykilþáttur starfseminnar.
Þegar horft er til framtíðar er ráðgert að Kringlan muni taka enn meiri breytingum. Í samráði við skipulagsyfirvöld er unnið að útfærslu á möguleikum Kringlunnar til stækkunar á nærliggjandi lóðum sem flestar eru í eigu Reita hf. Ásókn í að opna verslanir í Kringlunni er stöðugt mikil og vaxandi þörf á að stækka húsið til að mæta eftirspurn sem og aðlaga verslunarmiðstöðina að breyttu hlutverki Kringlunnar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd