Saga Kynnisferða helst nánast í hendur við sögu ferðaþjónustu á Íslandi. Starfsemi fyrirtækisins hófst árið 1968 þegar fjórar ferðaskrifstofur stofnuðu félagið. Hugmyndin að stofnun þess kom frá Loftleiðum hf., sem flutti þá ótal erlenda farþega til landsins og frá.
Tilgangur félagsins var að reka ferðir um Reykjavík og dagsferðir til helstu ferðamannastaða á Suðvesturlandi. Hagræðingin fólst í að geta selt einstaklingum ferðir án þess að hafa áhyggjur af því hvort nógu margir farþegar „smöluðust“ saman fyrir hverja ferð.
Með tímanum urðu Kynnisferðir leiðandi afl innan íslenskrar ferðaþjónustu, sem var þá rétt að slíta barnsskónum.
Sagan
Aðalverkefni Kynnisferða fyrstu árin voru ferðir með svokallaða SOP (Stop-Over Passengers) farþega Loftleiða. Innifalið í pakkanum var flutningur til og frá flugvelli, hótelgisting, Reykjavíkurferð og dagsferðir. Árið 1979 var Kynnisferðum falið að annast rekstur farþega- og áhafnabifreiða til Keflavíkurflugvallar fyrir Flugleiðir. Árið 2019 voru því 40 ár frá því að Kynnisferðir hófu rekstur þess hluta félagsins sem fékk síðar nafnið Flugrútan og Flybus.
Áskoranirnar voru fjölmargar fyrstu árin og bera þess augljós merki hversu skammt á veg ferðaþjónusta á Íslandi var komin. Má þar nefna lokanir hótela, veitingastaða og annarra þjónustuaðila yfir vetrartíma og hátíðardaga ásamt ástandi vega og snjómoksturs um helstu leiðir að ferðamannastöðum. Kynnisferðir voru eitt af fyrstu fyrirtækjunum til að hafa opið alla daga ársins. Árið 2003 var Kynnisferðum breytt úr sameignarfélagi í einkahlutafélag og eignuðust Flugleiðir hf. allt hlutafé félagsins. Árið 2007 voru Kynnisferðir seldar út úr Icelandair en áfram var gott samstarf á milli félaganna. Kynnisferðir sáu um akstur áhafna milli Keflavíkur og Reykjavíkur allt til ársins 2019.
Viðurkenning og vottanir
Kynnisferðir hlutu starfsmenntaverðlaun SAF árið 2011 í kjölfar þess að ný starfsmannahandbók var gefið út 2010 og formlegar þjálfunaráætlanir innleiddar. Kynnisferðir fengu á árinu 2012 vottun samkvæmt alþjóðlega umhverfisstjórnunarstaðlinum ISO 14001:2004. Þá hlutu fyrirtækin gæðavottun Vakans, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar á haustmánuðum 2013. Kynnisferðir voru einnig fyrsta ferðaþjónustufyrirtækið til að fá Jafnlaunavottun VR í nóvember 2013.
Starfsemin
Gríðarleg fjölgun ferðamanna á árunum 2009 til 2017 varð til þess að Kynnisferðir stækkuðu hratt. Rútufloti félagsins var þegar mest var 140 bílar. Árið 2013 stofnuðu Kynnisferðir bílaleigu undir vörumerkinu RED en ári síðar fékk félagið umboð fyrir Enterprise Rent-A-Car á Íslandi en Enterprise er stærsta bílaleiga heims. Árið 2016 unnu Kynnisferðir útboð í strætisvagnaakstur fyrir Strætó BS. og árið 2020 sá félagið um rekstur 11 leiða á 52 vögnum. Vegna mikillar stækkunar á rekstri félagsins var fjárfest í nýjum höfuðstöðvum við Klettagarða 12 árið 2016. Árið 2018 fögnuðu Kynnisferðir 50 ára afmæli sínu á sama tíma og WOW air varð gjaldþrota sem hafði mikil áhrif á rekstur félagsins enda flugfélagið komið með yfir 20 þotur og því gríðarlega mikilvægt félag fyrir íslenska ferðaþjónustu. Á þessum langa ferli hafa Kynnisferðir vaxið og dafnað og orðið að einu stærsta ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi og stærsti aðili sem annast dagsferðir fyrir erlenda ferðamenn. Í lok árs 2019 festu Kynnisferðir kaup á rekstri dráttarbílafyrirtækis sem sinnir verkefnum fyrir Eimskip. Á sama ári fór ný vefsíða fyrirtækisins í loftið, www.re.is. Þar má finna eitt stærsta úrval dagsferða, ævintýra- og afþreyingatengdri þjónustu á Íslandi. Sókn á erlenda markaði hélt áfram og aðgöngusala innanlands jókst. Á árinu 2020 var samkomulag undirritað um sameiningu Kynnisferða og félaga sem eru í eignasafni Eldeyjar, en með sameiningunni verður til eitt stærsta félag landsins sem sinnir afþreyingartengdri ferðaþjónustu. Markmið sameiningarinnar er að hagræða í rekstri ásamt því að styrkja sameiginlegt sölu- og markaðsstarf.
Mannauður
Hjá fyrirtækinu hefur starfað og starfar enn öflug starfsfólk sem hefur öðlast mikla reynslu í áranna rás. Framboð á ferðum og fjölþætt starfsemi fyrirtækisins hefur náð nýjum hæðum en aldrei hefur reynt á mannauð fyrirtækisins eins og árið 2020, þegar heimsfaraldur COVID-19 ógnar starfsemi ferðaþjónustufyrirtækja um allan heim. Það er einmitt í slíkum þrengingum sem í ljós kemur hvers konar samheldni, áræðni og ástríðu fyrirtækið býr að í starfsfólki sínu, verðmætasta auðs þessarar rótgrónu starfsemi.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd