Reykhólahreppur

2022

Sveitarfélagið Reykhólahreppur var stofnað 4. júlí 1987 þegar fimm sveitarfélög í Austur- Barðastrandasýslu sameinuðust undir nafni þess fjölmennasta. Það voru Reykhólahreppur, Geiradalshreppur, Gufudalshreppur, Múlahreppur og Flateyjarhreppur.
Reykhólahreppur er um 1.100 ferkílómetrar að stærð og nær frá Brekkuá í botni Gilsfjarðar að Skiptá í Kjálkafirði og út yfir fjölda eyja í Breiðarfirði þar á meðal Flatey. Staðsetning sveitarfélagsins er á mörkum Vesturland og Vestfjarða. Í upphafi ársins 2020 bjuggu 262 í sveitarfélaginu. Reykhólahreppur eru fjölskylduvænt sveitarfélag þar sem mikil áhersla er lögð á menntun og uppeldi barna bæði í leik- og grunnskóla sem eru undir sameinuðum Reykhólaskóla. Einnig er lögð rík áhersla á æskulýðsstarf. Reykhólahreppur er í góðu samstarfi við nágrannasveitarfélög og eru nokkur verkefni rekin sameiginlega með þeim. Má þar nefna félagsþjónustu, embætti skipulags- og byggingarfulltrúa og slökkviliðsstjóra. Reykhólahreppur hefur löngum þótt einstök náttúruperla og er vinsæl útisvistarparadís bæði á landi og sjó. Einkunnarorð sveitarfélagsins er „Unaður augans“.

Náttúra og umhverfi
Gönguleiðir eru víða, ein vinsælasta gönguleiðin er ganga frá Bjarkalundi upp að Vaðalfjöllum. Einnig eru gönguleiðir frá tjaldsvæðinu á Reykhólum, að Langavatni, Einireykjum og Lómatjörn. Jarðhiti finnst víða, sérstaklega á Reykhólum, heitastur hvera er Kraflandi, 101°c. Jarðhitinn er notaður til húshitunar og í laugar og böð, m.a. Grettislaug og Þaraböðin á Reykhólum og sundlaugina í Djúpadal. Þá finnst jarðhiti víða í Breiðafjarðareyjum. Reykhólahreppur er höfuból hafarnarins, en eitt helsta varpóðal konungs fuglanna er í Breiðafjarðareyjum.
Reykhólahreppur er þekktur fyrir náttúrufegurð og fuglalíf, þorpið Reykhólar er fornt höfuðból og var einhver allra besta bújörð á öldum áður. Strönd sveitarfélagsins er afar vogskorin. Margir firðir skerast norður úr Breiðafirði og ganga múlar fram á milli þeirra inn að fjarðarbotnum. Fjöldi eyja er á Breiðafirði, má þar nefna m.a. Skáleyjar, Svefneyjar, Sviðnur, Hergilsey, Oddbjarnarsker og Flatey. Fyrrum var fjölmenn byggð í þeim flestum en nú eru þær nær allar komnar í eyði.

Atvinna
Reykhólahreppur er landbúnaðarsvæði, stór hluti íbúanna hefur framfæri sitt af landbúnaði. Sérstaða landbúnaðarins byggir á hreinleika svæðisins. Reykhólahreppur er stærsti vinnuveitandinn í sveitarfélaginu og er Hjúkrunarheimilið Barmahlíð og Reykhólaskóli stærstu vinnustaðirnir. Þörungaverksmiðjan framleiðir mjöl úr þangi og þara sem þurrkað er með orku úr jarðhita á Reykhólum. Saltverksmiðjan Norðursalt framleiðir flögusalt úr breiðfirskum sjó og nýtir einnig orku úr jarðhita til framleiðslunnar. Bæði fyrirtækin eru með lífræna vottun. Kræklingarækt er stunduð við Króksfjarðarnes, og nokkur smærri fyrirtæki framleiða vörur m.a. úr þangi og þara. Má þar nefna Gullstein og Glæði. Æðadúnstekja er víða ríkuleg í sveitarfélaginu. Sjósókn var stór stór þáttur á árum áður en nú eru aðeins örfáir sem sækja á strand- eða grásleppuveiðar.

Ferðaþjónusta
Í Reykhólahreppi er víða rekin ferðaþjónusta og hefur sá iðnaður eflst síðustu ár. Upplýsingamiðstöðvar eru reknar yfir sumartímann á Bátasafninu á Reykhólum, handverksmarkaðinum í Króksfjarðarnesi og í gamla frystihúsinu í Flatey. Hótel Bjarkalundur, eitt elsta hótel landsins starfar yfir sumartímann, Hótelið í Flatey er í uppgerðu og einstöku húsnæði í Flatey, gistiheimili eru rekin á Reykhólum og er bændagisting víða og tjaldsvæði, einnig í Flatey. Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum er opin yfir sumartímann, þar eru til sýningar breiðfirskir súðbyrðingar í bland við atvinnuhætti í tengslum við hlunnindanytjar. Sjávarböðin eru opin yfir sumartímann, þar er hægt að fara í þaraböð. Handverksmarkaður er í Króskfjarðarnesi. Í Reykhólahreppi er eitt mesta safn uppgerðra gamalla dráttavéla, bæði á Grund og á Seljanesi. Frystihúsið í Flatey er samkomustaður eyjabúa yfir sumartímann, þar er tekið á mótin gestum sem sækja eyjuna heim yfir sumartímann.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd