Fiskeldi Samherja ehf. kemur að öllum stigum eldis og vinnslu, allt frá hrognum til neytenda. Fiskeldi Samherja rekur eina klakfiskstöð að Sigtúnum í Öxarfirði, eina klakstöð fyrir hrogn að Núpum í Ölfusi, þrjár seiðastöðvar og tvær áframeldisstöðvar fyrir bleikju, aðra á Stað við Grindavík og hina að Vatnsleysuströnd. Einnig rekur fyrirtækið áframeldisstöð fyrir lax að Núpsmýri í Öxarfirði. Allt eru þetta landeldisstöðvar sem nýta jarðvarma og notast við borholuvatn, ýmist ferskt eða ísalt, við framleiðslu á eldisfiski.
Til að vinna afurðir frá eldinu eru starfræktar tvær vinnslur, önnur í Öxarfirði þar sem laxi er slátrað og pakkað og síðan fullkomin hátæknivinnsla í Sandgerði þar sem bleikju er slátrað og hún unnin í fjölbreyttar neytendaumbúðir.
Stækkun í Öxarfirði
Stjórn Samherja fiskeldis ákvað að stækka landeldisstöð félagsins í Öxarfirði um helming, þannig að framleiðslan verði um þrjúþúsund tonn af laxi á ári. Miðað er við að frakvæmdum ljúki seinni hluta árs 2023. Segja má að þessi stækkun sé undanfari áforma Samherja um að byggja upp allt að 40.000 tonna landeldi á Reykjanesi. Með stækkuninni fyrir norðan verði hægt að pófa nýja hluti og nýta þá reynslu sem skapast, áður en hafist verður handa á Reykjanesi.
Landeldi í Auðlindagarði á Reykjanesi
Um miðjan júní 2021 undirritaði Samherji fiskeldi samninga við HS Orku um uppbyggingu laxeldis á landi í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun. Markmiðið með eldinu er að framleiða heilnæma gæðavöru með lágu vistspori. Aðstæður í Auðlindagarðinum þykja hagstæðar þegar kemur að aðgengi að raforku, jarðhita, ylsjó og jarðsjó.
Félagið hefur tryggt sér aðgang að sjó og raforku til framleiðslu allt að 40 þúsund tonnum af laxi á landi árlega. Uppbyggingin verður í þremur áföngum á næstu ellefu árum. Landeldisstöðin verður staðsett við Reykjanesvirkjun og mun samanstanda af seiðastöð, áframeldisstöð og frumvinnsluhúsi ásamt þjónustubyggingum.
Í Auðlindagarðinum í kringum jarðvarmavirkjanir HS Orku hefur byggst upp samfélag fyrirtækja sem nýta affallsstrauma frá virkjunum. Framkvæmdirnar við fyrirhugað laxeldi styðja við markmið Auðlindagarðsins um nýtingu affallsstrauma frá jarðvarmavirkjunum sem annars renna ónýttir til sjávar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd