Samband stjórnendafélaga

2022

STF – þar eiga stjórnendur heima
„Í mínum huga er alveg ljóst að fjölmargir stjórnendur á vinnumarkaðnum ættu heima í einhverju okkar félaga og hvergi annars staðar. Innan vébanda sambandsins eru nú ríflega 3.600 félagsmenn en þeir gætu verið mun fleiri. Allt of margir millistjórnendur standa utan sterkra hagsmunasamtaka og skortir því þann bakstuðning sem menn þurfa á að halda ef eitthvað kemur upp á. Hér er ég sérstaklega að vísa til Sjúkrasjóðs STF sem er sá allra sterkasti á landinu en fjölmargt fleira má nefna,“ segir Eyþór Óli Kynningar- og menntafulltrúi STF.

Félög á gömlum merg
Í Sambandi stjórnendafélaga eru sem stendur 11 aðildarfélög vítt og breytt um landið en það hét áður Verkstjórasamband Íslands, stofnað árið 1938. „Þetta er því gamalgróinn félagsskapur með meira en 80 ára sögu að baki en nafninu var breytt í samræmi við tíðarandann fyrir nokkrum árum. Við höfum sem betur fer uppskorið mikla fjölgun félagsmanna og sækjum þar með aukinn styrk til að veita félagsmönnum okkar sem allra besta þjónustu. Ég tel að sambandið hafi aldrei verið öflugra en nú né átt meira erindi við þá sem gegna stjórnendastöðum vítt og breytt í atvinnulífinu. Hjá okkur bjóðast félagsmönnum fyrsta flokks kjör hvað varðar endurmenntun og aðstoð ef eitthvað kemur upp á og við leggjum mikla áherslu á að halda vel utan um okkar fólk,“ segir Eyþór ennfremur.

Einn öflugasti sjúkrasjóðurinn
Eyþór nefndi áðan sterkan sjúkrasjóð verkstjóra en hann var stofnaður árið 1974 og hefur mjög mikilvægu hlutverki að gegna fyrir aðildarfélaga. „Já, stolt okkar í STF er auðvitað sjúkrasjóðurinn en ég get fullyrt að hann er einn sá albesti á landinu. Hann veitir mjög góð réttindi til launa og annarrar aðstoðar í slysa- og veikindatilfellum auk þess sem hann léttir undir með fjölskyldum félagsmanna þegar andlát ber að höndum. Þá á sjóðurinn og rekur sjúkraíbúð í Kópavogi fyrir þá félagsmenn utan af landi sem þurfa að leita sér lækninga á höfuðborgarsvæðinu. Stjórn sjóðsins hefur í gegnum árin verið mjög klók við að tryggja góða fjárhagsstöðu sjóðsins en jafnframt aukið stöðugt á réttindi félagsmanna til greiðslna úr sjóðnum. Að þeirri forsjá og ráðdeild búa félagsmenn stjórnendafélaganna svo
sannarlega í dag.“

Endurmenntun í rafrænu fjarnámi
Eyþór nefnir líka menntamálin sem hann segir að lengi hafi verið mjög ofarlega á blaði hjá STF. „Við erum aðilar að Stjórnendarfræðslunni en það er samstarfsvettvangur STF, Samtaka atvinnulífsins og Háskólans á Akureyri um menntun millistjórnenda. Í boði er frábær rafræn menntun sem kennd er í 100% fjarnámi sem hægt er að stunda með fullri vinnu. Tilgangur þess er að miðla þekkingu og efla nemendur til að auka hæfni sína í hvers konar stjórnun. Við eigum okkar eigin menntunarsjóð sem styrkir þetta nám en auk þess hafa atvinnurekendur stutt vel við bakið á sínu fólki. Það er Símenntun HA sem annast kennsluna en þar er að finna mjög hæfa leiðbeinendur. Þetta er frábært nám sem æ fleiri kjósa sér og bæta þar með stöðu sína og hæfni í stjórnun og á vinnumakaði. Þeir sem klára 5 lotur fá námið metið til 30 ECTS eininga og fá Diploma.“ stf.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd