Reykjanesbær

2022

Reykjanesbær er fjórða stærsta sveitarfélag landsins með tæplega 20.000 íbúa. Íbúa-fjölgun hefur verið hröð á undanförnum árum og langt yfir landsmeðaltali. Hlutfall innflytjenda er einnig mjög hátt í Reykjanesbæ á landsvísu. Reykjanesbær státar sig af því að vera öflugt fjölmenningarsamfélag og leggur áherslu á að íbúar stuðli í sameiningu að fjölmenningarsamfélagi þar sem allir hafa jöfn tækifæri til félagslegrar þátttöku og upplifi að þeir tilheyri samfélaginu. Starfsmenn og íbúar Reykjanesbæjar tóku virkan þátt í að skapa stefnu Reykjanesbæjar, sem gildir til 2030. Þar skerpa þau á þeim áherslum sem skipta íbúa og samfélagið miklu máli. Lögð er áhersla á aukin lífsgæði, góð samskipti bæjarbúa og jöfn tækifæri til heilbrigðs lífs og hamingju. Börnin fá stuðning svo þau blómstri í fjölskyldunni, skólum, íþróttum og tómstundum til að auka kraft samfélagsins. Reykjanesbær vinnur í átt að sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir, hampar náttúrufegurðinni og leggur áherslu á grænan og áhugaverðan bæ. Einnig nýtir bærinn framsækið skólastarf til að næra nýsköpun, skapa vel launuð störf og gera bæinn að eftirsóttum stað til búsetu. Grunnskólar í Reykjanesbæ eru sjö talsins og leikskólar tíu. Fjölbrautarskóli Suðurnesja hefur starfað síðan 1976, Keilir háskólabrú frá árinu 2007 og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum starfað síðan 1997. Hér má finna þjónustustofnanir, verslanir, hótel, fjölbreyttan iðnað og frumkvöðlafyrirtæki. Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein og gamla varnarsvæðið sem nú heitir Ásbrú hefur orðið að nýju íbúðahverfi. Kjartan Már Kjartansson er bæjarstjóri Reykjanesbæjar og hefur starfað sem slíkur frá árinu 2014.

Saga bæjarins
Reykjanesbær varð til við sameiningu sveitarfélaganna Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna árið 1994. Nálægðin við hafið hefur ávallt mótað sögu svæðisins. Í Höfnum hafa verið rannsakaðar leifar bústaðar sem er frá elstu tíð og þykir varpa nýju ljósi á landnám Íslands. Í Keflavík hefur verið miðstöð verslunar á Reykjanesi í margar aldir. Mikilvægi staðarins markaðist fyrst og fremst af miklu framboði af fiski sem veiddist steinsnar frá landinu. Jarðirnar Innri- og Ytri-Njarðvík og jarðeignir í Hafnahreppi voru alla tíð eftirsóttar sökum nálægðar við fiskimiðin. Útgerð var með miklum blóma allt fram undir lok 20. aldar þegar kvótinn var að mestu seldur úr bæjarfélaginu. Í seinna stríði hóf Bandaríkjaher byggingu Keflavíkurflugvallar sem hefur verið í rekstri alla tíð síðan. Lengst af var flugvöllurinn rekinn í samvinnu við varnarliðið sem hafði aðsetur við flugvöllinn. Herstöðin var lögð niður árið 2006 eftir um hálfrar aldar starfsemi á vellinum. Þótt þessar miklu sviptingar hafi haft mikil áhrif á bæjarlífið þá hafa þær ekki dregið máttinn úr samfélaginu.

Menning og mannlíf
Í Reykjanesbæ er menningarlíf með miklum blóma og á vegum sveitarfélagsins er starfrækt Bókasafn Reykjanesbæjar, Byggðasafn Reykjanesbæjar, Listasafn Reykjanesbæjar og Rokksafn Íslands. Bókasafnið hefur aðsetur í Ráðhúsi Reykjanesbæjar en sýningarsalir byggðasafns og listasafns eru í Duus Safnahúsum, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar, þar sem einnig er að finna Gestastofu Reykjaness jarðvangs auk upplýsingamiðstöðvar ferðamála.Hljómahöll er menningarmiðstöð í Reykjanesbæ. Þar hefur skapast mikilvægur vettvangur fjölskrúðugs mannlífs, ráðstefnuhalds, funda og menningarviðburða. Hið sögufræga félagsheimili Stapi er hluti af Hljómahöll og þjónar sínu hlutverki eins og áður. Auk þess er Rokksafn Íslands hluti af Hljómahöll en safnið er mikið aðdráttarafl fyrir innlenda og erlenda ferðamenn sem vilja kynnast og upplifa popp- og rokksögu Íslands. Reykjanesbær stendur fyrir ýmsum árlegum viðburðum og hátíðarhöldum og má þar nefna þrettándagleði, listahátíð barna, safnahelgi á Suðurnesjum, list án landamæra, 17. júní hátíðarhöld, pólska menningarhátíð og dagskrá tengda jólum. Stærsti viðburðurinn er Ljósanótt sem var haldin í tuttugasta sinn haustið 2019 og er mjög vinsæl hátíð meðal heimamanna og gesta. Hátíðin stendur frá fimmtudegi til sunnudags með hápunkti á laugardeginum. Heimamenn eru í aðalhlutverki og sjá um flest atriðin en einnig hafa góðir gestir komið að með ýmsar uppákomur. Ljósanótt er mikil tónlistarhátíð, árgangagangan er mjög vinsæl sem og flugeldasýningin á laugardagskvöldinu og fjöldi lista- og handverksýninga er víða um bæinn svo fátt eitt sé nefnt.

Ásbrú
Varnarsvæðið gamla sem nefnist Ásbrú er í dag bæjarhluti Reykjanesbæjar. Reykjanesbær hefur ákveðið að Ásbrú verði næsta uppbyggingarhverfi í sveitarfélaginu og hefur sett fram rammaskipulag til ársins 2030. Meginlínur voru lagðar um landnotkun og samgöngukerfi, byggðarmynstur, landslagshönnun og mótun staðaranda. Á Ásbrú eru leikskólar, grunnskóli og háskólasvæði og fjöldi ungra fjölskyldna. Lögð er áhersla á vistvænar áherslur, meðal annars þéttingu byggðar og gatnakerfi sem eykur gönguhæfi og bætir flæði um svæðið. Unnið verður að fjölbreytni í húsa- og íbúðargerðum til þess að skapa jafnvægi á milli mismunandi aldurs- og samfélagshópa. Það verður skapaður vettvangur fyrir íbúa til að efla hverfisvitund og möguleika á að nágrannar kynnist, t.d. með verslun, þjónustu og íþróttaaðstöðu. Þar sem svæðið hefur sterka sögu þá liggur auður í að hlúa að staðaranda og menningarsögu svæðisins með því að gera söguna sýnilegri og viðhalda kennileitum herliðs á svæðinu.

Atvinnutækifæri
Atvinnutækifæri við Keflavíkurflugvöll eru mikil. Staðsetningin á milli Evrópu og Ameríku, nálægðin við höfuðborgarsvæðið, sveitarfélögin við völlinn og kostir íslensks samfélags eru ótvíræðir. Græn orka, sveigjanleiki, aðlögunar- og samstarfshæfni samfélagsins eru sömuleiðis þættir sem gegna stærra hlutverki í samskiptum og viðskiptum þjóða. Það liggja einnig mikil tækifæri í öflugri hafnarstarfsemi í Reykjanesbæ. Hafnirnar Helguvíkurhöfn, Njarðvíkurhöfn og Keflavíkurhöfn hafa hver um sig ólík hlutverk og sú uppbygging sem unnið er að mun efla atvinnulífið og samfélagið um ókomna tíð.

Ferðamenn og störfin sem þeir skapa
Fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll hefur skapað fjölda starfa og tækifæra fyrir íbúa Reykjanesbæjar, ekki aðeins í beinum flugtengdum störfum heldur hefur samfélagið notið góðs af auknum viðskiptum tengdum ferðamönnum og starfsfólki fyrirtækja flugvallarins. Fram kemur í Vegvísi ferðaþjónustu að um árabil hefur fjölgun erlendra ferðamanna á Íslandi verið hlutfallslega mun meiri en á heimsvísu. Aukin umsvif við flugvöllinn kalla á uppbyggingu stoðþjónustu en að sama skapi ýtir uppbygging Keflavíkurflugvallar undir að svæðið verði segull fyrir hvers konar flugtengda starfsemi, svo sem flutninga, flugþjónustu, gistirekstur, bílaleigurekstur, veitingarekstur, verslun og afþreyingu.

Náttúran
Reykjanesið er frekar láglent af náttúrunnar hendi og einkennist landslagið af hraunbreiðum og vogskornum ströndum. Fegurð náttúrunnar liggur víða og áhugaverðir staðir þess virði að skoða, má þar nefna Reykjanesvita, Brimketil og Gunnuhver. Reykjanesbær er innan Reykjanes jarðvangs sem er vottaður UNESCO hnattrænn jarðvangur. Slík svæði búa yfir merkilegum jarðminjum á heimsvísu sem samanlagt skýra frá mótun lands frá upphafi og áhrif jarðfræðinnar á þróunarsögu, menningu og lífríki svæðanna. Jarðvangar eru því áhugaverðir vegna fræðslugildis, fjölbreytilegrar náttúru og sjaldgæfra jarðminja. Flekaskil Norður Ameríku og Evrópu eru sýnileg á Reykjanesi og gerir svæðið einstakt á heimsvísu. Hægt er að ganga yfir flekaskilin á Brú milli heimsálfa, sem er einn af fjölmennustu ferðamannastöðum Reykjaness. Reykjanesbær hefur í áraraðir unnið ötullega að útivistarsvæði fyrir íbúa. Fallegar gönguleiðir með sjávarsíðunni frá Keflavík til Njarðvíkur eru vel nýttar af íbúum bæjarins. Einnig eru opin leiksvæði fyrir börnin víðsvegar, göngustígar á milli hverfa og skógrækt. Grænu fallegu útisvæðin auðga mannlífið í Reykjanesbæ.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd