Fyrirtækið RJR var stofnað árið 1946 af Ragnari Jóhannessyni en hét þá R. Jóhannesson og var fyrst og fremst í innflutningi á vörum einkum stáli og járnvörum frá gömlu Tékkóslóvakíu (Tékklandi). Nokkrir aðilar voru með honum í upphafi en hann endaði sem eini eigandinn og upp úr því spratt fyrirtæki sem nefndist Tékkneska Bifreiðaumboðið sem síðar varð Jöfur. RJR var alltaf til en þegar Ragnar veiktist kom sonur hans, Ragnar J. Ragnarsson flugmaður hjá Loftleiðum, inn í fyrirtækið til aðstoðar og fór aldrei til baka. Hann byggði meðal annars upp Jöfur sem var með umboð fyrir Skoda, Jeep, Peugeot og Alfa Romeo. Jöfur var síðar selt til hóps fjárfesta. Meðan á þeim rekstri stóð hélt Ragnar áfram að flytja inn stál fyrir ýmsa aðila þar til árið 1992 að hann tók til við að endurvekja RJR með það að markmiði að flytja inn og versla með stál. Á meðan var sonur hans, Eyþór Ragnarsson í námi í tæknifræði og þegar Ragnar þurfti á sjúkrahús í smávægilega aðgerð steig Eyþór inn til aðstoðar, ekki ósvipað og átti sér stað þegar faðir hans steig inn í fyrirtækið hjá afa hans á sínum tíma. Eyþór hafði ekki haft í hyggju að starfa hjá föður sínum en atvikin höguðu því þannig að Eyþór er enn starfandi hjá RJR og er eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins í dag.
Ennþá er RJR að versla með stál til iðnaðar og annarra nota hér á landi sem og erlendis. Meira að segja er enn verið að flytja inn stál frá ýmsum af þeim framleiðendum í Tékklandi sem afi Eyþórs verslaði við forðum tíð.
Starfsemin
Eyþór hóf að þreifa fyrir sér meðal framleiðenda á unnum stálvörum í Asíu og flutti þær til landsins. Það gekk með miklum ágætum lengi vel. Í kjölfar efnahagshrunsins varð hlé á ýmsum stórframkvæmdum svo nokkur lægð myndaðist í verslun með stál. Þá fór Eyþór að skima eftir
íþróttavörum í tenglsum við þau viðskiptasambönd sem hann hafði komið sér upp í Asíu. Það varð ofan á að íþróttavörurnar hófu að yfirskyggja stálinnflutninginn svo í dag er RJR orðinn leiðandi í sölu á íþróttavörum. Má þar nefna tæki til íþróttaiðkunar eins og hlaupabretti,
ketilbjöllur, lyftingastangir og lóð ásamt skóm, fatnaði og öllu sem tilheyrir hvers kyns íþróttaiðkun.
RJR þjónustar m.a. líkamsræktarstöðvar, íþróttafélög, einstaklinga og félagasamtök margs konar. Umfangið var orðið gríðarlegt svo á einhverjum tímapunkti þótti skynsamlegt að skipta fyrirtækinu upp í tvo hluta. Annars vegar þann hluta sem verslar með íþróttavörur (Sportvörur) og hins vegar það sem lýtur að stálinu (RJR-stál). Eyþór fékk Hilmar Magnússon góðan félaga sinn til margra ára til að sjá um stálvörurnar en sjálfur einbeitir hann sér að íþróttavörunum. Kveikjan að öllu saman var þegar Eyþór sá tækifæri í að koma með ketilbjöllur á markaðinn á hagstæðu verði þar sem hann, vegna reynslu sinnar af verslun við stálframleiðendur, vissi hvert verðgildi einnar ketilbjöllu var.
Hann fór strax út í smásölu á íþróttavörunum og verslunin er í dag til húsa að Dalvegi 32a en þar er hátt til lofts og vítt til veggja og vöruúrvalið með afbrigðum gott.
Fyrirtækið í dag
RJR hefur einnig með höndum heildsölu til annarra verslana, fyrirtækja, sveitarfélaga og félagasamtaka eins og fram hefur komið. Ýmsar vörur eru merktar RJR sem margir halda að standi fyrir alþjóðlegt vörumerki en eru einungis upphafsstafirnir í nafni Ragnars J. Ragnarssonar.
RJR leggur áherslu á vandaðar vörur framleiddar undir þekktum og góðum vörumerkjum og þjónustan í versluninni er afar góð og persónuleg.
15 manns starfa hjá fyrirtækinu í dag sem telst meðalstórt. Veltan er í kringum einn milljarð samanlagt hjá báðum hlutum RJR. Eyþór Ragnarsson hefur þá sannfæringu að til að ná árangri í fyrirtækjarekstri sé nauðsynlegt að hafa kjark til að gera breytingar, ekki bíða of lengi með að koma sér út úr lélegum viðskiptum og síðan þarf maður að hafa einstaklega gaman af þessu öllu saman.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd