Rithöfundasamband Íslands

2022

Rithöfundasamband Íslands var stofnað árið 1974. Áður höfðu tvö rithöfundafélög starfað hér á landi um árabil en fyrstu samtök íslenskra rithöfunda voru stofnuð 1928 sem deild innan Bandalags íslenskra listamanna.

Starfsemin
Rithöfundasamband Íslands er stéttarfélag og rétthafasamtök rithöfunda og þýðenda, óháð því hvernig efni þeirra birtist almenningi. Rétt á félagsaðild eiga íslenskir rithöfundar og erlendir höfundar sem hafa fasta búsetu á Íslandi. Tilgangur Rithöfundasambands Íslands er að efla samtök íslenskra rithöfunda, gæta hagsmuna þeirra og réttar í samræmi við alþjóðavenjur, verja frelsi og heiður bókmennta og ritlistar og standa gegn hvers kyns ofsóknum á hendur rithöfundum og hindrunum í starfi þeirra. Sambandið fylgist með þróun laga, reglna og viðskiptahátta á sviði höfundaréttar en eitt meginhlutverk sambandsins er umsjón með höfundarrétti og tengdum réttindum. Stjórn sambandsins gerir samninga við útgefendur, leikhús, fjölmiðla, stofnanir og aðra aðila sem birta eða hafa afnot af verkum félagsmanna. Rithöfundasamband Íslands er aðili að Bandalagi íslenskra listamann-BÍL, Norræna rithöfunda- og þýðendaráðinu-NFOR, Evrópska rithöfundaráðinu- EWC, Alþjóða rithöfundaráðinu- IAF og Samtökum evrópskra þýðenda – CEATL. Í dag eru félagar í Rithöfundasambandinu ríflega 650 talsins, m.a. barna- og unglingabókahöfundar, fræðibókahöfundar, handritshöfundar, ljóðskáld og leikskáld, skáldsagna- og smásagnahöfundar, þýðendur og sjónvarpsþýðendur ásamt ævisagnahöfundum.

Aðsetur
Sambandið á og er með aðsetur í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, Reykjavík. Húsið lét Gunnar Gunnarsson skáld og rithöfundur reisa ásamt konu sinni Franziscu Gunnarsson. Í húsinu eru skrifstofur og móttökusalir á tveimur hæðum en á jarðhæð er listamannsíbúð sem er opin erlendum rithöfundum og þýðendum.

Stjórnendur
Núverandi formaður Rithöfundasambandsins er Karl Ágúst Úlfsson, varaformaður er Margrét Tryggvadóttir. Framkvæmdastjóri er Ragnheiður Tryggvadóttir en auk hennar starfar Tinna Ásgeirsdóttir verkefnastjóri á skrifstofu sambandsins.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd