SagaNatura ehf.

2022

SagaNatura er líftæknifyrirtæki sem varð til árið 2018 við samruna KeyNatura (stofnað 2014) og SagaMedica (stofnað 2000). Framkvæmdastjóri SagaNatura er Dr. Lilja Kjalarsdóttir. Fyrirtækið þróar og selur hráefni og fæðubótarefni með uppruna úr íslenskri náttúru. Fyrirtækið leggur mikið upp úr rannsóknum á heilsuáhrifum varanna og hefur framkvæmt klínískar rannsóknir til þess að gæta þess að einungis vara í hæsta gæðaflokki sé sett á markað. Markmiðið með þessum rannsóknum er einnig að auka traust og trúverðugleika neytenda á vörunum.

Upphafið
Stofnun SagaMedica á sér rætur í rannsóknarstarfi sem Dr. Sigmundur Guðbjarnason, lífefnafræðingur og fyrrum rektor Háskóla Íslands, hóf árið 1992. Tveimur árum síðar gekk Steinþór Sigurðsson, einnig lífefnafræðingur, til liðs við Sigmund en þeir hafa unnið ötullega að rannsóknum á íslenskum lækningajurtum. Með rannsóknunum hefur tekist að sýna fram á vísindalegar ástæður fyrir miklum áhuga á nýtingu vissra jurtategunda í gegnum aldirnar. Bændasamtökin lögðu fé í fyrirtækið í upphafi og auk Bændasamtakanna, Sigmundar og Steinþórs voru Þráinn Þorvaldsson og fleiri stofnendur. Meðal mikilvægustu vara SagaMedica voru SagaPro, sem ætlað er til að draga úr einkennum ofvirkrar þvagblöðru og Voxis hálsbrjóstsykurinn, en báðar vörur innihalda virk efni úr íslenskri ætihvönn.

Starfsemin
KeyNatura var stofnað til þróunar á ræktunarkerfum fyrir örþörunga. Þau Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir, Sigurbjörn Einarsson og Halla Jónsdóttir stofnuðu félagið árið 2014 og fengu í upphafi til sín matvælafræðingana Tryggva E. Mathiesen og Pál Arnar Hauksson til tækni- og vöruþróunar undir stjórn Dr. Sjafnar Sigurgísladóttir framkvæmdastjóra. Árið 2016 var uppsetning á tilraunaverksmiðju fjármögnuð af fjárfestingasjóðnum Eyri Sprotum og var verksmiðja sett upp sem byggði á hönnun tækjabúnaðar sem var þróaður af KeyNatura teyminu. Tækjabúnaðurinn byggist á þeirri tækni að rækta örþörunga í tönkum þar sem ljósgjafinn er samsettur úr mörgum flekum sem eru á kafi í ræktunarvatninu sem örþörungarnir eru ræktaðir í, hræringinn er síðan framkvæmd með því að dæla lofti inn að neðan og loftbólur sjá um að hræra í ræktinni. Örþörungarnir sem framleiddir eru í þessari tankaræktunartækni framleiða öflugt andoxunarefni sem heitir astaxanthin. Árið 2017 var þróuð fæðubótarefnalína undir nafni KeyNatura með margvíslegum vörum sem innihéldu astaxanthin og var sú lína sett á markað á Íslandi.

Sameining og stjórn
Árið 2018, sama ár og SagaMedica og KeyNatura voru sameinuð var Dr. Lilja Kjalarsdóttir ráðin sem aðstoðarframkvæmdastjóri. Árið 2020 tók Lilja við sem framkvæmdastjóri yfir sameinuðu félagi sem fékk nafnið SagaNatura. Með sameiningunni varð vöruúrval fyrirtækisins breikkað og lykilhráefni sameinaðs félags voru bæði astaxanthin og villt íslensk ætihvönn.
Styrkur
Árið 2019 hlaut SagaNatura 200 milljóna króna styrk úr Horizon 2020 rannsóknaráætlun Evrópusambandsins, en styrknum var ætlað að styðja við verkefni félagsins sem fólst í því að sanna virkni SagaPro gegn einkennum ofvirkrar blöðru. Einnig nýttist styrkurinn til þess að staðla magn virka innihaldsefnisins, sem og að hefja ræktun og kynbætur á hvönn með því markmiði að auka magn þessa virka efnis sem finnst í hvönninni. Tilgangur verkefnisins var að hjálpa þeim sem kljást við ofvirka blöðru að ráða bót á vanda sínum og auka lífsgæði sín með náttúrulegri lausn án aukaverkana.

Einkaleyfi
SagaNatura fékk einkaleyfi á eigin tækni til örþörungaræktunar árið 2019 og það sama ár stækkaði þörungaframleiðslan úr 50.000 lítrum upp í 90.000 lítra og jók þar með afkastagetu fyrirtækisins um næstum helming.

Vöruþróun
SagaNatura þróar með stolti hágæðavörur úr lykilhráefnum sem sótt eru í íslenska náttúru. Þær jurtir og þörungar sem fyrirtækið hefur rannsakað og unnið með hafa mikla sögulega þýðingu fyrir íslensku þjóðina, enda hafa lækningajurtir sem þessar skipað stóran sess í samfélaginu frá landnámstíð.

Sérstaða
Forfeður okkar lögðu grunnin að nýtingu einstakra jurta úr umhverfinu, sem nýst hefur þeim kynslóðum sem á eftir hafa komið um aldarbil, enda hafa jurtir þessar margvíslega eiginleika sem stuðla að bættri heilsu. Uppruni okkar frá Íslandi og mikilvægar sögur sem miðluðust kynslóða á milli varpa ljósi á áframhaldandi mikilvægi sögu náttúrunnar. Hreinleiki og jákvæð ímynd íslenskrar náttúru skiptir miklu máli fyrir SagaNatura, því sérstaða hráefnis okkar er einstök í alþjóðlegu samhengi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd