Safnahús Vestmannaeyja

2022

Safnahús Vestmannaeyja var tekið í notkun 1977. Safnahúsið stendur við Ráðhúströð og hýsir bókasafn, héraðsskjalasafn, listasafn, ljósmyndasafn og byggðasafnið Sagnheima, auk sérstaks sýningarrýmis. Staða fjölmenningarfulltrúa er einnig hluti af starfsemi hússins.
Forstöðumaður Safnahúss er Kári Bjarnason.

Söfnin
Bókasafn Vestmannaeyja var stofnað 1862 og var í byrjun nefnt Lestrarfélag Vestmannaeyja. Aðalhvatamenn að stofnun safnsins voru Bjarni E. Magnússon sýslumaður, séra Brynjólfur Jónsson á Ofanleiti og J.P.T. Bryde kaupmaður. Bókasafnið var í fyrstu staðsett í Landlyst en húsnæðisekla háði safninu allt þar til safnið komst í núverandi húsnæði.

Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja var stofnað 1980. Héraðsskjalasafnið geymir opinber skjöl, önnur en þau sem fara eiga í Þjóðskjalasafn, svo sem skjöl Vestmannaeyjabæjar og Landakirkju en einnig hin ýmsu einkaskjöl og skjöl félaga og félagasamtaka. Héraðsskjalavörður er Hrefna Valdís Guðmundsdóttir.

Listasafn Vestmannaeyja hefur að geyma tæplega eitt þúsund listaverk sem flest tengjast Vestmannaeyjum á einn eða annan hátt. Í eigu safnsins eru nokkur verk eftir eyjafólk á borð við Júlíönu Sveinsdóttur, Engilbert Gíslason, Ragnar Engilbertsson, Guðna Hermansen og Kristin Ástgeirsson en auk þess er á safninu að finna stærsta safn verka Jóhannesar S. Kjarval, utan Kjarvalsstaða, samtals 37 málverk.

Ljósmyndasafn Vestmannaeyja hefur að geyma meira en þrjár milljónir ljósmynda frá hinum ýmsu tímum sem að langmestu leyti tengjast Eyjum. Má þar nefna myndir eftir Kjartan Guðmundsson (1885-1950), Sigurgeir Jónasson (1934-) og Óskar Björgvinsson (1942-2002).

Byggðasafn Vestmannaeyja var stofnað 1932. Frumkvöðlar þess voru Þorsteinn Þ. Víglundsson, Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum og Árni Árnason símritari. 1978 flutti Byggðasafnið á 2. hæð Safnahúss og hefur starfað þar síðan. Miklar breytingar voru gerðar á safninu og uppsetningu sýninga veturinn 2010-2011 og sumarið 2011 opnaði safnið í nýrri mynd og undir nýju nafni sem Sagnheimar, byggðasafn. Safnstjóri er Sigurhanna Friðþórsdóttir.

Landlyst og Skanssvæðið tilheyra Sagnheimum, byggðasafni. Landlyst er eitt elsta hús í Vestmannaeyjum, byggt 1848. Húsið stóð lengst af við Strandveg 43b en 1992 var það friðlýst og flutt á Skanssvæðið þar sem það stendur nú í sinni upphaflegu mynd og hýsir læknaminjasafn. Fyrsta fæðingarheimili á Íslandi var rekið í húsinu 1848-1850.

Náttúrugripasafn Vestmannaeyja var stofnað 1964. Það hefur nú sameinast Sagnheimum, byggðasafni og unnið er að opnun á sýningu muna úr eigu safnsins í húsnæði Sea Life við Ægisgötu á vordögum 2022.

Fjölmenningarfulltrúi Vestmannaeyja sér um stefnumótun, upplýsingagjöf og túlkun fyrir stofnanir og íbúa bæjarins. Fjölmenningarfulltrúi er Klaudia Beata Wanecka.
Einarsstofa, í anddyri Safnahússins, er tileinkuð Einari Sigurðssyni frá Heiði (1906-1977).
Þar eru reglulega haldnar myndlistarsýningar auk fyrirlestra og viðburða af ýmsu tagi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd