Innviðaráðuneytið (Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið)

2022

Ráðuneytið
Verkefni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins ná til fjölmargra sviða þjóðfélagsins og varða meðal annars samgöngur, fjarskipti, grunnskrár, póstþjónustu, netöryggi og sveitarstjórnar- og byggðamál. Verkefni ráðuneytisins eru skilgreind í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
Ráðherra fer með yfirstjórn og ber ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum ráðuneytisins. Ráðuneytisstjóri stýrir ráðuneytinu í umboði ráðherra. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur verið samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra frá 2017 og jafnframt verið samstarfsráðherra Norðurlanda. Ragnhildur Hjaltadóttir er ráðuneytisstjóri.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið er í nánu samstarfi við ýmsar alþjóðlegar stofnanir. Þar má nefna Norrænu ráðherranefndina, Evrópuráðið, stofnanir sem tengjast EES-samstarfinu, samgöngustofnanir, OECD og fleiri. Sex stofnanir og tvö opinber hlutafélög heyra undir fagsvið samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipar forstöðumenn stofnananna, sem eru Byggðastofnun, Fjarskiptastofa, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, Samgöngustofa, Vegagerðin og Þjóðskrá Íslands. Hlutabréf í opinberu hlutafélögunum Isavia ohf. og Íslandspósti ohf. eru á hinn bóginn í höndum fjármála- og efnahagsráðuneytis og skipar fjármála- og efnahagsráðherra stjórnir þeirra. Starfsemi og áherslur endurspeglast í stefnupíramída ráðuneytisins. Þar er að finna hlutverk og gildi ráðuneytisins sem og sameiginlega framtíðarsýn og meginmarkmið allra málaflokka. Píramídinn sýnir einnig tengsl mála við stefnumið ráðherra, áætlanir ráðuneytisins og dagleg verkefni.

 

Stórir áfangar á síðustu árum
Á síðustu árum og á kjörtímabilinu 2017-2021 hafa verið stigin stór skref í málaflokkum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Framlög til samgöngumála hafa aldrei verið jafn há og á síðustu árum og íbúar allra landshluta finna fyrir miklum framkvæmdum á vegum, við hafnir og á flugvöllum. Samgöngusáttmáli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu var tímamótaverkefni en í honum er framtíðarsýn og framtíðaráætlun um blandaða uppbyggingu stofnbrauta, almenningssamgangna og umferð gangandi og hjólandi. Á árinu 2020 var lagður grunnur að nýrri og enn öflugri byggðaáætlun en hún felur í sér mikla samvinnu milli ríkisins og landshlutanna um framtíðarsýn fyrir landið allt. Fyrsta stefna sinnar tegundar um málefni sveitarfélaga var samþykkt á Alþingi en með samþykkt hennar var stigið stórt skref.
Unnið hefur verið af krafti við að efla fjarskiptainnviði og er Ísland í hópi fremstu ríkja heims í fjarskiptainnviðum. Ljósleiðaravæðing landsins hefur verið á fullri ferð með verkefninu Ísland ljóstengt sem lýkur árið 2021. Samþykkt hefur verið ný stefna í fjarskiptum til fimmtán ára og veigamikið frumvarp lagt fram á Alþingi til nýrra heildarlaga um fjarskipti.
Tímamót urðu með nýrri löggjöf um öryggi net- og upplýsingakerfa en með henni var umgjörð fyrir netöryggi stórefld. Loks var hafist handa við að móta nýja opinbera netöryggisstefnu á þessu ári. Mikilvæg endurnýjun átti sér stað á löggjöf um skráningu einstaklinga en þrenn heildarlög á því sviði voru færð til nútímans.

Mannauður
Það er stefna ráðuneytisins að hafa ávallt á að skipa hæfu og áhugasömu starfsfólki sem sýnir frumkvæði í störfum, veitir góða þjónustu og bregst við síbreytilegum þörfum samfélagsins. Í mannauðsstefnu ráðuneytisins er lögð rík áhersla á starfsánægju og heilbrigði starfsfólks, jafnvægi milli vinnu og einkalífs, jafnrétti, góðan aðbúnað á vinnustað, jákvæð samskipti, faglega og styðjandi stjórnun og tækifæri fyrir starfsfólk til símenntunar og þróunar í starfi.
Í byrjun október 2021 voru samtals 48 einstaklingar í starfi hjá ráðuneytinu. Þar af voru 42 í föstu starfi og 6 í tímabundnu starfi, alls 47,05 stöðugildi, auk ráðherra og tveggja aðstoðarmanna. Í fæðingarorlofi voru tveir og í námsleyfi einn. Kynjahlutfall í ráðuneytinu er nokkuð jafnt en hjá ráðuneytinu starfa 21 kona og 21 karl í föstum stöðugildum. Í tímabundnum störfum eru fjórar konur og tveir karlar.

Skrifstofur og málaflokkar
Skrifstofur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins eru fjórar; skrifstofa samgangna, skrifstofa stafrænna samskipta, skrifstofa stefnumótunar og fjárlaga og skrifstofa sveitarfélaga og byggðamála.

Skrifstofa samgangna
Meginhlutverk skrifstofu samgangna felst í að stuðla að því að skapa trausta og örugga innviði til að mæta þörfum samfélagsins. Skrifstofan hefur umsjón með stefnumótun á sviði samgöngumála, þróun löggjafar og regluverks og margvíslegri framkvæmd laga sem varða málaflokkinn í samræmi við stefnu stjórnvalda og alþjóðlegar skuldbindingar.Undir skrifstofuna falla helstu málaflokkar samgöngumála svo sem flugmál, siglingamál, umferðarmál, vegamál, almenningssamgöngur og flutningamál. Einnig falla rannsóknir samgönguslysa undir skrifstofuna. Skrifstofan ber ábyrgð á stefnumótun stjórnvalda á sviði samgöngumála og heldur utan um gerð samgönguáætlunar. Hún ber einnig ábyrgð á löggjöf um samgöngumál, regluverki og þróun löggjafar í samræmi við stefnu stjórnvalda og á alþjóðlegum skuldbindingum, þ.m.t. framkvæmd EES-samningsins.

Skrifstofa stafrænna samskipta
Meginhlutverk skrifstofu stafrænna samskipta er að stuðla að því að tengja fólk, byggðir og samfélög með öruggum, stafrænum samskiptum. Skrifstofan hefur umsjón með stefnumótun, þróun löggjafar og regluverks og margvíslegri framkvæmd laga sem varða málaflokkinn í samræmi við stefnu stjórnvalda og alþjóðlegar skuldbindingar.
Skrifstofa stafrænna samskipta fer með málefni sem varða rafræn samskipti í víðum skilningi. Tilurð skrifstofunnar má rekja til mikilvægis netsins í nútíma samfélagi, samruna upplýsinga- og fjarskiptatækni og aukins þunga í öryggismálum sem m.a. kemur til af því að samskipti, þjónusta og hvers kyns viðskipti eru nú stunduð í miklum mæli á netinu. Skrifstofan vinnur að því markmiði að tengja fólk, byggðir og samfélög með öruggum, rafrænum samskiptum þar sem persónuverndar er gætt í hvívetna. Skrifstofan hefur umsjón með stefnumótun, mótun löggjafar og innleiðingu gerða á viðkomandi málefnasviðum.

Skrifstofa sveitarfélaga og byggðamála
Meginhlutverk skrifstofunnar felst í að stuðla að eflingu sveitarstjórnarstigsins og sjálfbærni byggða um land allt. Skrifstofan hefur umsjón með stefnumótun í sveitarstjórnar- og byggðamálum, þróun löggjafar og regluverks og margvíslegri framkvæmd laga sem varða málaflokkana. Jafnframt annast skrifstofan eftirlit og umsjón með stjórnsýslu og skipulagi sveitarfélaga. Önnur lykilverkefni skrifstofunnar eru póstmál og málefni Þjóðskrár Íslands.
Þá hefur skrifstofan umsjón með starfsemi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Hlutverk sjóðsins er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga.

Skrifstofa stefnumótunar og fjárlaga
Skrifstofa stefnumótunar og fjárlaga hefur víðtæka aðkomu að verkefnum ráðuneytisins og krefjast nánast öll verkefnin samvinnu þvert á skrifstofur. Gegnir því skrifstofan miklu samhæfingarhlutverki. Skrifstofan ber ábyrgð á gerð og eftirfylgni fjármálaáætlunar og fjárlaga og samþættingu og samræmingu stefna og áætlana. Þá ber skrifstofan ábyrgð á að þróa vinnubrögð og stuðla að árangri og gæðum, faglegri meðferð stjórnsýslukæra, miðlun upplýsinga inn á við og út á við og stuðla að hæfni, vellíðan og þróun starfsmanna. Skrifstofan ber einnig ábyrgð á innri rekstri ráðuneytisins.

Stefnupíramídi ráðuneytisins

Nefndir og ráð
Undir málefnasvið ráðuneytisins teljast 19 lögbundnar nefndir og ráð, tvær lögbundnar úrskurðarnefndir og tvær lögbundnar stjórnir. Í þeim eru 166 aðalmenn og 76 varamenn. Þá eru starfandi 16 tímabundnar nefndir og starfshópar um ákveðin verkefni.
Í þeim eru 111 aðalmenn og 5 varamenn.
Samkvæmt jafnréttislögum hlutfall kvenna og karla vera sem jafnast og ekki minna en 40%. Hlutfall kynja í lögbundnum nefndum og ráðum er 41% konur og 59% karlar. Í tímabundnum nefndum er hlutfall kvenna 52% og karla 48%.
Stefnumótun og samhæfing áætlana
Stefnumótun í ráðuneytinu byggir á langri hefð og rík áhersla er lögð á að samhæfa áætlanir í málaflokkum ráðuneytisins til að ná sem bestum árangri til lengri tíma. Um málaflokka ráðuneytisins eru gildar vandaðar áætlanir sem leggja grunn að innviðum samfélagsins. Þetta eru byggðaáætlun, samgönguáætlun, stefna í fjarskiptum og stefna í sveitarstjórnarmálum. Þær eiga það sameiginlegt að vera unnar eftir samræmdum vinnubrögðum og ráðherraskipuð ráð stýra vinnslu þeirra. Stefnur og áætlanir ráðuneytisins eru unnar eftir skilgreindu stefnumótunarferli Stjórnarráðsins, svokölluðum sporbaug stefnumótunar. Í upphafi er tilefni stefnumótunar metið og verkefnið kortlagt. Að því búnu hefst stöðumat málaflokka í grænbók og mótun stefnu í hvítbók, í vel skilgreindu ferli í víðtæku samráði. Þegar stefna hefur verið samþykkt er henni hrint í framkvæmt og fylgt vel eftir með mælikvörðum og reglulegu mati. Unnið hefur verið markvisst að samhæfingu áætlana, að þær séu unnar á samræmdan hátt og á svipuðum tíma. Öll stefnumótun og áætlanagerð hefur verið færð yfir í sporbaug stefnumótunar. Málaflokkarnir eru samofnir á margan hátt og því hefur starfsemi á einu sviði áhrif á hin. Fátt hefur til að mynda meiri áhrif á þróun byggðar og samgöngur; ljósleiðaravæðingin er stærsta byggðamálið og samgöngubætur hafa áhrif á sameiningu sveitarfélaga. Við samhæfingu af þessu tagi þarf einnig að gæta að samspili við aðrar áætlanir í Stjórnarráðinu, svo sem aðgerðaáætlun um loftslagsmál, heilbrigðisstefnu og landsskipulagsstefnu. Ráðherra skipar samgönguráð, byggðamálaráð, fjarskiptaráð og starfshóp um stefnu í sveitarstjórnarmálum. Ráðin leggja fram tillögu að 15 ára stefnu og fimm ára aðgerðaáætlun fyrir hvern málaflokk með forgangsröðun, að fengnum áherslum ráðherra. Endurskoðun fer fram á allt það þriggja ára fresti. Með hverju ráði starfar verkefnisstjóri og í stefnumótunarhópi ráðuneytisins vinna þeir enn fremur að samhæfingu stefna og áætlana. Unnið er eftir samræmdu skipulagi og með verkfærum Stjórnarráðsins í stefnumótun.

Vegvísir.is – gagnvirkur upplýsingavefur um samgöngur, byggðamál og fjarskipti.

Vegvísir að lykilupplýsingum
Nýr gagnvirkur upplýsingavefur ráðuneytisins – vegvisir.is – var opnaður vorið 2021. Vefnum er ætlað að vera mælaborð um samgöngur, fjarskipti og byggðamál og leiðarvísir almennings að lykilupplýsingum um þessa málaflokka. Verkefnið er er mikilvægt nýsköpunar- og umbótaverkefni sem greiðir aðgang almennings að upplýsingum og hvetur til samtals um málefni og áætlanir ráðuneytisins. Þrjár af áætlunum ráðuneytisins; samgönguáætlun, byggðaáætlun og fjarskiptaáætlun eru settar fram á vefnum með mun aðgengilegri hætti en áður. Á Vegvísi er hægt að skoða markmið, einstök verkefni, raunstöðu þeirra og þá mælikvarða sem notaðir eru til að meta árangurinn. Á einfaldan hátt er hægt að sjá að hverju er verið að vinna í ráðuneytinu og fagstofnunum sem undir það heyra.

Kraftur í stafrænni þróun
Ráðuneytið og fagstofnanir hafa unnið að því að efla stafræna þjónustu á sínum vegum. Unnið er að mörgum ólíkum verkefnum sem miða öll að því að því að auka árangur og bæta þjónustu. Allar skrifstofur ráðuneytisins vinna að umbótaverkefnum og setja reglulega ný umbótaverkefni á dagskrá. Þjónusta Loftbrúar, sem veitir íbúum landsbyggðarinnar fjarri höfuðborgarsvæðinu lægri flugfargjöld til borgarinnar, er að fullu stafrænt og gagnsætt á þjónustuvefnum Ísland.is. Þar er hægt að kanna réttindi sín og sækja afsláttarkóða til að nota við bókanir. Stafræn ökuskírteini í snjallsímum voru tekin árið 2020 ákveðið hefur verið að gera umgjörð fyrir almennt ökunám stafræna frá upphafi til enda fyrir árslok 2021. Tekur það til umsókna, ökunámsbóka, upplýsingagáttar fyrir nemendur og ökukennara, ökuskóla, prófa og útgáfu ökuskírteina. Tilkynningagátt um öryggisatvik er mikilvæg stafræn þjónusta sem auðveldar stofnunum og fyrirtækjum að tilkynna um öryggisatvik sem upp kunna að koma í rekstri þeirra. Öryggisatvikin geta verið netatvik tengd netárásum eða netglæpum, en geta einnig varðað vernd persónuupplýsinga.

Áætlanir ráðuneytisins.

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd