Samiðn – Samband iðnfélaga

2022

Samiðn er samband félaga í iðnfélaga og starfar um allt landið. Samiðn á aðild að Alþýðusambandi Íslands. Samiðn var stofnað árið 1993 við samruna Málm- og skipa-smiðasambands Íslands og Sambands byggingamanna. Samiðn gengst fyrir almennri upplýsingastarfsemi aðildarfélaganna og aðstoðar þau við slíka starfsemi. Samiðn er virkur þátttakandi í starfi innan ASÍ og er í samstarfi við starfsgreinasambönd á Norðurlöndunum, í Evrópu og við ýmis önnur alþjóðasamtök. Tólf félög iðnaðarmanna eiga aðild að Samiðn með rúmlega sjö þúsund félagsmönnum í  byggingageiranum, málmgreinum, bílgreinum, tækniteiknun, skipasmíðum, garðyrkju og snyrtigreinum. Samiðn annast m.a. kjarasamningagerð fyrir hönd aðildarfélaga sinna. Rétt til inngöngu í Samiðn hafa félög og deildir launafólks í iðnaði vítt og breitt um landið.

Tryggir launafólki aðild að stéttarfélagi
Innan Samiðnar er framkvæmdastjórn, miðstjórn og sambandsstjórn. Formaður Samiðnar er Hilmar Harðarson en hann hefur gegnt því embætti síðan 2013. Hilmar er einnig formaður Félags iðn- og tæknigreina. Varaformaður Samiðnar er Jóhann Rúnar Sigurðsson, félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri. Framkvæmdastjóri Samiðnar er Elmar Hallgríms Hallgrímsson. 
Markmið og hlutverk Samiðnar er m.a. að tryggja að allt launafólk í þeim starfsgreinum er tengjast sambandinu, eigi aðild að stéttarfélagi. Samiðn leggur þunga áherslu á að auka áhrif launafólks á sviði þjóðmála, s.s. í kjara-, atvinnu- og menntunarmálum. Samiðn kemur að gerð kjarasamninga við Samtök atvinnulífisins, ríki og sveitarfélög ásamt mörgum sérsamningum og aðstoðar aðildarfélögin með gerð sérkjarasamninga og beitir sér fyrir samstöðu þeirra og gagnkvæmum stuðningi.

Mikil áhersla á að efla veg iðn- og starfsmenntunar
Samiðn veitir aðildarfélögunum fjölbreytta þjónustu og beitir sér fyrir auknum og jafnari rétti félagsmanna. Auk þess sér Samiðn um að móta stefnu í atvinnumálum með tengslum við fyrirtæki og stofnanir í atvinnulífinu. Samiðn leggur mikla áherslu á að auka og efla veg iðn- og starfsmenntunar með virkri aðild og ábyrgð á iðn- og starfsmenntun í skólum, atvinnulífi og með námskeiðum fyrir félagsmenn. Samiðn hefur barist fyrir auknum kjarabótum vegna símenntunar og viðbótarmenntunar iðnaðarmanna.
Samiðn hefur allt frá stofnun beitt sér fyrir bættu vinnuumhverfi í starfsgreinunum og tekur virkan þátt í að bæta og vernda ytra umhverfi. Sambandið vinnur hörðum höndum að því að tryggja jafnan rétt félagsmanna til vinnu hvar sem er á landinu.

Umsýsla fyrir aðildarfélög
Samiðn er með höfuðstöðvar að Stórhöfða 31 í Reykjavík. Þar er einnig til húsa Þjónustu-skrifstofa iðnfélaga sem var stofnuð í júlí 1996. Hlutverk hennar er að annast umsýslu fyrir aðildarfélög skrifstofunnar og svara erindum frá félagsmönnum þeirra. Helstu verkefni þjónustuskrifstofunnar eru bókhald og gjaldkerastörf, launavinnsla, símsvörun, svörun vegna kjarasamninga, umsjón með úthlutunum orlofshúsa, umsjón með félagaskrám, svörun og skráning mælinga, viðhald heimasíðu Samiðnar (www.samidn.is), ræstingar og umsjón og viðhald tölvukerfis. Skrifstofan leigir auk þess og þjónustar VIRK starfsendurhæfingarsjóð. Samiðn er afar öflugt samband tólf aðildarfélaga iðnaðarmanna um allt land með rúmlega sjö þúsund félagsmönnum. „Það var mikið gæfuspor sem stigið var þegar Samiðn var stofnað árið 1993. Það er margt sem þarf að huga að í starfi Samiðnar og það má aldrei sofna á verðinum. Sífelld hagsmunagæsla félagsmanna er til staðar og er að sjálfsögðu afar mikilvæg. Vinnustaðaeftirlit, vinnustaðaheimsóknir, samstarf og samvinna við fyrirtæki og opinbera aðila, öflugt innra starf, launakannanir, félagsstarf, harka þegar hörku er þörf í kjaraviðræðum, skilningur á sífellt breytilegu landslagi og þróun starfa sem og alþjóðlegt samstarf sem gerir okkur kleift að fylgjast með því sem er að gerast á alþjóðavísu,” segir Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar.

Kjaramál og bættur aðbúnaður félagsmanna
Helstu mál sem Samiðn hefur unnið að á undanförnum árum eru vitaskuld kjaramál og bættur aðbúnaður félagsmanna. Samiðn hefur vandlega fylgst með þjóðmálum og reynt að koma sínum sjónarmiðum að þar sem þörf er á. Í Covid-19 faraldrinum sem hefur geysað 2020 og 2021 hefur sérstaklega reynt á þetta og Samiðn verið virkt í umræðunni um að halda atvinnu uppi, verja störf og jafnvel fjölga þeim. Hilmar segir að á tímum samdráttar sé mikilvægt að stjórnvöld horfi til verkefna sem stuðla að atvinnusköpun sem flestra. Ljóst er að mörg verkefni koma þar til greina, bæði á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar. Á árinu 2020 hefur verið uppi fordæmalaust ástand í samfélaginu með mikilli ágjöf á atvinnulífið og Hilmar telur nauðsynlegt að stjórnvöld bregðist hratt við. Hagvaxtahorfur hafa versnað til muna og telur Samiðn mikilvægt að framkvæmdir hefjist þegar í stað. Verulega hefur skort á viðhaldsframkvæmdir hjá hinu opinbera síðustu misserin og nú er lag að bregðast við uppsafnaðri þörf þar. Brýnt er að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og stuðla að því að greiðslur úr ríkissjóði skili mikilvægum virðisaukandi verkefnum til samfélagsins.

Átakið ,,Allir vinna” mikilvægt neytendamál
,,Það er á svona tímum sem reynir á stjórnvöld að styðja við af fullu afli og ljóst er að enginn hörgull er af verðugum verkefnum sem ráðast þarf í. Samiðn skorar því á stjórnvöld að hraða innviðauppbyggingu og setja í gang mannaflsfrekar framkvæmdir eins fljótt og frekast er unnt,” segir Hilmar. Samiðn óskaði eftir því fyrri hluta árs 2020 að verkefnið ,,Allir vinna“ sem hefur falið í sér fulla endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu við margvíslegar framkvæmdir, svo sem byggingaframkvæmdir íbúða og frístundaheimila sem og viðhaldi bifreiða, yrði framhaldið. Samiðn hefur lagt áherslu á umrætt verkefni enda er það atvinnuskapandi og einnig mikilvægt út frá neytendasjónarmiðum. Það tryggir enn frekar að leitað sé til fagmanna sem er mikið kappsmál allra. Að sama skapi telur Samiðn mikilvægt að umrædd endurgreiðsla á virðisaukaskatti taki einnig til framkvæmda á vegum sveitarfélaga. Stjórnvöld mátu það svo að átakinu „Allir vinna“ skyldi haldið áfram út árið 2021. Hilmar segir að átakið „Allir vinna“ sé mikilvægt neytendamál. ,,Fólk leitar nú frekar til faglærðra varðandi endurbætur og viðhald. Með átakinu er verið við að sporna gegn því að endurbætur á húsnæði, viðgerðir og viðhald ökutækja fari fram í svörtu hagkerfi um leið og við tryggjum faglærðum áframhaldandi vinnu. Átakið hefur skilað okkar félagsmönnum aukinni vinnu og verkefnum á þessum erfiðu tímum. Á sama tíma lækkar átakið kostnað almennings en það er mikilvægt að hann geti leitað til fagmanna varðandi byggingaframkvæmdir og bílaviðgerðir og hins vegar verndar það mikilvæg störf í iðngreinum. Þetta átak er því gríðarlega mikilvægt í báðar áttir. Það vinna allir. Það var einnig afar mikilvægt að víkka þetta átak út og að það taki nú einnig til viðhalds og viðgerða fólksbifreiða,” segir Hilmar.

Stór verkefni framundan
Elmar Hallgríms, framkvæmdastjóri Samiðnar, segir stærstu verkefni Samiðnar sem framundan eru varða til dæmis breytt launakerfi félagsmanna þar sem hæfni skal líka metin til launa en ekki horft einvörðungu til starfsaldurs. ,,Þá er mikil áskorun fólgin í því að takast á við áskoranir fjórðu iðnbyltingarinnar. Störf munu breytast, ný störf verða til og einhverjum störfum getur fækkað. Þarna blasir við að tengja iðnmenntun inn í háskólaumhverfið og þar eru mörg tækifæri og nauðsyn á að iðnaðarmenn og samtök okkar hafi frumkvæði í umræðu og áhrif á þróun mála.”

Framkvæmdastjórn

  • Hilmar Harðarson, Félagi iðn- og tæknigreina
  • Jóhann Rúnar Sigurðsson, Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri
  • Heimir Kristinsson, BYGGIÐN – Félagi byggingamanna
  • Ólafur S. Magnússon, Félagi iðn-og tæknigreina

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd