Kristbjörg Jónsdóttir (Bibba) frá Ystafelli í Kaldakinn fór rúmlega tvítug til Reykjavíkur í atvinnuleit eins og svo margir aðrir í stríðinu og hagvextinum sem koma hersins hafði í för með sér. Ekki leið á löngu þar til unga konan sem fengið hafði vinnu á saumastofu kynntist Ingólfi Kristjánssyni, Reykvíking, sem gerði út eigin vörubíl og keyrði meðal annars fyrir herinn. Vorið 1946, ári eftir að þau giftu sig, fluttu hjónin aftur á heimaslóðir Bibbu í Ystafelli. Búskapurinn féll vel að bóndadótturinni á meðan bílstjórinn frá Reykjavík fór fljótt að huga að viðgerðum á bílum og búvélum bænda á svæðinu. Hann stundaði einnig bílaútgerð ýmiskonar, t.d. í tengslum við mjólkurflutninga og vegavinnu, auk þess að kenna á bíl. Öllum sem erindi áttu í Ystafell var boðið í kaffi eða mat hjá Bibbu og fljótlega var fólk farið að venja komur sínar þangað til að heimsækja þau hjónin og kannski sjá hvað Ingólfur var að brasa þann daginn, enda alltaf nóg að gera. Í þá daga var ekki auðvelt að nálgast varahluti eða verkfæri í gegnum Internet, síma eða jafnvel bréfaskriftir og því varð að passa upp á hverja skrúfu, bolta og fjaðurblað. Ingólfur átti það til að segja: „Það má aldrei henda neinu, þá vantar þig það aftur á morgun“. Af því leiðir að ýmislegt er til í Ystafelli sem ekki finnst annars staðar. Það má segja að safnið eigi rætur sínar í þessari speki og elju Ingólfs við að safna að sér varahlutum, tækjum og tólum.
Ekki með það að markmiði að opna safn heldur af einskærri nauðsyn
Þau hjón eignuðust 7 börn á 19 árum og með slíkan liðsstyrk til að huga að búi og bílskúr skapaðist áhugaverð menning á staðnum. Til að gera langa sögu stutta gafst tími til að púsla einhverju af þessu uppsafnaða dóti sem fyrirfannst á svæðinu saman og árið 1994 var búið að gera upp Ford AA 1929, komplett, takk fyrir. Í kjölfar þessa, snemma árs 1995 fóru að vakna hugmyndir um að það væri sniðugt að byggja safn utan um Fordinn og önnur tæki sem til voru. Á svipuðum tíma voru Ingólfur og Sverrir að vinna að öðrum verkefnum, m.a. Land Rover árg. 1951 og árið 1998 var byrjað á Ford 1938 vörubíl og þá var ekki aftur snúið.
Framkvæmdir hófust með fyrstu skóflustungunni sumarið 1998, en það ár stofnuðu Ingólfur
og Bibba sjálfseignarstofnun utan um rekstur safnsins. Þá var grafið fyrir 640 fermetra sýningarsal og varð hann fokheldur í nóvember sama ár. Eftir að búið var að einangra og innrétta salinn var safnið opnað sumarið 2000. Það varð snemma ljóst að þetta hús myndi fyllast fljótt. Sumarið 2004 var byrjað að grafa fyrir öðrum sýningarsal og var hann opnaður í júlí 2006, en þá var sýningarrými safnsins orðið allt að 1500 fermetrar. Fyrsta sumarið sem safnið var opið taldi það 35 farartæki en í dag eru þau nærri 90 talsins, innandyra. Nú er staðan sú að safnið er yfirfullt og brýn þörf er á nýjum húsakosti.
Hlutverk safnsins
Yfirlýst hlutverk safnsins er varðveisla samgöngutækja hverskonar sem og upplýsinga og myndefnis úr samgöngusögu Íslands. Ingólfur og Bibba létust bæði árið 2003 og hefur sonur þeirra Sverrir séð um rekstur safnsins eftir þeirra dag, með aðstoð frá fjölskyldu og vinum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd