Hverfisteypufyrirtækið Sæplast Iceland ehf. á Dalvík var stofnað árið 1984 og hefur síðan þá orðið eitt af þekktustu útflutningsfyrirtækjum Íslands. Sæplast er leiðandi á heimsvísu í framleiðslu á einangruðum og gegnheilum kerum auk þess að framleiða byggingatengdar vörur fyrir innanlandsmarkað. Sjávarútvegur hefur alla tíð verið stærsti markaður keraframleiðslu Sæplasts, bæði hérlendis og erlendis en notkun keranna í kjötvinnslu og annarri matvælavinnslu hefur sífellt farið vaxandi. Um 70% af veltu Sæplasts byggjast á sölu á erlenda markaði og hefur fyrirtækið selt framleiðslu sína til viðskiptavina í yfir 60 löndum í öllum heimsálfum.
Framkvæmdastjóri Sæplast Iceland ehf. er Daði Valdimarsson.
Verksmiðjur í þremur löndum
Í verksmiðju Sæplasts á Dalvík eru þrír hverfisteypuofnar, þar af einn sem alfarið er knúinn raforku og er sá eini sinnar tegundar í heiminum. Sæplast rekur einnig verksmiðjur á Spáni og í Kanada og er meirihlutaeigandi að keraleigufyrirtækinu iTUB sem er ört stækkandi og sérhæfir sig í leigu á kerum til fyrirtækja í sjávarútvegi, fyrst og fremst á Íslandi og í Noregi.
Starfsmenn í verksmiðjunni á Dalvík eru 65-70 að jafnaði en auk beinna starfa við framleiðslu eru starfsmenn söludeildar á Dalvík, viðhaldsteymi, starfsmenn í mótasmíði, þróunardeild og önnur stoðþjónusta. Sölu- og markaðsstarf Sæplasts byggist einnig upp á erlendum söluskrifstofum og umboðsmönnum og teygir sölukerfi fyrirtækisins sig um allan heim.
Ker og byggingavörur
Sæplast hefur alla tíð lagt mikla áherslu á vöruþróun, sterkar og endingargóðar umbúðir sem mæti kröfum viðskiptavina um notkun og öryggi. Ker Sæplasts eru framleidd í mörgum stærðum, allt frá 70 lítrum að stærð upp í 1000 lítra ker. Útfærslurnar eru fjölbreyttar til að mæta mismunandi áherslum og þörfum viðskiptavina. Kerin eru framleidd í tveimur megin gerðum, þ.e. PUR ker með polyurethan einangrun og PE ker sem eru framleidd úr 100% polyethylene efni sem er algengasta plastefni í heiminum í dag. Þau síðarnefndu eru að fullu endurvinnanleg og voru fyrst framleidd hjá Sæplasti um síðustu aldamót. Í árslok 2020 framleiddi verksmiðjan á Dalvík í fyrsta skipti nýtt PE ker þar sem að hluta var notað endurvinnsluefni úr gömlu PE keri frá Sæplasti sem orðið var gamalt og úr sér gengið. Með þessum áfanga steig fyrirtækið stórt skref í áherslu sinni í umhverfismálum og endurnýtingu framleiðsluvara sinna. Markmiðið er að í framtíðinni verði PE ker Sæplasts með þessum hætti endurunnin og nýtt í framleiðslu á nýjum kerum. Sem leiðandi fyrirtæki í plastiðnaði leggur Sæplast mikla áherslu á sjálfbærni og umhverfismál. Liður í því er þátttaka fyrirtækisins í alþjóðlega verkefninu „Operation Clean Sweep“ sem miðar að því að koma í veg fyrir plastmengun í nærumhverfinu frá fyrirtækjum í plastiðnaði. Þá hefur Sæplast frá upphafi lagt ríka áherslu á öryggismál, bæði öryggi þeirra sem vinna með framleiðsluvörur fyrirtækisins sem og öryggi starfsmanna í verksmiðjum fyrirtækisins. Skýrt markmið er að Sæplast sé slysalaus vinnustaður.
Hverfisteyptar byggingavörur Sæplasts eru fyrst og fremst seldar á innanlandsmarkaði. Þar er að stærstum hluta um að ræða rotþrær og tengdar vörur, brunna, vatnstanka, skiljur og fleira. Allar staðlaðar gerðir byggingavara Sæplasts eru seldar í helstu lagnavöruverslunum landsins.
Stöðugur vöxtur
Vöxtur Sæplast á undanförnum árum og áratugum hefur fyrst og fremst byggst á sífellt stækkandi mörkuðum, auknu vöruframboði og fjölbreyttari notkun framleiðsluvara fyrirtækisins í matvælaiðnaði. Leiðarljós í framleiðslu og þjónustu við viðskiptavini er að tryggja að umbúðirnar varðveiti sem best gæði og ferskleika þeirra hráefna og afurða sem þau eru notuð til flutnings á.
Fyrirtækið hefur einnig vaxið á undangengnum árum með kaupum á fyrirtækjum í plastiðnaði og sameiningum. Eignarhald Sæplasts breyttist árið 2007 þegar það varð hluti Promens samstæðunnar en árið 2015 varð það hluti RPC-Group, stærsta plastvöruframleiðanda í Evrópu. Sú samstæða sameinaðist árið 2019 bandaríska fyrirtækinu Berry Global. Verksmiðjur Sæplasts eru því í dag meðal 300 verksmiðja Berry út um allan heim.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd