Reykjavíkurborg

2022

Í Reykjavík, höfuðborg Íslands, bjuggu rúmlega 133.000 manns í árslok 2020. Á undanförnum áratug hefur geysimikil uppbygging átt sér stað í borginni, atvinnulíf er fjölbreytt og mannlífið fjölmenningarlegt. Yfirbragð borgarsamfélagsins í Reykjavík verður sífellt alþjóðlegra líkt og í öðrum borgum Norðurlanda. Reykjavík hefur fest sig í sessi sem lífsgæðaborg á heimsmælikvarða en hún var í fimmta sæti af 174 borgum árið 2019 samkvæmt mælikvörðum IESE https://blog.iese.edu/cities-challenges-and-management/2019/05/10/iese-cities-in-motion-index-2019/
Samkeppnishæfni Reykjavíkur felst m.a. í grænni raforku, hitaveitu og tækniinnviðum eins og ljósleiðaratengingum og nethraða. Áform um Borgarlínu – hágæða almennings-samgöngur, sem öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu taka þátt í ásamt ríkinu, eru mikilvægir samgönguinnviðir í þessu tilliti en einnig hefur sýnt sig að góð nærþjónusta, framúrskarandi leikskólar og grunnskólar á heimsmælikvarða auka samkeppnishæfni Reykjavíkur. Fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu hefur verið mikil á síðustu árum en nú búa tæplega 237.000 manns á svæðinu eða um 2/3 hluti fólksfjölda Íslands. Þetta býður upp á fleiri tækifæri, þéttari byggð og fjölbreytni í atvinnulífi og hefur skapað færi á auknu samstarfi milli sveitarfélaganna á svæðinu.

Borgarlínan
Borgarlínan er hágæða almenningssamgöngukerfi sem ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa sammælst um að ráðast í með samgöngusáttmála sem skrifað var undir 2020. Fyrsti áfangi Borgarlínu mun m.a. ganga um Ártúnshöfða, Vogabyggð, Suðurlandsbraut, Hverfisgötu og fara yfir nýja Fossvogsbrú yfir á Kársnes í Kópavogi. Borgarlínunni er ætlað að draga úr umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu og bjóða almenningi upp á alvöru valkost með hröðum samgöngum á milli borgarhluta. Fyrirhuguð er mikil uppbygging íbúða og atvinnuhúsnæðis meðfram samgönguásum Borgarlínunnar, t.d. meðfram Suðurlandsbraut en þar verða byggðar yfir 1000 nýjar íbúðir á næstu árum.
Að auki stendur til að færa Miklubraut í stokk að hluta til og þétta byggð þar í miðju borgarinnar.

Vöxtur ferðaþjónustu
Áratugurinn 2010-2020 einkenndist af miklum vexti ferðaþjónustunnar sem er orðin stærsta atvinnugrein Íslands og sú sem skapar mestar gjaldeyristekjur. Árið 2012 komu 600 þúsund ferðamenn til Íslands en metárið 2018 voru þeir orðnir 2,3 milljónir. Mikill meirihluti ferðamanna gistir í Reykjavík á meðan dvöl stendur eða rúmlega 70%.
Margföldun í komu ferðamanna hefur kallað á stórkostlega uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu í borginni, t.a.m. hótela, veitingahúsa og afþreyingar af ýmsu tagi.
Allan síðasta áratug hefur Miðborg Reykjavíkur iðað af ferðamönnum og heimafólki. Heimsfaraldur kórónuveiru SARS-COV-2, sem veldur sjúkdómnum COVID-19, sló sér niður á Íslandi í lok febrúarmánaðar 2020. Faraldurinn hefur haft mikil neikvæð áhrif á ferðaþjónustufyrirtæki, veitingahús og ýmsa aðra þjónustu og viðburði á árinu 2020 og 2021. Enn sér ekki fyrir endann á faraldrinum í heiminum þegar þetta er skrifað á vormánuðum árið 2021 þótt bólusetningar gegn veirunni skæðu séu hafnar.

Þétting byggðar
Þrátt fyrir COVID-19 hefur framkvæmdastig verið hátt í Reykjavík allan farsóttartímann. Byggðar hafa verið að meðaltali 1.000 íbúðir á ári í Reykjavík á undanförnum árum. Ný hverfi og borgarhlutar hafa risið. Byggt hefur verið samkvæmt nýju aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 sem samþykkt var af Skipulagsstofnun árið 2014. Megináhersla aðalskipulagsins er þétting byggðar vestan Elliðaáa en skipulagið gerir ráð fyrir að meginþungi uppbyggingar eða 90% sé á því svæði og að mestu meðfram svokölluðum samgönguás Borgarlínu. Með þéttingu nýtast innviðir betur og skilvirkara borgarsamfélag myndast með ýmis konar nærþjónustu. Á sama tíma er hlúð að grænum svæðum og útivistarsvæðum í borginni enda stefnir aðalskipulagið að því að skapa borg fyrir fólk.
Samkvæmt þessu skipulagi hefur verið byggt á þéttingarreitum víða um borgina, m.a. hafa risið hundruð íbúða á reitum við Hverfisgötu. Nýbyggingar hafa risið á bílastæðaplönum á Hafnartorgi og stórhýsi við Austurhöfn sem liggja að Hörpu, eru að klárast en þar hefur verið byggt fimm stjörnu Marriott hótel og íbúðir. Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans eru að rísa eins og áformað var.
Heilt hverfi með yfir 1.000 íbúðum hefur risið við rætur Öskjuhlíðar, bæði á Hlíðarenda og við Nauthólsveg. Háskólinn í Reykjavík hyggur á frekari uppbyggingu þar á meðan Vísindagarðar hafa risið vestan megin við Reykjavíkurflugvöll. Þar eru jafnframt stærstu stúdentagarðar landsins auk fjölda framsækinna fyrirtækja. Rammaskipulag Háskólans gefur vonir um spennandi uppbyggingu á svæðinu. Þá er uppbygging Nýja Landspítalans við Hringbraut komin á gott skrið en allir þessir stóru vinnustaðir verða tengdir saman af Borgarlínunni.
Við útvarpshúsið í Efstaleiti hafa risið fjölmörg fjölbýlishús. Uppbygging á Kirkjusandi er langt komin og framkvæmt er af miklum krafti í nýjum hverfishluta í Vogabyggð við Elliðaárósa þar sem iðnaðarhverfi breytist í íbúðabyggð. Hinum megin við Elliðaárósa er einnig fyrirhuguð mikil uppbygging en þar er verið að byggja íbúðir í stækkuðu Bryggjuhverfi. Í Vesturbæ hefur verið byggt við sjávarsíðuna á reitum sem liggja við Eiðisgranda og hafin er uppbygging á 500 íbúðum á tveimur reitum sem liggja að Ánanaustum.
Næstu stóru uppbyggingarsvæði Reykjavíkur verða í Skerjafirði, Ártúnshöfða og Gufunesi þar sem uppbygging mun m.a. haldast í hendur við lagningu Borgarlínunnar. Gert er ráð fyrir um 20.000 manna byggð á Ártúnshöfða og Bryggjuhverfi og er stefnt að því að hverfið verði grænasta hverfi borgarinnar. Í nýjum hverfum er leitast við að nota sjálfbærar lausnir í skipulagi og byggingarframkvæmdum, t.d. eru notaðar svokallaðar blágrænar ofanvatnslausnir sem miða að því að veita regnvatni í náttúrlega farvegi eða á græn grasþök í stað þess að leiða það í holræsakerfi.
Ný úthverfi borgarinnar í Úlfarsárdal og Reynisvatnsási eru að verða fullbyggð en þar hófst uppbygging á fyrsta áratugi nýrrar aldar. Þar hefur Reykjavíkurborg staðið í miklum framkvæmdum á undanförnum árum við skólabyggingar, sundlaug, menningarhús og íþróttamannvirki Fram, auk hefðbundinnar innviðauppbyggingar á götum og gangstéttum.

Félagsleg húsnæðisstefna
Húsnæðisstefna Reykjavíkurborgar hefur það sem meginmarkmið að á öllum uppbyggingar-svæðum í Reykjavík sé unnið að því að viðhalda félagslegum fjölbreytileika til að koma í veg fyrir einsleitni í íbúahverfum. Bygging félagslegs húsnæðis í nýjum hverfum er því eitt af samningsmarkmiðum borgarinnar þegar kemur að því að skipuleggja byggð í borginni. Lögð hefur verið áhersla á sókn í uppbyggingu fjölbreytts félagslegs húsnæðis fyrir tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga, námsmenn, fatlað fólk og eldri borgara. Ennfremur hefur verið ráðist í byggingu á hagkvæmu húsnæði til að mynda í Gufunesi á vegum Þorpsins vistfélags. Borgin mun leggja alls 86 milljarða króna til uppbyggingar á félagslegu húsnæði á næstu fimm árum 2021-2025 og er það í samræmi við öfluga fjárfestingaráætlun Græna plansins sem kynnt var sem áætlun borgaryfirvalda í lok árs 2020 til að bregðast við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs COVID-19. https://graenaplanid.reykjavik.is/

Fjölbreytni í samgöngum
Í tengslum við loftslagsstefnu borgarinnar og hjólreiðaáætlun hefur einnig verið ráðist í viðamikla uppbyggingu á göngu- og hjólastígum en sannkölluð vakning hefur átt sér stað í hjólreiðum í borginni á undanförnum árum. Stefna borgarinnar er að gera sem flestum samgöngumátum hátt undir höfði til að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, bæta lýðheilsu og auka lífsgæði íbúanna. Borgin stefnir á að verða kolefnishlutlaus árið 2040.
Í tengslum við orkuskipti hefur borgin unnið að því að koma fyrir hleðslustöðvum fyrir rafbíla víðs vegar um borgina í samvinnu við Veitur og Orku náttúrunnar en rafbílavæðing er komin á fullt skrið hér á landi eins og annars staðar. Verið er að LED-væða alla götulýsingu í borginni sem mun hafa umtalsverðan orkusparnað í för með sér.
Deilihagkerfið hefur sett mark sitt á borgina á undanförnum árum. Fjölmargir hafa kosið að leigja húsnæði sitt til ferðamanna á deilisíðum eins og AirBnb. Einnig hafa sprottið upp deilihjólaleigur og sjá má fólk þeysast um borgina á leiguhjólum og rafskútum sem einkafyrirtæki leigja út með leyfi borgaryfirvalda.

Endurreisn miðborgarinnar
Miðborg Reykjavíkur hefur verið í stöðugri endurnýjun síðasta áratug. Í gömlu Reykjavík ægir saman gömlum, litríkum bárujárnsklæddum húsum, nútíma arkitektúr og byggingarstíl frá ýmsum tímum. Aðalskipulag 2010-2030 leitast við að vernda þessi sérkenni og hefur götumynd Laugavegs verið styrkt með friðun og endurnýjun gömlu timburhúsanna þar.
Erlendir gestir kunna vel að meta hina litríku og fjölbreyttu miðborg og sýna kannanir að hún er mest sótti ferðamannastaður Íslands. Reykjavíkurborg prýðir miðborgina alls konar árstíðabundnum skreytingum vetur, sumar, vor og haust og styrkir viðburðahald á göngugötum og torgum. Til stendur að gera Laugaveginn og neðsta hluta Skólavörðustígs að varanlegri göngugötu og verða göturnar endurgerðar í samræmi við þá breytingu til að þjóna gangandi og hjólandi vegfarendum enn betur ásamt bættu aðgengi fyrir fatlað fólk. Kannanir hafa sýnt eindreginn stuðning borgarbúa við þessar breytingar en göngugötur hafa notið mikilla vinsælda borgarbúa. Sjálfur miðborgarkjarninn hefur stækkað bæði til austurs og vesturs. Öflug uppbygging við eystri hluta Hverfisgötu og á svæðinu austan við Hlemm hefur hleypt nýju lífi í það svæði. Vestur á Granda við gömlu höfnina hefur hlutverk gömlu verbúðanna smám saman breyst úr hafntengdri starfsemi í veitingahús, sérverslanir og hönnunarbúðir. Á Hafnartorgi hefur síðan risið öflugur kjarni með lúxusíbúðum og atvinnuhúsnæði með glæsilegum verslunum, veitingahúsum og þjónustu á jarðhæðum með 1.100 bílastæðum neðanjarðar.
Unnið hefur verið gagngert að endurnýjun á götum, gangstéttum og torgum í tengslum við endurreisn miðborgarinnar. Búið er að taka Hverfisgötu í gegn að mestu, Klapparstíg, Norðurstíg og Nýlendugötu ásamt nýju torgi við gömlu höfnina sem heitir Boðatorg. Þá hefur Pósthússtræti verið endurnýjað ásamt hluta Hafnarstrætis og gamla Steinbryggjan endurgerð í götumyndinni ásamt nýju torgi við Pósthússtræti og Tryggvagötu sem nefnist Borgartorg. Nýtt og glæsilegt torg, Hjartatorg, er einnig komið á milli Hverfisgötu og Laugavegs, á milli Klapparstígs og Smiðjustígs. Framkvæmdir standa yfir við endurnýjun Tryggvagötu frá Pósthússtræti að Geirsgötu en eftir þær mun hið þekkta mósaíkverk Gerðar Helgadóttir á Tollhúsinu njóta sín vel á skjólgóðu og sólríku torgi. Torg hafa einnig gengið í endurnýjun lífdaga í Þingholtunum en þar hafa Óðinstorg og Freyjutorg verið gerð myndarlega upp með það að markmiði að hlúa að fólki frekar en bifreiðum. Fyrirhuguð er mikil endurnýjun á svæðinu í kringum Hlemmtorg en þar í nágrenninu hafa risið hundruð nýrra íbúða, við Hverfisgötu, í Holtunum og einnig á Höfðatorgi sem er nú í síðasta uppbyggingaráfanganum. Mathöllin á Hlemmi sem opnuð var fyrir nokkrum árum í gömlu strætisvagnabiðstöðinni hefur notið mikilla vinsælda, sem varð til þess að mathallir hafa einnig verið opnaðar á Granda, Ártúnshöfða og Borgartúni. Í mathöllum eru reknir margir litlir veitingastaðir og verslanir með sameiginlegu setrými og aðstöðu fyrir gesti.

Grænt plan fyrir snjalla borg
Reykjavíkurborg markar stefnu í flestum málaflokkum til margra ára í senn. Græna planið sem kynnt var í loks árs 2020 er áætlun borgarinnar um efnahagslega endurreisn eftir heimsfaraldur kórónuveirunnar. Megináherslur Græna plansins ganga út á umhverfislega, fjárhagslega og félagslega sjálfbærni.
Við stjórn borgarinnar er lögð áhersla á velferðarmál, umhverfismál, gegnsæja stjórnsýslu, íbúalýðræði, atvinnuöryggi og trausta fjármálastjórnun. Markmiðið er ætíð að bæta þjónustu og þar með lífsgæði allra íbúa. Græna planið hefur það sem meginmarkmið að auka sjálfbærni borgarinnar á öllum sviðum. Græna planið er öflugt fjárfestingarplan sem miðar að því láta borgina vaxa inn á við og þróast í þágu loftslagsmála, loftgæða og lýðheilsu. Reykjavík er vænlegur kostur fyrir þá sem kjósa að búa í nútímalegri borg með háu þjónustustigi. Þjónusta við barnafjölskyldur er ein sú besta og ódýrasta sem fyrirfinnst í heiminum. Reykjavík stefnir nú að því að öll eins árs börn fái leikskólapláss samkvæmt stefnunni Brúum bilið sem miðar að því að leikskólinn geti tekið við börnum strax eftir fæðingarorlof. Þá hefur ný menntastefna Látum draumana rætast litið dagsins ljós en unnið er eftir henni í grunn- og leikskólum borgarinnar.

Útivist og grænar samgöngur
Íbúar Reykjavíkur njóta þess að búa í nálægð við náttúruna – hafið, fjöllin og fjölbreytileg útivistarsvæði í borgarlandinu. Skipulag borgarinnar miðar að því að hlúa að grænum útivistarsvæðum og auðvelda aðgengi íbúa og gesta að þeim. Unnið hefur verið að því að skipuleggja ný útivistarsvæði á svokölluðum Austurheiðum upp af Rauðavatni. Á þessum svæðum ásamt Heiðmörk er stunduð umtalsverð skógrækt. Þá er það stefna Reykjavíkurborgar að tryggja líffræðilega fjölbreytni eins og kostur er og endurheimta votlendi í landi borgarinnar þar sem það er mögulegt. Slík endurheimt hefur t.d. átt sér stað fyrir ofan byggðina í Úlfarsárdal.
Sérstakt stígakerfi fyrir hjólreiðar er í uppbyggingu í borginni og bætast fáeinir tugir kílómetra við það á hverju ári. Bætt aðstaða fyrir hjólreiðafólk hefur leitt til þess að margfalt fleiri hjóla nú en áður. Hjólaborgin Reykjavík er því óðum að verða að veruleika en á vormánuðum 2021 var lögð fram endurskoðuð hjólreiðaáætlun Reykjavíkur.
Reykvíkingar búa við hreinan sjó og er strandlengjan orðin að útivistar- og hjólreiðaparadís sem margir nýta árið um kring til heilsuræktar og samverustunda.
Ylströndin í Nauthólsvík hefur slegið í gegn og hefur fólki sem þar stundar sjóböð sér til ánægju og heilsubótar fjölgað ár frá ári. Aðstaðan þar hefur verið bætt talsvert og er rætt um að skapa aðstöðu til sjósunds á fleiri stöðum, m.a. í Gufunesi og Laugarnesi.
Elliðaárdalurinn sem hefur verið skilgreindur sem borgargarður og Heiðmörk eru afar vinsæl útivistarsvæði með miklum gróðri sem fólk nýtir allan ársins hring.

Sund og íþróttir
Ekki má gleyma sundlaugunum sem eru sannkallaðar heilsulindir. Á síðustu árum hefur verið bætt við fallegu pottasvæði við Vesturbæjarlaug. Ný útisundlaug var byggð við Sundhöll Reykjavíkur og önnur útisundlaug er síðan að bætast við sundstaði í borginni í Úlfarsárdal. Þessar nýjungar hafa leitt til mikillar fjölgunar sundgesta í laugunum.
Borgin styrkir starfsemi íþróttafélaga í borginni en hjá þeim fer fram mikilvægt starf fyrir börn og ungmenni. Þannig hafa allir gervigrasvellir til knattspyrnuiðkunar í borginni verið endurnýjaðir, byggt hefur verið nýtt fjölnota íþróttahús í S-Mjódd hjá ÍR auk nýs frjálsíþróttavallar. Í Úlfarsárdal er verið að byggja íþróttamannvirki fyrir Fram en þar verður stórt íþróttahús fyrir inniíþróttir, keppnisvöllur fyrir knattspyrnu ásamt áhorfendastúku og æfingavöllum. Þá er fyrirhugað að endurnýja búnað og lyftur á skíðasvæðunum sem rekin eru sameiginlega af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Mikil endurnýjun hefur orðið á skólalóðum í borginni bæði við leikskóla og grunnskóla en þar hefur verið lagt upp úr skemmtilegum útisvæðum með leiktækjum við allra hæfi og bættri aðstöðu fyrir reiðhjól.

Kraftmikið menningarlíf
Reykjavík býr yfir sérstæðu, kraftmiklu og fjölbreyttu menningarlífi. Árið 2000 var Reykjavík útnefnd menningarborg Evrópu. Tuttugu árum síðar stendur menningarlíf í borginni með miklum blóma. Árlegir menningarviðburðir sem borgin stendur fyrir eða styrkir með fjárframlögum vekja mikla athygli og draga að gesti frá öllum heimshornum. Má þar nefna Vetrarhátíð, Listahátíð, Hinsegin daga (Reykjavík Pride), Menningarnótt, alþjóðlegu kvikmyndahátíðina RIFF og tónlistarhátíðirnar Iceland Airwaves, Jazzhátíð, Blúshátíð og Myrka músíkdaga. Reykjavík var útnefnd bókmenntaborg UNESCO árið 2011. Lögð er áhersla á að efla frásagnar- og ritlist og halda á lofti rithöfundum og skáldum auk góðrar samvinnu við þá sem starfa að bókmenningu í borginni. Reykjavík er aðili að Icorn-samtökunum en þau sameina borgir sem veita landflótta rithöfundum skjól, sem sætt hafa hótunum og ofsóknum. Þrír rithöfundar hafa notið skjóls í Reykjavík.
Reykjavíkurborg veitir umtalsverðu fjármagni í styrki til menningarlífsins. Borgin styrkir Sinfóníuhljómsveit Íslands og er stærsti styrktaraðili Borgarleikhússins og Tjarnarbíós þar sem sjálfstæðir leikhópar starfa. Borgin rekur einnig mjög metnaðarfull söfn sem tugþúsundir sækja á hverju ári. Listasafn Reykjavíkur er rekið í Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum og Ásmundarsafni. Borgarsögusafn rekur hins vegar Árbæjarsafn, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Sjóminjasafnið og Landnámssýninguna í Aðalstræti. Borgarbókasafnið heldur úti sex Menningarhúsum í borginni og það sjöunda mun bætast við í Úlfarsárdal á næstunni. Fyrirhugað er að safn Nínu Tryggvadóttur opni á næstu árum í Hafnarhúsinu. Borgin styrkir enn fremur starfsemi Nýlistasafnsins og Kling og Bang í Marshall húsinu á Grandagarði sem HB Grandi gerði upp af miklum myndarskap. Þar rekur Ólafur Elíasson einnig stúdíó með breytilegri listsýningu. HB Grandi kom einnig upp útilistaverkinu Þúfunni eftir Ólöfu Nordal við mynni gömlu hafnarinnar. Verkið nýtur mikilla vinsælda og er forvitnilegt kennileiti við gömlu höfnina.
Reykjavíkurborg á Perluna í Öskjuhlíð og beitti sér fyrir því að þar yrði sett á stofn sýning um náttúru Íslands sem vakið hefur mikla athygli.
Borgin stendur einnig fyrir Músíktilraunum á vegum Hins hússins en hljómsveitir sem unnið hafa þá keppni hafa margar hverjar náð langt á alþjóðavettvangi, má nefna þar nefna t.d. hljómsveitirnar Of Monsters and Men, Vök og fleiri.

Ferðamannavæn borg
Reykjavík státar af fjölmörgu sem gerir hana að eftirsóknarverðum áfangastað fyrir erlenda ferðamenn. Listaverkið Friðarsúlan (Imagine Peace Tower) í Viðey sem Reykjavíkurborg setti upp 2007 í samstarfi við Yoko Ono, ekkju Johns Lennons, hefur vakið heimsathygli en fjölmargir leggja leið sína út í Viðey þegar kveikt er á listaverkinu 9. október ár hvert, á afmælisdegi Lennons. Nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa við gömlu höfnina hefur vakið athygli fyrir sérstæðan arkitektúr og glerhjúp sem hannaður var af Ólafi Elíassyni myndlistarmanni og hefur fengið virt arkitektaverðlaun. Húsið hefur reynst mikil lyftistöng fyrir tónlistarlíf í landinu en þar eiga Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska óperan aðsetur. Í Hörpu er fullkomin aðstaða fyrir ráðstefnur, fundi og ýmis konar viðburði og hefur aðsókn að húsinu á því sviði aukist jafnt og þétt. Nýtt fimm stjörnu Marriott hótel sem opnar senn í Austurhöfn er talið styrkja ráðstefnuhald í Hörpu til muna en húsið er nú þegar orðið miðstöð ráðstefnuhalds á Íslandi. Reykjavíkurborg og ríkið eiga Hörpu.

Atvinnulíf í sókn
Framsækið atvinnulíf sem einkennist af nýsköpun hefur vakið athygli á Reykjavík, s.s. á sviði skapandi greina, tónlistar, líftækni, lyfjaþróunar, tölvuleikjagerðar, matvælaframleiðslu og stoðtækjaþjónustu.
Yfirgnæfandi meirihluti Reykvíkinga, um 80%, starfar við ýmis konar þjónustu. Aðrir starfa við framleiðslustarfsemi eða 18% en fiskveiðar, fiskvinnsla og landbúnaður eru aðeins stunduð af 2% vinnuaflsins. Þjónustugeirinn hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum í tengslum við hraða uppbyggingu ferðaþjónustu í landinu. Unnið er því að móta nýja atvinnustefnu fyrir Reykjavíkurborg þar sem farið er yfir helstu sóknarfæri í uppbyggingu atvinnulífs. Nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi er þar í öndvegi. Á undanförnum árum hefur orðið til þekkingarþorp í Vatnsmýri á vegum Reykjavíkurborgar og Vísindagarða Háskóla Íslands. Öflug hátæknifyrirtæki hafa nú þegar komið sér fyrir í Vatnsmýri, m.a. Íslensk erfðagreining, Alvotech og CCP tölvuleikjafyrirtækið. Nú er verið að leggja lokahönd á Grósku en þar eru höfuðstöðvar CCP ásamt frumkvöðla- og nýsköpunarsetri. Fleiri fyrirtæki munu byggja upp starfsemi sína þar. Á áhrifasvæði Háskóla Íslands hafa einnig risið merkar og sérstæðar byggingar m.a. Veröld, stofnun Vigdísar Finnbogadóttur forseta og Hús íslenskra fræða við Suðurgötu sem enn er í smíðum. Þá hefur undirbúningshópur um Norðurslóðahús Ólafs Ragnars Grímssonar í Vatnsmýri hafið störf. Reykjavíkurborg stuðlar að fjölþættu og framsæknu atvinnulífi með fjárfestingu í atvinnuskapandi verkefnum, t.a.m. með því að styrkja skapandi greinar. Þannig hefur nú þegar orðið til kvikmyndaþorp á heimsmælikvarða í kringum byggingar gömlu Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi sem voru í talsverðri niðurníðslu. Þar er einnig hafin öflug uppbygging íbúðabyggðar við ströndina. Borgin styrkir enn fremur rekstur FabLab í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti en aðsókn í það hefur margfaldast síðan það var stofnsett.

Ljósm. Ragnar Th. Sigurðsson.

Græn og sjálfbær borg
Reykjavík hefur markað sér þá stefnu að skapa fallegt og heilnæmt umhverfi fyrir íbúana þar sem mannlíf og umhverfi er haft í fyrirrúmi. Borgin vill vera leiðandi í umhverfisvænum áherslum. Verkefnið Græn skref í starfsemi Reykjavíkurborgar hvetur starfsfólk til að flokka úrgang og ástunda grænan lífsstíl. Rafrænt greiðslufyrirkomulag hefur nánast eytt útprentuðum pappírsreikningum í starfsemi borgarinnar og vistvæn innkaup eru ástunduð í öllum rekstri. Reykjavíkurborg reynir eftir fremsta megni að sýna gott fordæmi með vistvænum rekstri. Þannig aka sorpbílar borgarinnar og fjölmörg önnur ökutæki á metangasi og borgin hefur tekið rafbíla í sína þjónustu. Sorphirða hefur tekið stórstígum framförum en endurvinnsla úrgangsefna hefur aukist á undanförnum árum og þykir sjálfsögð. Íbúar flokka nú pappírsefni og plast frá almennu sorpi í sérstakar tunnur eða gáma. Grenndarstöðvar fyrir flokkuð úrgangsefni eru á fjölmörgum stöðum og safna m.a. gleri og fatnaði. Með nýtilkominni gas- og jarðgerðarstöð hjá Sorpu sem nefnist GAJA verður hafin söfnun á lífrænum úrgangi frá heimilum. Sorpa hefur þegar samið um visthæfa notkun metangass sem verður til við vinnsluna í stöðinni en GAJA breytir lífrænum úrgangi í metangas og moltu. Þannig verður metangas notað til að brenna kaffibaunir og kynda vörubíla svo eitthvað sé nefnt.
Orkuveita Reykjavíkur sem er móðurfélag Veitna og Orku náttúrunnar hefur staðið fyrir verkefninu Carbfix við Hellisheiðarvirkjun. Verkefnið felst í því að koltvísýringi sem verður til við jarðhitavinnsluna er dælt niður í berg þar sem hann breytist í holufyllingar. Verkefnið hefur vakið mikla alþjóðlega athygli þar sem það er vísindaleg aðferð til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við Hellisheiðarvirkjun er einnig starfrækt fyrirtæki sem framleiðir þörunga með jarðvarma sem fellur til við virkjunina. Faxaflóahafnir, enn eitt fyrirtæki borgarinnar, vinna að því að koma upp raftengingum við gámaskip og skemmtiferðaskip sem brenna að öðrum kosti olíu í höfn.

Blómlegt mannlíf í hverfunum
Hverfi borgarinnar eru tíu talsins og hafa þau byggst upp í takt við aukna ásókn til búsetu í borginni. Í hverfunum er fjölþætt starfsemi og þjónusta við íbúa. Skólar og íþróttafélög setja mikinn svip á hverfalífið með hverfishátíðum, mótum og öðrum uppákomum. Íbúaráð starfa nú í öllum hverfum borgarinnar, fylgjast með þróun þeirra og hafa áhrif á verkefni sem borgin vinnur að í hverfunum. Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg staðið fyrir íbúalýðræðisverkefninu Hverfið mitt. Verkefnið er tvíþætt. Fyrst er kallað eftir hugmyndum frá íbúum í hverfunum. Síðan er farið yfir hugmyndirnar og þeim stillt upp til rafrænna kosninga. Mörg hundruð verkefni sem íbúar hafa komið með hugmyndir að hafa verið framkvæmd síðan verkefnið hófst 2012. Íbúar hafa tekið vel í þessa aðferð til að hafa áhrif á framkvæmdir í hverfunum og á þessu ári sendu íbúar inn metfjölda hugmynda eða 1.300. Önnur sveitarfélög hafa tekið upp aðferðir Reykjavíkur til íbúalýðræðis og verkefnið hefur vakið athygli víða fyrir utan landsteinana.
Í skipulagsmálum hefur verið unnið að viðauka á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030. Unnið er að hverfisskipulagi fyrir öll hverfi borgarinnar með víðtæku samráði við íbúa í hverfunum. Hverfisskipulag er nú þegar tilbúið fyrir Árbæ og nánast tilbúið fyrir Breiðholt. Það er í vinnslu fyrir önnur hverfi borgarinnar. Hverfisskipulagi er ætlað að styrkja innviði hverfanna með aukinni þjónustu en um leið gera allar breytingar sem íbúar vilja gera á eignum sínum auðveldari viðfangs.

Aukin rafræn þjónusta
Með aukinni rafrænni þjónustu hefur upplýsingaflæði borgaryfirvalda til íbúa aukist til muna. Að sama skapi hafa kröfur íbúa um gæði upplýsinga og rafræna þjónustu aukist. Það er stefna borgaryfirvalda að upplýsa borgarbúa eins vel og kostur er um þá þjónustu sem í boði er hverju sinni og um allar ákvarðanir er snúa að hag þeirra.
Aðal upplýsingaveita Reykjavíkurborgar er á vefnum reykjavik.is. Vefurinn miðar að því að fólk finni allt um þjónustu borgarinnar á einum stað og geti sótt um þjónustu í gegnum vefinn. Þar er einnig að finna fréttir af starfseminni, viðburðadagatal, mælaborð borgarbúa og opin fjármál borgarinnar. Allar helstu upplýsingar um þjónustu borgarinnar og stjórnsýslu eru einnig á ensku og möguleikar á þýðingum yfir á önnur tungumál. Allt vefefni er nú unnið samkvæmt nýjum hönnunarstaðli sem tekinn hefur verið í notkun fyrir Reykjavíkurborg. Vefurinn hefur verið vottaður fyrir gott aðgengi.
Reykjavíkurborg rekur einnig ferðamannavefinn Visit Reykjavík. Borgin heldur úti sambærilegum vef á íslensku sem nefnist borginokkar.is fyrir innlenda gesti. Höfuðborgarstofa sinnir einnig alþjóðlegri miðlun á samfélagsmiðlunum Facebook, Twitter og Instagram undir merkjum Visit Reykjavík.
Reykjavíkurborg stundar gagnvirka upplýsingamiðlun fyrir íbúa og gesti á samfélagsmiðlunum Facebook, Instagram og Twitter. Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar heldur úti samfélagsmiðlun á ensku og pólsku á Facebook síðunni Living in Reykjavík og pólsku síðunni. https://www.facebook.com/Reykjavik.Nasze.miasto
Unnið er að því að efla stafræna þjónustu borgarinnar til að einfalda umsóknarferli um þjónustu fyrir íbúa borgarinnar og spara þeim sporin. Á næstu árum verður lögð mikil áhersla á að hraða þessari stafrænu umbreytingu til að snjallvæða borgina enn frekar.
Árið 2015 var samþykkt aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum. Markmiðið var að stuðla að auknu jafnrétti. Árið 2019 hlaut Reykjavíkurborg jafnlaunavottun. Markmiðið er að enginn óútskýrður kynbundinn launamunur sé til staðar hjá borginni.
Reykjavíkurborg hóf nýlega styttingu vinnuvikunnar í 36 stundir samkvæmt kjarasamningum. Innleiðingin hófst 1. janúar 2021 fyrir þá sem vinna í dagvinnu og verður innleidd 1. maí hjá vaktavinnufólki.

Ljósm. Ragnar Th. Sigurðsson.

Erlent samstarf
Samstarf borga um allan heim hefur aukist mikið á undanförnum árum í takt við aukinn styrk þeirra og áskoranir sem steðja að. Reykjavík á aðild að hátt í 40 alþjóðlegum samtökum auk þess að taka þátt í fjölda annarra verkefna á alþjóðavettvangi.
Reykjavík hefur lengi átt í miklu samstarfi við aðrar höfuðborgir á Norðurlöndum. Í því samhengi er vert að nefna tengslanetið Nordic Safe Cities sem vinnur að öryggi íbúa í víðu samhengi og tekst á við hvers kyns öfgahyggju og ofbeldi.
Í Evrópusamstarfi á borgin aðild að sveitastjórnarvettvangi EFTA. Þá er borgin virk í samstarfi Eurocities sem er öflugt tengslanet 140 stærstu borga Evrópu auk 45 samstarfsborga í 39 löndum. Systra- og samstarfsborgir Reykjavíkur eru Winnipeg í Kanada, Seattle í Bandaríkjunum, Vilníus í Litháen, Moskva í Rússlandi og Wroclaw í Póllandi en sá samningur var gerður árið 2017.
Þá hefur Reykjavík átt samstarf við borgir á norðurslóðum eða svokallaðar Vetrarborgir. Nuuk á Grænlandi, Þórshöfn í Færeyjum og Reykjavík eiga sameiginlegan sjóð, Vestnorræna höfuðborgarsjóðinn, sem var stofnaður til að auka samskipti þessara borga.

Núverandi borgarstjórn
Borgarstjórnarkosningar fóru fram í vorið 2018. Þá voru í fyrsta sinn kosnir 23 borgarfulltrúar en höfðu áður verið 15 talsins. Kjörnir fulltrúar frá eftirfarandi flokkum náðu kjöri; Sjálf-stæðisflokknum (8), Miðflokknum (1), Flokki Fólksins (1), Sósíalistaflokknum (1), Viðreisn (2), Samfylkingu (7) og Pírötum (2). Eftir kosningar mynduðu Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Vinstri græn (1) nýjan meirihluta. Núverandi borgarstjóri er Dagur B. Eggertsson (Samfylking) og er þetta annað kjörtímabil hans sem borgarstjóri, forseti borgarstjórnar er Pawel Bartozsek (Viðreisn) og formaður borgarráðs er Þórdís Lóa Þórhallsdóttir (Viðreisn).

Starfsfólk, framtíðarsýn og frekari upplýsingar
Hjá Reykjavíkurborg starfa ríflega 10.000 starfsmenn í um 7.500 stöðugildum árið 2020.
Framtíðarsýn Reykjavíkurborgar er að skapa borgarsamfélag sem einkennist af heilnæmu umhverfi, jöfnum tækifærum og öflugu atvinnulífi sem gengur ekki á náttúruauðlindir.
Nánari upplýsingar um Reykjavíkurborg, stjórnkerfi hennar, stjórnsýslu og fjárhag er að finna á vefsvæðinu www.reykjavik.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd