SAM-félagið ehf.

2022

SAMfélagið er eitt elsta afþreyingarfyrirtæki landsins og hefur áratugum saman verið leiðandi á þeim markaði. Fyrirtækinu er skipt í tvær megindeildir; SAMbíóin, sem sér um rekstur fimm kvikmyndahúsa, og SAMfilm sem sér um dreifingu á afþreyingarefni.

SAMbíóin
SAMbíóin voru stofnuð í Reykjavík árið 1982, en upphaf fyrirtækisins má rekja allt aftur til ársins 1937, þegar ungur athafnamaður, Eyjólfur Ásberg, stofnaði kvikmyndahús í Keflavík. Í dag reka SAMbíóin fimm kvikmyndahús á Íslandi; þrjú í Reykjavík, það fjórða á Akureyri og það fimmta í Keflavík. En að auki eiga SAMbíóin í miklu og góðu samstarfi við fjölda annarra kvikmyndahúsa víðsvegar um landið. Þegar SAMbíóin opnuðu kvikmyndahúsið í Álfabakka urðu straumhvörf í íslenskri bíómenningu, þar sem kvikmyndaáhugafólki bauðst loksins að njóta splunkunýrra kvikmynda á hvíta tjaldinu, en áður hafði sjaldan verið boðið upp á nýrri en tveggja ára gamlar myndir í kvikmyndahúsum. Það má því með sanni segja að SAMbíóin hafi gegnt lykilhlutverki í þróun þeirrar ríku og miklu bíómenningar sem ríkt hefur á Íslandi í gegnum árin. Hér er um sannkallað fjölskyldufyrirtæki að ræða, en eigendur og stjórnendur þess eru Árni Samúelsson, Guðný Ásberg Björnsdóttir, Björn Árnason, Alfreð Ásberg Árnason og Elísabet Ásberg Árnadóttir.

Frumkvöðlar á íslenskum bíómarkaði
SAMbíóin hafa frá upphafi verið leiðandi hvað varðar framboð, tækni og nýjungar á bíómarkaðnum á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Við opnun kvikmyndahússins í Álfabakka (sem þá hét Bíóhöllin) var leitast við að innleiða nýjustu og bestu tækni sem völ var á, og þeirri hefð hefur verið viðhaldið í kvikmyndahúsum fyrirtækisins alla tíð, enda leggja starfsmenn mikið upp úr því að fylgjast grannt með þróun kvikmyndahúsa í heiminum til að tryggja að hið allra besta sé ávallt í boði. SAMbíóin hafa þannig bryddað upp á ýmsum nýjungum á íslenskum bíómarkaði í gegnum tíðina sem þykja sjálfsagðar í dag. Til dæmis voru SAMbíóin fyrst allra á íslenskum markaði til að frumsýna stórar kvikmyndir á sama tíma og í Bandaríkjunum og á Bretlandi, fyrst til að bjóða upp á popp og gos og fyrst til að sýna vinsælar kvikmyndir í fleiri en einu kvikmyndahúsi í einu.
SAMbíóin voru einnig fremst í flokki þegar kom að innleiðingu stafrænnar tækni í kvikmyndahúsum. Í dag býður fyrirtækið upp á ýmsar stafrænar lausnir fyrir innlenda framleiðendur og styðst við nýjustu tækni í sýningu kvikmynda auk stafrænna útsendinga frá Metropolitan-óperunni sem sýndar eru í Kringlubíói. Undanfarin ár hefur þróunin verið hröð í kvikmyndagerð, ekki aðeins með tilkomu þrívíddartækninnar heldur einnig vegna stöðugra byltinga í mynd- og hljóðgæðum, og þess vegna hafa SAMbíóin boðið upp á bestu tæknina hverju sinni og verið í fararbroddi til að tryggja að aðdáendur góðra kvikmynda geti notið þeirra í allra bestu gæðunum.
SAMbíóin hafa alltaf verið öflugur valkostur á auglýsingamarkaði og boðið upp á fjölbreyttar og áberandi auglýsingar í sölum á undan sýningum og í hléum.

Hátækni-kvikmyndahús
Í kvikmyndahúsunum fimm eru alls 17 salir og þar hefur verið lögð mikil áhersla á þægindi viðskiptavina auk þess besta sem tæknin hefur upp á að bjóða. SAMbíóin voru fyrst allra kvikmyndahúsa á Norðurlöndunum til að setja upp THX-hljóðkerfi og bíóið í Kringlunni var fyrst á Íslandi til að notast við stafrænar sýningarvélar og REAL D þrívíddartækni. Bíóið í Egilshöll, sem opnað var árið 2010, er algjörlega stafrænt og státaði við opnun af stærsta sýningartjaldi í Evrópu, auk þess sem allir salirnir voru búnir fullkomnustu Real D þrívíddartækni og besta 7.1 Dolby Digital hljóðkerfi sem fannst á markaðnum. Enn ein nýjungin sem SAMbíóin buðu upp á var VIP-salur, en sá fyrsti sinnar tegundar á landinu var opnaður í Álfabakka. Þar er takmarkað sætaframboð, en miklu meira er lagt upp úr þægindum með stillanlegum leðursætum og aðgangi að gosvél og popphitara. Vegna fjölda salanna í húsunum fimm eru þeir afar mismunandi að stærð og þá er hægt að leigja fyrir einkasýningar fyrir starfsmannafélög eða aðra hópa, auk þess sem boðið hefur verið upp á sérstaka aðstöðu fyrir bíóafmælisveislur.

Vinsæl heimasíða og SAMklúbburinn
Á heimasíðu SAMbíóanna, sambioin.is, er hægt að kaupa miða á þægilegan og auðveldan hátt, en sú þjónusta hefur notið sífellt meiri vinsælda undanfarin ár. Á síðunni koma fram allar upplýsingar um þær kvikmyndir sem eru í sýningu, ásamt fréttum úr heimi kvikmyndanna og kynningum á þeim myndum sem eru væntanlegar á næstu vikum og mánuðum, en þar er jafnvel hægt að sjá sýnishorn úr myndunum. Að auki er hægt að skrá sig í SAMklúbbinn og tryggja sér þannig afslætti og taka þátt í leikjum. SAMbíóin hafa þar fyrir utan verið afar virk á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Snapchat og Instagram til að ná til sem flestra. Á þeim miðlum koma fram allar upplýsingar um sértilboð og viðhafnarsýningar auk skemmtilegs fróðleiks um þær kvikmyndir sem eru væntanlegar eða komnar í sýningu.

SAMfilm
SAMfilm er sú deild SAMfélagsins sem sér um dreifingu kvikmynda á Íslandi fyrir risavaxnar samsteypur á borð við Warner Bros, Walt Disney og Paramount, auk minni sjálfstæðra aðila á borð við Summit, FilmNation og margra fleiri. Á árum áður voru umsvif þessarar deildar mjög mikil í dreifingu á efni á VHS, DVD og Blu-ray en með breyttri tækni hefur dreifingin færst yfir á VOD-veitur og sjónvarp. Þar fyrir utan hefur SAMfilm stutt dyggilega við bakið á íslensku kvikmyndagerðarfólki og tekið þátt í framleiðslu fjölda íslenskra kvikmynda. Árum saman hefur markaðshlutdeild SAMfilm verið í kringum 45-55 prósent og er þetta því stærsti dreifingaraðili kvikmynda á landinu.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd