Reykjalundur er heilbrigðisstofnun í eigu SÍBS og hófst starfsemin árið 1945. SÍBS var stofnað 1938 af berklasjúklingum á Vífilsstaðaspítala, Reykjahæli í Ölfusi, Kristnesspítala og sjúkrahúsunum í Reykjavík. Markmið samtakanna var að stuðla að útrýmingu berklanna og að berjast fyrir bættum kjörum berklasjúklinga. Það var því stór viðburður þegar starfsemin hófst á Reykjalundi. Starfsemin var fjármögnuð með fjárframlögum almennings, sölu á merkjum SÍBS og blaði samtakanna og efnt var til happdrættis með stærri vinningum en áður þekktust í happdrættum á Íslandi. Enn þann dag í dag er Happdrætti SÍBS hornsteinn framkvæmda á Reykjalundi. Fyrstu 15 árin dvöldu aðeins berklasjúklingar á Reykjalundi en það breyttist um 1960, þegar berklaveikin fór að láta undan síga og ljóst varð að ekki væri lengur þörf á endurhæfingu fyrir þennan sjúklingahóp í sama mæli og áður. Á næstu árum breyttist starfsgrundvöllur Reykjalundar, áherslur í endurhæfingu urðu fjölbreyttari og Reykjalundur breyttist í alhliða endurhæfingarmiðstöð. Reykjalundur heitir í dag Reykjalundur endurhæfing ehf.formaður stjórnar Reykjalundar er Anna Stefánsdóttir og Pétur Magnússon er forstjóri.
Endurhæfing
Reykjalundur er stærsta endurhæfingarstofnun landsins og þjónar öllu landinu. Þar fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að bættum lífsgæðum, aukinni færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita. Endurhæfing Reykjalundar er byggð upp samkvæmt alþjóðlegum, klínískum leiðbeiningum. Meðferðin einkennist af þverfaglegri samvinnu fagfólks sem myndar átta sérhæfð teymi, sem starfrækt eru á dagvinnutíma að mestu. Einnig er fjöldi gistirýma í boði fyrir fólk, sem vegna landfræðilegra ástæðna eða annarra, getur ekki farið heim að lokinni meðferð á daginn. Markmið endurhæfingar er að sjúklingar endurheimti fyrri getu sína eða bæti heilsu sína. Endurhæfing skiptir sköpum þegar kemur að líkamlegri og andlegri heilsu. Eftir alvarleg veikindi, slys, áföll eða aðgerð þá getur endurhæfing hjálpað til við að ná aftur fótfestu í dagslegu lífi. Læknisfræðileg endurhæfing er sérhæfð meðferð sem byggir á þeirri hugmyndafræði að taka heildrænt á afleiðingum sjúkdóma og slysa. Endurhæfing byggir á samvinnu margra fagaðila, sjúklings og hans nánustu. Beitt er sálfræðilegum, líkamlegum og félagslegum aðferðum, með það að markmiði að uppræta, minnka eða bæta fyrir skerðingu á færni og virkni, sem sjúkdómur eða slys hefur valdið.
Í upphafi voru læknar og hjúkrunarfræðingar eina fagfólkið á Reykjalundi, en fagfólki hefur fjölgað jafnt og þétt í gegnum árin, eftir því sem þróun hefur orðið innan heilbrigðisvísinda. Helstu heilbrigðisgreinar, sem tengjast í dag beinni meðferð sjúklinga á Reykjalundi eru: Félagsráðgjöf, heilsuþjálfun, hjúkrun, iðjuþjálfun, lækningar, næringarráðgjöf, sálfræðiþjónusta, sjúkra-þjálfun og talmeinafræði. Þessum faghópum til halds og trausts eru stoðdeildir Reykjalundar; heilbrigðisgagnafræðingar, hjarta- og lungnarannsókn, innskriftarmiðstöð, móttaka, mötuneyti, ræsting, saumastofa, skrifstofa, upplýsingatæknistjóri, vísindi og kennsla og viðhald húsnæðis og lóðar. Hjartað í starfsemi Reykjalundar er teymisvinna fjölbreytts hóps sérhæfðs heilbrigðisstarfsfólks sem myndar meðferðarteymi. Í meðferðarteymunum er sett upp einstaklingsmiðuð endurhæfingardagskrá fyrir hvern og einn sjúkling, sem miðar að því að bæta líkamlega getu hans, andlega og félagslega líðan. Tekið er mið af getu hans og færni, sem og persónulegum þáttum eins og menntun, fjölskyldu, búsetu, kyni og vinnu, allt eftir því hvaða markmið er með vinnunni. Misjafnt er hvernig endurhæfingu hver og einn þarfnast og því skiptir miklu máli að heilbrigðisstarfsfólk með ólíka sérfræðiþekkingu vinni saman að bættri líðan. Markmið teymisvinnu er að veita þverfaglega, heildræna meðferð byggða á gagnreyndri þekkingu. Áhersla er á samtalsmeðferð, einstaklings- og hópmeðferð, fjölbreytta hreyfingu, námskeið og fræðslu. Meðferðarteymi Reykjalundar eru; efnaskipta- og offituteymi, geðheilsuteymi, gigtarteymi, hjartateymi, lungnateymi, starfsendurhæfingarteymi, tauga- og hæfingarteymi og verkjateymi. Mikil áhersla er lögð á fræðslu og þátttöku sjúklings. Einnig er áhersla á grunnþætti heilbrigðs lífs, svo sem heilsusamlegt mataræði, reykleysi, hæfilega hreyfingu og góðan svefn. Markmið endurhæfingar er að bæta líðan og lífsgæði sjúklings og getu hans til að nýta sér ýmis bjargráð sem honum eru kennd.
Aðstaða og mannauður
Á Reykjalundi er fyrsta flokks aðstaða til endurhæfingar á öllum sviðum; æfingatækjasalur, fullbúinn íþróttasalur, meðferðarstofur, vinnustofur, smíðaverkstæði, rými fyrir alls kyns handmennt, æfingaeldhús, fræðsluherbergi, slökunarsalur, hvíldarherbergi, setustofur, starfsendurhæfingar vinnustaður og tvær sundlaugar svo eitthvað sé nefnt. Á Reykjalundi eru tiltæk hvers kyns hjálpartæki til að aðstoða fólk með mismunandi líkamlega færni við daglega iðju. Miðgarður er legudeild Reykjalundar. Þar er veitt þjónusta allan sólahringinn og þangað koma sjúklingar sem þurfa meiri hjúkrun og umönnun en þeir sem eru á dag- og göngudeildum. Miðgarður sinnir breiðum hópi sjúklinga sem oft á tíðum glímir við fjölþætt heilsufarsvandamál. Deildin tekur einnig á móti sjúklingum beint af spítala. Á Reykjalundi er sambýlið Hlein sem er heimili fyrir ungt fólk sem fatlast hefur vegna sjúkdóms eða slyss. Á Hlein er búið allan ársins hring og stunda íbúar þar þjálfun á Reykjalundi eftir þörfum og getu hvers og eins. Íbúar Hleinar sækja einnig námskeið í Fjölmennt. Atvinnuþjálfun og félagslegi þátturinn skipa stóran sess í markmiðum deildarinnar og er öll umönnun íbúa einstaklingshæfð. Um 110-130 sjúklingar sækja þjónustu á degi hverjum. Á hverju ári fara um það bil 1.300 manns í gegnum endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi, flestir í 4-6 vikur í senn. Auk þess kemur fjöldi fólks í viðtöl á göngudeild á hverju ári. Á Reykjalundi starfa tæplega 200 starfsmenn í um 170 stöðugildum.
Hollvinasamtök
Hollvinasamtök Reykjalundar voru stofnuð árið 2013. Tilgangur samtakanna er að styðja við þá endurhæfingarstarfsemi sem fram fer á Reykjalundi í samráði við stjórnendur Reykjalundar. Fyrrum sjúklingar Reykjalundar og aðrir velunnarar stóðu að stofnun samtakanna og hafa þau gefið Reykjalundi gjafir fyrir rúmar 60 milljónir. Allir eru velkomnir í Hollvinasamtökin og fer skráning fram á vefsíðu Reykjalundar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd