Árið 1983 hóf Samherji hf. rekstur frystitogara sem bar nafnið Akureyrin EA og er það ár talið formlegt stofnár Samherja. Félög í samstæðu Samherja hf. eru í hópi umsvifamestu sjávarútvegsfyrirtækja landsins og byggist rekstur samstæðunnar fyrst og fremst á veiðum á bolfiski og uppsjávarfiski, landvinnslu á bolfiski og rækju, fiskeldi auk markaðs- og sölustarfsemi. Fiskiskip samstæðunnar stunda veiðar bæði innan og utan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Landvinnslan samanstendur af fullkomnum og tæknivæddum vinnslum í Dalvíkurbyggð, á Akureyri og á Hólmavík. Samstæðan rekur fiskeldisstöðvar í Grindavík, á Núpum og í Öxarfirði auk vinnslu afurða í Sandgerði. Allt eldið fer fram á landstöðvum og er umhverfisvænt, sjálfbært og 100% rekjanlegt. Höfuðstöðvar Samherja eru á Akureyri og eru starfsmenn alls rúmlega sex hundruð.
Samherji kappkostar að umgangast lífríki hafsins af virðingu og nýta sjávarauðlindina með sjálfbærum hætti. Einnig að efla hagkvæmni orkunotkunar og auka jafnframt notkun umhverfisvænnar orku í starfseminni. Samherji hefur um árabil verið í forystu í þróun, tækni og tækja til veiða og vinnslu í náinni samvinnu við íslensk tæknifyrirtæki. Hefur skipafloti félagsins verið í stöðugri endurnýjun og sömu sögu er að segja um húsnæði og vinnsluvélar í landvinnslu. Samherji framleiðir afurðir sínar eftir viðurkenndum stöðlum sem tryggja eiga sjálfbærni, rekjanleika og heilnæmi afurðanna. Stefna Samherja er að hámarka nýtingu á hráefnum og framleiða heilnæmar gæðaafurðir. Afurðir fyrirtækisins eru framleiddar undir vörumerkinu ICE FRESH SEAFOOD og sölu og markaðssetningu annast dótturfélag Samherja Ice Fresh Seafood ehf.
Stefna og samfélagsmál
Stefna Samherja er að vera leiðandi á atvinnumarkaði og starfa í sátt við umhverfi og samfélag. Samherji leggur upp með að ráða til starfa hæft starfsfólk og bjóða upp á öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. Stöðugt er því unnið að umbótum í öryggis-, heilsu- og vinnuverndarmálum.
Samherji hefur frá upphafi veitt styrki til ýmissa samfélagsverkefna og leggur þannig sitt af mörkum til að stuðla að framförum í samfélaginu og velferð komandi kynslóða. Hefur megin áhersla til þessa verið styrkveitingar á sviði íþrótta- og æskulýðsstarfs en þó einnig á stuðning við önnur almenn verkefni, oftast heilsutengd. Samherji hefur verið stoltur styrktaraðili Íþróttasambands fatlaðra um árabil.
Kynslóðaskipti í eignarhaldi
Stjórn Samherja samþykkti á árinu 2018 skiptingu Samherja í Samherja hf. íslenskt eignar-haldsfélag og Samherja Holding ehf., félag um erlenda starfsemi. Í kjölfarið hófst undirbúningur á breytingum á eignarhaldi sem kunngjört var um miðjan maí 2020.
Aðaleigendur Samherja hf., þau Þorsteinn Már Baldvinsson, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Kristján Vilhelmsson og Kolbrún Ingólfsdóttir, framseldu hlutabréfaeign sína í Samherja hf.
til barna sinna. Stærstu hluthafar urðu Baldvin Þorsteinsson, Katla Þorsteinsdóttir, Dagný Linda Kristjánsdóttir, Halldór Örn Kristjánsson, Kristján Bjarni Kristjánsson og Katrín Kristjánsdóttir.
Í tilkynningu vegna þessara tímamóta sagði að með þessum hætti vildu stofnendur Samherja treysta og viðhalda þeim mikilvægu fjölskyldutengslum sem félagið hefur ávallt byggt á og verið hornsteinn í rekstrinum.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri gegna áfram störfum sínum hjá Samherja eftir sem áður.
„Við frændurnir höfum fullan metnað til að taka þátt í áframhaldandi rekstri Samherja. Félagið á mikla og bjarta framtíð fyrir sér og hefur vaxið og dafnað þrátt fyrir ýmsa erfiðleika. Starfsfólk okkar hefur sýnt eigendum og félaginu einstakt traust og lagt grunn að þeim stöðugleika sem er lykilatriði í rekstrinum. Nú fáum við nýja kynslóð til liðs við okkur. Við fáum tækifæri til að halda áfram að skapa verðmæti með fullnýtingu hráefnis, veita vinnu og starfsöryggi og tryggja enn frekar þau mikilvægu gildi um sjálfbærni og vandaða umgengni um auðlindina sem verið hefur stefna Samherja frá upphafi“.
Útgerð
Skip Samherja eru gerð út frá Akureyri og Dalvíkurbyggð. Skipakosturinn tekur eðlilega nokkrum breytingum frá ári til árs enda er lögð mikil áhersla á tæknilega fullkomnun og hagkvæmni.
Björgvin EA 311
Björgvin EA 311 er elsta skip Samherja, smíðað 1988 í Flekkefjord í Noregi. Skipið hefur ávallt verið í góðu viðhaldi og áhöfnin hefur gætt þess að fara vel með skipið í gegnum árin.
Skrokklag skipsins hefur alltaf þótt býsna athyglisvert. Segja má að með hönnun skipsins hafi í fyrsta sinn verið þróað stefni sem Bárður Hafsteinsson útfærði síðan enn frekar við hönnun nokkurra togara sem smíðaðir hafa verið í Tyrklandi á síðustu árum og hafa reynst afar vel.
Þrjú ný skip
Árið 2017 var viðburðaríkt út útgerðarsögu Samherja, félagið fékk það ár afhent þrjú systurskip – ísfisktogara – sem smíðuð voru í Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Skipin eru 62 metra löng og 13,5 metra breið. Skipin voru hönnuð af verkfræðistofunni Skipatækni og Bárði Hafsteinssyni í samvinnu við eigendur. Skipin eru tæknilega fullkomin og áhersla var lögð á hagkvæmni í orkunýtingu og sjóhæfni. Til dæmis er áhersla lögð á að nýta afgangsvarma til upphitunar á vélbúnaði og vistarverum. Einnig býður hitakerfið upp á að tengjast hitaveitu í landi, svo ekki þurfi að brenna olíu þegar skipin liggja við bryggju.
Skrokklagið er nýstárlegt og eykur sjóhæfni og orkunýtingu. Stefnið hleypir öldunni upp á nefið á stefninu án þess að brjóta hana og þá er einnig mjög gott sjóstreymi að tiltölulega stórri skrúfu. Í öllu þessu er fólginn orkusparnaður.
Eftir að skipin komu til Íslands, sá Slippurinn á Akureyri um að setja ýmsan búnað í þau, svo sem aðgerðar- og kælibúnað.
Kaldbakur EA 1
kom til heimahafnar á Akureyri 27. febrúar 2017 en þá voru liðin 17 ár síðan nýsmíðað skip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson EA, kom til Akureyrar. Fjöldi bæjarbúa tók á móti skipinu og var þeim boðað að skoða hið nýja skip.
Björgúlfur EA 312
kom til heimahafnar á Dalvík 1. júní 2017. Hinn nýji Björgúlfur er sá þriðji í röðinni en fjörutíu ár voru síðan nýsmíðaður Björgúlfur eldri lagðist að bryggju í heimahöfninni Dalvík.
Björg EA 7
lagðist í fyrsta sinn að bryggju á Akureyri 31. október 2017.
Harðbakur EA 3
Nýr Harðbakur EA 3 kom til heimahafnar á Akureyri 9. nóvember 2019 en skipið er í eigu ÚA, sem er dótturfélag Samherja. Þetta nafn og númer, Harðbakur EA 3,hafa togarar ÚA áður farsællega borið. Harðbakur er eitt af sjö skipum sem fjórar íslenskar útgerðir tóku sig saman um að láta smíða hjá Vard-Aukra í Noregi, Vard-samsteypan í Noregi sá um hönnun skipanna í samvinnu við kaupendur.
Slippurinn á Akureyri smíðaði vinnslubúnað skipsins.
Vilhelm Þorsteinsson EA 11
Vilhelm Þorsteinssona EA 11, nýtt skip til uppsjávarveiða sem var smíðað sérstaklega fyrir Samherja, sigldi inn Eyjafjörðinn í fyrsta sinn 2. apríl 2021. Vilhelm Þorsteinsson er stórt, glæsilegt og fullkomið skip, 89 metrar á lengd og 16,6 metrar á breidd.
Burðargetan er vel yfir þrjú þúsund tonn í þrettán lestartönkum þar sem aflinn er kældur til að sem best hráefni komi að landi.
Karstensens skipasmíðastöðin í Danmörki hannaði og smíðaði skipið eftir þörfum Samherja og naut ráðgjafar starfsfólks Samherja við verkið. Heimsfaraldurinn COVID-19 setti strik í reikninginn við smíðina sem tafðist umtalsvert. Því var beðið eftir skipinu með mikilli eftirvæntingu en samningar um smíði þess voru undirritaðir 4. september 2018 en þann dag hefðu tvíburarnir Baldvin og Þorsteinn Vilhelmssynir orðið 90 ára. Nýsmíðin leysti af hólmi eldri Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem kom nýr til landsins um síðustu aldamót.
Anna EA 305
Anna EA 305 er línuveiðiskip, 52 metrar að lengd og 11 metra breitt.
Skipið var smíðað í Noregi 2001 og sjö árum síðar voru gerðar miklar endurbætur á því. Samherji keypti skipið 2013 og var það þá nefnt Anna.
Oddeyrin EA 210
Segja má að tímamót hafi orðið í útgerðarsögu landsins þann 7. júlí 2021 er Oddeyrin EA 210 kom til heimahafnar á Akureyri eftir gagngerar breytingar hjá dönsku skipasmíðastöðinni Karstensens í Danmörku. Samherji keypti uppsjávarveiðiskip og lét breyta því fyrir bolfiskveiðar, jafnframt er hægt að dæla fiski um borð og geyma lifandi í sex sér útbúnum tönkum. Í þeim er einnig hægt að kæla fiskinn, ef hann er ekki fluttur lifandi til lands.
Slippurinn á Akureyri smíðaði ýmsan búnað um borð, aðallega á vinnsludekki.
Landvinnsla
Landvinnsla afurða er stór þáttur í starfsemi Samherja hf. Á Akureyri rekur félagið fiskvinnsluhús Útgerðarfélags Akureyringa, sem er mjög tæknivætt. Á Dalvík er nýtt fiskvinnsluhús, sem er tæknilega mjög fullkomið og íslensk hátækni áberandi, líkt og í vinnsluhúsinu á Akureyri. Aðbúnaður starfsfólks á þessum starfsstöðum er góður og hefur vakið athygli víða. Á Hólmavík er rækjuvinnsla. Á Laugum í Þingeyjarsveit er hausaþurrkun.
Akureyri
Í nóvember 2015 hófst starfsemi í nýju og glæsilegu húsnæði Útgerðarfélags Akureyringa við Fiskitanga á Akureyri. Aðeins eitt ár leið frá því ákveðið var að rífa gamla bragga og reisa hið nýja húsnæði þar til það var tilbúið til notkunar. Húsið var hannað til að mæta ýtrustu kröfum fyrir framtíðar fiskvinnslu. Hátt er til lofts og vítt til veggja. Í húsinu eru nýjar sjálfvirkar pökkunarlínur fyrir bæði ferskar og frosnar afurðir. Með þessari nýju byggingu og nýjum búnaði voru stigin stór skref inn í framtíðina og möguleikar til að þjóna viðskiptavinum jukust til mikilla muna. Nýja fiskvinnsluhúsið vakti mikla athygli, bæði fyrir góðan aðbúnað og íslenska hátækni.
Dalvík
Vinnsla hófst í nýju fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík 14. ágúst 2020, tæknilega eitt fullkomnasta fiskvinnsluhús landsins í bolfiskvinnslu, líkt og fiskvinnsluhúsið á Akureyri var, þegar það var tekið í notkun. Framkvæmdir og þróun á búnaði í húsinu, sem er um 9.000 fermetrar, stóðu yfir í fjögur ár og íslensk hátækni er áberandi. Nýja húsið leysti af hólmi eldra húsnæði á Dalvík, sem þótti á margan hátt óhentugt. Tækin í húsinu og hugbúnaðurinn sem stýrir þeim er afrakstur þróunarsamstarfs Samherja og fyrirtækjanna sem framleiddu þau. Framleiðslukerfið er allt tölvustýrt og skráningar tryggja rekjanleika vörunnar frá veiðum til vinnslu. Allur aðbúnaður starfsfólks er eins og best verður á kosið. Þegar vinnsla hófst formlega geysaði heimsfaraldurinn COVID-19. Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu sagði á fyrsta degi starfseminnar að nokkurn tíma tæki að þjálfa starfsfólkið. Heimsfaraldurinn gerði það hins vegar að verkum að engum var hleypt inn í húsið nema starfsfólkinu, þannig að áskoranirnar voru margar. Þrátt fyrir þessa stöðu gekk fyrsta árið vel, enda starfsfólkið staðráðið í að standa saman, þannig að vinnslan gæti gengið sem best, sem varð raunin.
Laugar
ÚA starfrækir fiskþurrkun að Laugum í Reykjadal. Þar fer fram þurrkun hausa og hryggja. Starfsmenn eru um tuttugu.
Hólmavík
Samherji rekur rækjuvinnslu á Hólmavík en rík hefð er fyrir rækjuvinnslu þar. Starfsmenn á Hólmavík eru liðlega tuttugu.
Fiskeldi Samherja
Fiskeldi Samherja ehf. kemur að öllum stigum eldis og vinnslu, allt frá hrognum til neytenda. Fiskeldi Samherja rekur eina klakfiskstöð að Sigtúnum í Öxarfirði, eina klakstöð fyrir hrogn að Núpum í Ölfusi, þrjár seiðastöðvar og tvær áframeldisstöðvar fyrir bleikju, aðra á Stað við Grindavík og hina að Vatnsleysuströnd. Einnig rekur fyrirtækið áframeldisstöð fyrir lax að Núpsmýri í Öxarfirði. Allt eru þetta landeldisstöðvar sem nýta jarðvarma og notast við borholuvatn, ýmist ferskt eða ísalt, við framleiðslu á eldisfiski.
Til að vinna afurðir frá eldinu eru starfræktar tvær vinnslur, önnur í Öxarfirði þar sem laxi er slátrað og pakkað og síðan fullkomin hátæknivinnsla í Sandgerði þar sem bleikju er slátrað og hún unnin í fjölbreyttar neytendaumbúðir.
Stækkun í Öxarfirði
Stjórn Samherja fiskeldis ákvað að stækka landeldisstöð félagsins í Öxarfirði um helming, þannig að framleiðslan verði um þrjúþúsund tonn af laxi á ári. Miðað er við að frakvæmdum ljúki seinni hluta árs 2023. Segja má að þessi stækkun sé undanfari áforma Samherja um að byggja upp allt að 40.000 tonna landeldi á Reykjanesi. Með stækkuninni fyrir norðan verði hægt að pófa nýja hluti og nýta þá reynslu sem skapast, áður en hafist verður handa á Reykjanesi.
Landeldi í Auðlindagarði á Reykjanesi
Um miðjan júní 2021 undirritaði Samherji fiskeldi samninga við HS Orku um uppbyggingu laxeldis á landi í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun. Markmiðið með eldinu er að framleiða heilnæma gæðavöru með lágu vistspori. Aðstæður í Auðlindagarðinum þykja hagstæðar þegar kemur að aðgengi að raforku, jarðhita, ylsjó og jarðsjó.
Félagið hefur tryggt sér aðgang að sjó og raforku til framleiðslu allt að 40 þúsund tonnum af laxi á landi árlega. Uppbyggingin verður í þremur áföngum á næstu ellefu árum. Landeldisstöðin verður staðsett við Reykjanesvirkjun og mun samanstanda af seiðastöð, áframeldisstöð og frumvinnsluhúsi ásamt þjónustubyggingum.
Í Auðlindagarðinum í kringum jarðvarmavirkjanir HS Orku hefur byggst upp samfélag fyrirtækja sem nýta affallsstrauma frá virkjunum. Framkvæmdirnar við fyrirhugað laxeldi styðja við markmið Auðlindagarðsins um nýtingu affallsstrauma frá jarðvarmavirkjunum sem annars renna ónýttir til sjávar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd