Snemma á 20. öldinni hófst umræða um nauðsyn þess að gera saksókn og ákvörðun um hana sjálfstæða og óháða stjórnmálum og stjórnmálamönnum og var fyrsta lagafrumvarpið í þá veru lagt fram á þingi hér á landi árið 1934. Embætti ríkissaksóknara var hins vegar ekki sett á fót fyrr en með lögum frá 1961 og tók til starfa það ár. Eftir að Ísland fékk heimastjórn árið 1904 fór ráðherra Íslands með ákæruvaldið en frá árinu 1917 og fram að stofnun embættis ríkissaksóknara var yfirstjórn ákæruvaldsins í höndum dómsmálaráðherra og var því flokkspólitískur ráðherra æðsti handhafi ákæruvaldsins á því tímabili.
Ríkissaksóknari er lögum samkvæmt sjálfstæður í störfum sínum og tekur ekki við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum, samtökum eða hagsmunaaðilum um meðferð ákæruvalds. Frá stofnun embættis ríkissaksóknara hefur krafan um sjálfstæði ríkis-saksóknara verið áréttuð í lögum í samræmi við þær hugmyndir og kröfur sem Ísland er bundið af samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum og sáttmálum sem ætlað er að tryggja réttaröryggi og réttláta málsmeðferð.
Frá 1. janúar 2016 fara ríkissaksóknari, héraðssaksóknari og lögreglustjórar, að undan-skildum ríkislögreglustjóra, með ákæruvaldið í landinu. Ákæruvaldið er á tveimur stigum og er ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvalds. Handhafar ákæruvalds á lægra eru héraðssaksóknari og lögreglustjórar.
Hlutverk og verkefni
Hlutverk og verkefni ákæruvaldsins í samfélaginu almennt er að annast um og beita refsirétti ríkisins á grundvelli þeirra laga- og valdheimilda og með þeim mannafla sem lagður er til refsimála á hverjum tíma, allt í því skyni að gæta að og tryggja almanna- og einstaklingshagsmuni.
Um hlutverk, skipan og skyldur ríkissaksóknara og annarra ákærenda er fjallað í III. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Nánari umfjöllun um efnið er á vefsíðu ríkissaksóknara https://www.rikissaksoknari.is/um-akaeruvaldid/um-akaeruvaldid/ Þar er m.a. að finna siðareglur fyrir ákærendur á Íslandi.
Ríkissaksóknari gefur út almenn fyrirmæli um meðferð ákæruvalds og getur jafnframt gefið öðrum ákærendum fyrirmæli um einstök mál sem þeim er skylt að hlíta. Ríkissaksóknari endurskoðar ákvarðanir lögreglustjóra og héraðssaksóknara um að fella mál niður (þ.e. hætta rannsókn eða ákæra ekki) ef ákvörðun þar að lútandi er kærð af hálfu þess sem á hagsmuna að gæta í viðkomandi máli. Ríkissaksóknari getur einnig endurskoðað ákvarðanir lögreglustjóra eða héraðsaksóknara að eigin frumkvæði. Það felst í stöðu og hlutverki ríkissaksóknara að hafa eftirlit með störfum ákærenda og rannsóknum sakamála hjá lögreglu. Þá hefur ríkissaksóknari sérstakt eftirlit með framkvæmd hlustana lögreglu og svokölluðum sérstökum rannsóknaraðferðum lögreglu sem heimilt er að beita við tilteknar aðstæður og í samræmi við reglur ráðherra þar um.
Ríkissaksóknari hefur eftirlit með meðferð sakamála m.a. með tilliti til málshraða og samræmis/jafnræðis við afgreiðslu mála. Fylgst er með meðferð mála hjá ákæruvaldsembættunum á lægra stigi og niðurstöðum dómstóla í þeim málum sem þar eru rekin af hálfu ákæruvaldsins. Ríkissaksóknari gerir árlega embættisathugun hjá hverju og einu embætti en þau eru tíu talsins; embætti héraðssaksóknara og níu lögreglustjóraembætti.
Ríkissaksóknari tekur afstöðu til þess af hálfu ákæruvaldsins hvort rétt sé að una við niðurstöðu dóms frá héraðsdómstólunum í sakamálum eða áfrýja málinum með kröfu um sakfellingu og/eða þyngingu refsinga, en einnig til refsimildunar ef efni þykja til þess. Ríkissaksóknari annast um allt það sem varðar áfrýjun mála, tekur við áfrýjunaryfirlýsingum og beiðnum um áfrýjunarleyfi frá dómþolum sem óska eftir að áfrýja málum, gefur út áfrýjunarstefnur og sér um að þær verði birtar ákærðum. Einnig sjá starfsmenn ríkissaksóknara um að taka saman þau málsgögn sem lögð eru fyrir Landsrétt og Hæstarétt í svonefndu ágripi málsgagna. Ríkissaksóknari og saksóknarar við embætti hans annast málflutning og rekstur sakamála fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
Ríkissaksóknari heldur sakaskrá fyrir landið allt þar sem skráðar eru niðurstöður sakamála og birtast þær niðurstöður á sakavottorði hins skráða í tiltekinn tíma. Ríkissaksóknari veitir upplýsingar úr sakaskrá til opinberra aðila og einkaaðila.
Ríkissaksóknari sinnir réttarbeiðnum frá erlendum yfirvöldum og málum vegna kröfu um framsal/afhendingu erlendra og íslenskra ríkisborgara. Ríkissaksóknari annast öll alþjóðleg samskipti á sviði ákæruvalds fyrir hönd íslenskra yfirvalda.
Ríkissaksóknari heldur utan um og gefur út tölfræði ákæruvaldsins í ársskýrslum sínum sem finna má á vefsíðu embættisins https://www.rikissaksoknari.is/um-embaettid/utgefid-efni/arsskyrslur/
Námskeið og endurmenntun
Ríkissaksóknari heldur námskeið fyrir lögfræðinga sem koma til starfa hjá ákæruvaldinu til þess að búa þá undir starf sem ákærendur og málflytjendur/sækjendur fyrir hönd ákæruvaldsins. Ríkissaksóknari skipuleggur og heldur endurmenntunarnámskeið fyrir alla starfandi ákærendur í samræmi við þá kröfu sem embætti ríkissaksóknari gerir um að þeir sæki sér a.m.k. 30 kennslustundir á ári í endurmenntun sem ríkissaksóknari viðurkennir.
Mannauður
Við embætti ríkissaksóknara starfa tíu ákærendur, þ.e. ríkssaksóknara, vararíkissaksóknari og átta saksóknarar. Þá starfa við embættið fjórir starfsmenn á skrifstofu, þ.e. skrifstofustjóri, tveir almennir ritarar og ritari sakaskrár.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd