RS Import er umboðs- og dreifingaraðli Garmin á Íslandi og rekur Garminbúðina í Ögurhvarfi 2, Kópavogi. Garminbúðin er í grunnin eins og nafnið gefur til kynna, sölu- og þjónustuaðili fyrir Garmin vörur ásamt snjóflóðaöryggisvörum fyrir snjófarendur frá ARVA, RAM festingakerfum fyrir GPS, farsíma, tölvur og annað, ferðarafhlöður og sólarspeglar frá Powertraveller ásamt ýmsu öðru.
Garmin
Garmin var stofnað af Gary Burrel og Min H Kao árið 1989 (Gary og Min – Garmin) því þeir sáu tækifæri að búa til vörur sem byggja á GPS tækninni fyrir almenning, báðir voru þeir verkfræðingar og höfðu byggt upp feril sinn að mestu hjá King Radio fram að því. Garmin vakti strax athygli fyrir tækin sín og óx hratt í heimabæ þeirra, Olathe í Kansas, USA, þar sem þeir eru enn með höfuðstöðvar. Garmin byrjaði á tækjum fyrir sjómenn og flugmenn ásamt því að hægt var að nota þau í útivist. Seinna þróaðist þetta í sér deildir og í dag er Garmin í grunninn skipt í bátavörur, flugvélavörur, bílavörur, íþróttavörur og útivistarvörur. Hér á landi eru útivistar, íþrótta og bílavörurnar fyrirferðamestar, svo koma bátavörurnar og flugvélavörurnar reka lestina.
Sagan
Ríkarður Sigmundsson, stofnandi RS Import, kynntist fyrstu Garmin tækjunum í gegnum föður sinn í sameiginlegum jeppaferðum, og svo enn betur þegar Ríkarður byrjaði að vinna hjá R. Sigmundssyni ehf. árið 1994, fjölskyldufyrirtæki föður hans og systkina hans. Afi hans og nafni, Ríkarður Sigmundsson eldri, stofnaði R. Sigmundsson 1955 og byggði það á grunni frá 1923 er Guðmundur Sigmundsson, bróðir Ríkarðs eldri, byrjaði viðskipti með innflutning á rafmagns og siglingatækjum. Árið 1994 var R. Sigmundsson búið að vera með umboð fyrir Garmin í þrjú ár og um áramótin 94/95 var slökkt á Loran staðsetningarkerfinu hér á landi, sem var eina staðsetningarkerfið sem sjómenn og almenningur hafði aðgang að, og þá sprakk út GPS áhugi hjá sjómönnum og útivistarfólki, og ekki síst hjá jeppa- og vélsleðafólki ásamt björgunarsveitum. Síðan þá hefur verið stöðugur vöxtur í sölu á GPS tækjum frá Garmin eins og allstaðar annarsstaðar í heiminum. Árið 1994 kynnti Garmin handtækið „GPS 45“ sem var í áður óþekktri smæð og sáu skotveiðimenn og aðrir fjallafarar sér leik á borði að þarna var komið öryggistæki sem hægt var að bera á sér og rata eftir í öllum veðrum. Útivistaráhugi Ríkarðs small þarna saman með vörunni og næstu 14 árin byggði hann upp Garmin vörumerkið sem vinsælasta GPS tækið á Íslandi og viðskiptahópurinn breikkaði með auknu vöruúrvali frá Garmin. Árið 2008 markaði tímamót er Garmin Europe ákvað að stofna útibú á Íslandi og réð Ríkarð til þess að stofna það og reka. Garmin Europe, útibú á Íslandi, var fundinn staður í Ögurhvarfi 2, Kópavogi, í janúar 2008 og svo kom bankahrunið um haustið. Það var því um vorið 2009 að Garmin tjáði Ríkarði að þeir vildu loka skrifstofunni og að Ríkarður héldi sölu í verslanir áfram með skrifstofu heima hjá sér. Þetta var ómögulegt að mati Ríkarðs og eftir stutta umhugsun bauðst hann til að kaupa skrifstofuna af Garmin og fá umboðið í staðinn. Var þetta samþykkt og 1. júlí 2009 tók RS Import við Garmin umboðinu á Íslandi, en RS Import er í eigu Ríkarðs og Írisar Hafsteinsdóttur eiginkonu hans. RS Import hefur vaxið úr fjögura manna fyrirtæki í tíu manna fyrirtæki á þessu tímabili, fyrst og fremst vegna Garmin en einnig vegna annara vörumerkja.
„Mikil þekking á vörum okkar og ekki síður mikil þekking á væntingum viðskiptavina er einn stærsti þáttur þess að Garmin hefur orðið jafn vinsælt og raun ber vitni á Íslandi ásamt framúrskarandi þjónustu á vörunum, bæði innan og utan ábyrgðartíma” segir Ríkarður Sigmundsson framkvæmdastjóri og stofnandi RS Import.
Starfsemin
RS Import er heildsala og rekur einnig smásöluverslunina Garminbúðina með vörur sínar í Ögurhvarfi 2, Kópavogi. Við erum stollt af háu þjónustustigi og þeim umsögnum sem viðskiptavinir okkar hafa gefið okkur. Hár starfsaldur starfsmanna á stóran þátt í velgengni okkar og hafa starfsmenn mikinn áhuga á vörunum sem og samskiptum við viðskiptavini okkar til að finna lausnir sem þeim hentar. Eigendur og stofnendur eru hjónin Ríkarður Sigmundsson og Íris Hafsteinsdóttir og taka þau bæði virkan þátt í rekstrinum.
Mannauður
Starfsmenn RS Import í dag eru Ríkarður Sigmundsson framkvæmdastjóri, Ólafur D. Ragnarsson sölustjóri, Finnur Þór Þráinsson, Sæþór Steingrímssson, Jóhann Mar Ólafsson, Aron Ingi Jóhannesson, Steinar Magnússon og sumarstarfsmaðurinn Kristján Uni Jensson sjá um almenna sölu og þjónustu, bæði í smásölu og heildsölu. Íris Hafsteinsdóttir er fjármálastjóri og Linda S. Ríkarðsdóttir, föðursystir Ríkarðs, sér um bókhald.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd