Samhentir – Kassagerð ehf.

2022

Samhentir Kassagerð hf. er í dag stærsta umbúðafyrirtæki landsins, félagið var stofnað árið 1996 og starfaði í upphafi við framleiðslu á tröllakössum. Fljótlega hófst samhliða framleiðslunni innflutningur á pappaumbúðum, kössum, öskjum og blokkaröskjum. Samhentir hafa lagt áherslu á að bjóða alhliðalausnir í umbúðum fyrir sína viðskiptavini þar sem þeir geta nálgast allar sínar umbúðir á einum stað, þannig einfaldað sinn rekstur.  Stofnendur voru Bjarni Hrafnsson ásamt tveimur öðrum, Bjarni er í dag rekstrarstjóri Samhentra. Fyrirtækið hefur vaxið hröðum skrefum og var velta félagsins 5.200 milljónir árið 2020.

Sagan
Árið 2002
gengu fyrirtækin Innís og  G.S. Maríasson til liðs við Samhenta. Með Innís kom aukin áhersla á plastvörur og með G.S Maríasson bættust við pökkunarvélar og límbönd.
Árið 2003
kaupir Ásgeir Þorvarðarson 30% hlut í félaginu af einum af stofnendum félagsins.
Árið 2004
kaupa Samhentir 50% hlut í Tri-pack Packaging Systems Ltd. á Englandi sem er framleiðslu-fyrirtæki sem sérhæfir sig í polypropylene kössum og er með einkaleyfi á CoolSeal umbúðum. Samhentir hafa frá kaupunum unnið náið með Tri-pack í því að nútímavæða framleiðslu-aðferðir sínar.
Árið 2007
kaupa Samhentir fyrirtækið Valdimar Gíslason, VGÍ ehf. Við þau kaup stækkar fyrirtækið umtalsvert og vörur eins og áhöld, krydd og íblöndur auk kjötvinnsluvéla bætast á lagerinn. Árið áður hafði Icelandic Umbúðir sameinast VGÍ og var það því hluti af hinu keypta.
Sama ár kaupa eigendur Samhentra 50% hlut í fyrirtækinu Vest Pack P/f í Færeyjum. Tengsl  Samhentra við bæði birgja og viðskiptavini á Norðurlöndum styrkjast verulega í kjölfarið. Vest Pack var útnefnt fyrirtæki ársins í Færeyjum 2013 og er með ráðandi markaðstöðu á umbúðamarkaði í Færeyjum.
Árið 2009
flytja Samhentir í nýtt húsnæði að Suðurhrauni 4 í Garðabæ og öll starfsemi er þar með á einum stað.
Árið 2011
kaupa Samhentir lagerhúsnæði og lóð að Suðurhrauni 6–10 í Garðabæ og tryggja þannig framtíðarstaðsetningu í Suðurhrauninu.
Árið 2012
kaupa Samhentir meirihluta í hinu gamalgróna framleiðslufyrirtæki Vörumerkingu ehf.
Límmiðar bætast þar með í vöruúrvalið.

Árið 2013
Vörumerking flytur í Suðurhraun 6 og húsnæðið var endurnýjað fyrir starfsemi félagsins. Sama ár er vélakostur endurnýjaður mikið og fær félagið í kjölfarið vottun til þess að framleiða umbúðir sem eru í beinni snertingu við matvæli.
Árið 2016
Samhentir kaupa Frjó Umbúðasöluna, þar með styrkti félagið stöðu sína á markaði tengdum garðyrkju og bætti við úrvali í vörum til garðyrkju og landbúnaðar.
Árið 2018
Eigendur Samhentra eignast 50% hlut í Bergplast, það félag sérhæfir sig í framleiðslu á plastdósum fyrir mjólkuriðnað. Bergplast á einnig endurvinnslufyrirtækið Durinn ehf. sem framleiðir ýmsar vörur úr endurunnu plasti.
Árið 2019
Álfakór kaupir 20% hlut í Samhentum.
Árið 2020
Samhentir kaupa meirihluta af rekstri Kassagerðar Reykjavíkur, sem var elsta umbúðarfyrirtæki landsins og lengst af stór framleiðandi af pappaumbúðum, hluti af kaupunum var einnig rekstur Plastprents sem hafði sameinast Kassagerðinni.
Sama ár kaupir Bergplast fyrirtækið Sigurplast sem framleiðir flöskur og brúsa úr plasti, unnið er að því að sameina félögin í húsnæði Bergplasts í Hafnarfirði.

Vöxtur fyrirtækisins
Félagið hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun, frá því að vera lítið sprotafyrirtæki í að vera umbúðaþjónustufyrirtæki á Íslandi. Lykillinn að velgengni fyrirtækisins liggur í góðum tengslum við viðskipavini og birgja félagsins, vönduðu, reynslumiklu og vel menntuðu starfsfólki, ásamt áherslu á gæði og nýjungar.

Starfsfólk og stjórnendur
Hjá Samhentum starfa 52 og 26 hjá Vörumerkingu flestir hafa langan starfsaldur og því er lítil starfsmannavelta. Hjá fyrirtækinu starfar fólk með þekkingu úr mismunandi atvinnugreinum sem hefur fjölbreytta reynslu úr viðskiptalífinu. Mannauður fyrirtækisins og starfsreynsla er því mikill og fjölbreyttur.
Framkvæmdastjóri er Jóhann Oddgeirsson og stjórnarformaður er Ásgeir Þorvarðarson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd