Rolf Johansen & Company ehf. (RJC) var stofnað af Rolf Johansen (f.1933 – d.2007) árið 1957. Rolf var aðeins 24 ára þegar hann stofnaði fyrirtækið í kringum Bridgestone umboðið. Áður hafði hann reynt fyrir sér með eitt og annað en reksturinn tók við sér þegar sala hófst á Bridgestone hjólbörðum. Fyrst var RJC til húsa að Laugavegi 178 en árið 1987 flutti fyrirtækið í núverandi húsnæði að Skútuvogi 10a.
Eigendur og stjórn
Stjórnarformaður og aðaleigandi RJC er Kristín Á. Johansen, ekkja Rolfs, með 70% eignarhlut. Framkvæmdastjóri og minnihlutaeigandi með 30% eignarhlut er Ásgeir Johansen sonur þeirra.
Vörur og þjónusta
Fyrstu árin verslaði fyrirtækið nánast eingöngu með Bridgestone dekk. Síðar hófst innflutningur á annars konar vörum, t.a.m. snyrtivörum frá Lancome, L‘Oreal og Vichy. Félagið var einnig með öflugan innflutning á ýmsum matvörum. Má þar m.a. nefna Oreo kex, Ritz Bits, Planters, El Marino kaffi, Oscar krafta, en vörumerkin voru talsvert fleiri. RJC hóf snemma innflutning á tóbaksvörum frá R.J. Reynolds Tobacco og Nobel Cigars. Þekktar tegundir eru m.a. Winston, Camel, Salem og Gold Coast sígarettur sem og Bagatello, Cigill, Fauna, Café Creme og London Docks vindlar. Síðar bættust við fleiri birgjar og vörutegundir eins og Davidoff, Cohiba, Montecristo, Prince Albert, Half&Half, Sweet Dublin, Zippo og fleiri. Yfir 150 vörutegundir eru í vöruflokknum tóbak og tengdar vörur. RJC þjónustar alla anga markaðarins, s.s. matvælaverslanir, bensínstöðvar, söluturna, hótel- og veitingastaði, fríhafnir, flugfélög og skipaverslanir.
Kaflaskil
Árið 1999 voru matvöru- og snyrtivörudeildirnar seldar og ákveðið var að einblína á áfengis- og tóbaksvörur. Í vöruflokknum Áfengi og glös eru yfir 500 vörutegundir. Árið 2012 hóf RJC að framleiða eigin drykkjarvörur. Í dag selur fyrirtækið Klaka, kolsýrt vatn, og Leppin íþróttadrykki auk þess að flytja inn og selja þó nokkuð af óáfengum drykkjarvörum. Á undanförnum árum hefur RJC hafið innflutning á ýmis konar dagvöru.
Mannauður
Samkeppni er umtalsverð á markaðnum en RJC og leggur félagið áherslu á að veita góða þjónustu til sinna viðskiptavina. Lagerhaldi og dreifingu er úthýst og er flest starfsfólk því að sinna sölu- og markaðsstarfsemi. Þegar mest var unnu 40 manns hjá RJC en starfsfólki fækkaði eftir breyttar áherslur. Í dag starfa 15 manns hjá fyrirtækinu auk verktaka.
Velta
Velta hefur aukist hóflega jafnt og þétt ár frá ári en stóð þó í stað árið 2019 frá fyrra ári.
Aðild
RJC hefur verið aðili að Félagi atvinnurekenda, sem áður hét Félag íslenskra stórkaupmanna (FÍS) alla tíð. RJC er einnig aðili að Viðskiptaráði Íslands. Fyirtækið hefur verið í hópi framúrskarandi fyrirtækja bæði hjá Creditinfo og VR.
COVID-19
Heimsfaraldurinn kallaði ekki á sérstakar ráðstafanir hjá RJC en fólki var þó gert kleift að stunda sín störf að heiman. Á meðan COVID-19 bylgjur gengu yfir var starfshópnum skipt í tvennt til að minnka líkur á smiti og til að forða félaginu frá því að missa mögulega allt starfsfólk í sóttkví á sama tíma. Ekki þurfti að grípa til uppsagna né að nýta hlutabótaleiðina.
Auglýsingar
RJC hefur undanfarna tvo áratugi verslað með vörur sem flestar má ekki auglýsa. Á næstunni má ætla að auglýsingar á vörum félagsins verði meira áberandi þar sem talsverð aukning hefur verið í vörutegundum vara sem má auglýsa.
Samfélagsmál
RJC hefur alla tíð lagt talsvert af mörkum til góðgerðarmála og einnig stutt ýmis konar félagasamtök með fjárstyrkjum. Í lok hvers árs er ákveðið hvaða félög eða samtök skuli hljóta stuðning og leggur félagið áherslu á að gera það án sérstakra opinberra tilkynninga.
Markmið
Meginmarkmið RJC er að verða fyrsti valkostur sem samstarfsaðili, hvort sem er meðal viðskiptavina, birgja eða starfsmanna. Stjórnendur félagsins telja að slíkum markmiðum megi ná með því að bjóða upp á gæðavörur og þjónustu á sanngjörnum verðum, bjóða upp á heilbrigt og vandað starfsumhverfi og með því að halda á lofti ákveðnum lífsgildum eins og fagmennsku, áreiðanleika og tryggð. Þau gildi voru sett fram af stofnenda félagsins og hefur m.a. leitt til þess að RJC hefur átt í áratugalöngum vinnusamböndum við sína samstarfsaðila. Einnig hefur þessi stefna leitt af sér mjög lága starfsmannaveltu.
Framtíðarsýn
Framtíðarsýnin er að auka áherslu á eigin framleiðslu alls konar en þó fyrst og fremst á drykkjavöru næstu árin.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd