Árið 2025 markaði tímamót í sögu Samkeppniseftirlitsins þar sem stofnunin fagnaði tuttugu ára afmæli í núverandi mynd. Afmælisárið var nýtt til að vekja athygli á mikilvægi virkrar samkeppni og þeirri samfélagslegu þýðingu sem áhrifamikið samkeppniseftirlit hefur. Verkefnaálag var áfram mikið og fjöldi samrunamála, ákvarðana og rannsóknartilvika í vinnslu sýndi að eftirlitið sinnti áfram lykilhlutverki í að halda uppi heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Starfsemin einkenndist af faglegu mati, gagnadrifinni nálgun og nánu samstarfi við bæði innlenda og erlenda samkeppnisyfirvöld.
Á árinu 2024 fjölgaði málum til muna og yfir hundrað stjórnsýslumál voru í vinnslu. Verkefnin náðu yfir fjölbreytt svið samkeppnismála, allt frá samrunatilkynningum og markaðsrannsóknum til umsagna um lagasetningu og stefnumótun. Stofnunin vann áfram að því að efla fræðslu, stuðning og leiðbeiningar til fyrirtækja og stjórnvalda og fylgdist náið með þróun í helstu atvinnugreinum þar sem samkeppnisáskoranir höfðu komið upp. Áhersla var lögð á að tryggja skýra stjórnsýslu, faglegt mat og virka upplýsingamiðlun til almennings.
Árið 2023 hélt Samkeppniseftirlitið áfram hefðbundinni starfsemi við að fylgjast með þróun markaða, rannsaka samkeppnishamlandi háttsemi og sinna stjórnsýslu vegna samruna og kvörtunarmála. Á árinu urðu nokkrar breytingar í stjórn stofnunarinnar og áhersla var lögð á að tryggja að afgreiðsla mála og rannsóknir væru í samræmi við lögbundnar skyldur. Eftirlitið vann áfram að forgangsröðun verkefna í ljósi aukinna verkefna og breyttra aðstæðna á mörkuðum, meðal annars vegna verðbólgu og breyttrar hegðunar fyrirtækja á stafrænum vettvangi.
Heildstæð samkeppnislög tóku fyrst gildi á Íslandi 1. mars 1993 samhliða gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þegar lögin tóku gildi voru Verðlagsstofnun og verðlagsráð lögð niður en Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð sett á laggirnar. Síðan þá hefur samkeppnislögunum verið breytt allnokkrum sinnum en veigamesta breytingin tók gildi 1. júlí 2005. Þá voru Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð lögð niður og Samkeppniseftirlitið varð til. Samkeppniseftirlitið er A-hluta stofnun sem heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og er rekstur hennar greiddur af ríkissjóði.
Hlutverk
Markmið samkeppnislaga er að efla virka samkeppni í viðskiptum samfélaginu öllu til heilla. Samkeppniseftirlitinu ber að ná markmiðum samkeppnislaga með því að vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum. Eftirlit Samkeppniseftirlitsins tekur til hvers konar atvinnustarfsemi án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum.
Alþjóðlegt samstarf
Samkeppniseftirlitið kappkostar að eiga í alþjóðlegu samstarfi með það fyrir augum að efla tengsl samkeppnisyfirvalda innbyrðis. Þannig má auka þekkingu þeirra sem starfa við samkeppnismál. Erlenda samstarfið felst aðallega í þátttöku í nefndum og hópum sem fjalla um samkeppnismál og reglur auk verkefnavinnu í vinnuhópum sem fjalla um afmarkaða þætti samkeppnismála. Samkeppnisyfirvöld á Norðurlöndum eiga í reglubundnu samstarfi og þá tekur Samkeppniseftirlitið þátt í samstarfi á grundvelli EES samningsins auk annars alþjóðlegs samstarfs.

Framtíðarsýn
Samkeppniseftirlitið byggir starfsemi sína á stefnumótun sem er reglulega tekin til endurskoðunar og byggir á skýrum markmiðum. Öll snúa þau að sama lokatakmarkinu sem er að stuðla að virkri samkeppni almenningi til hagsbóta. Stjórn Samkeppniseftirlitsins fjallar á hverju ári um áherslur eftirlitsins og endurskoðar þær með hliðsjón af fenginni reynslu og mati á því hvaða áskoranir séu framundan.
Mannauður
Samkeppniseftirlitið byggir afl sitt og getu fyrst og fremst á mannauði, þ.e. hæfu og reyndu starfsfólki og jafnframt aðgangi að hæfustu sérfræðingum á hverju sviði, t.d. með góðum tengslum við háskóla- og fræðasamfélagið. Mikil áhersla er lögð á að Samkeppniseftirlitið sé í aðstöðu til að laða að sér og halda í gott starfsfólk. Skrifstofur Samkeppniseftirlitsins eru í Borgartúni 26 en þar starfa 29 starfsmenn. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins er Páll Gunnar Pálsson, aðstoðarforstjóri er Ásgeir Einarsson og aðalhagfræðingur er Valur Þráinsson.
Nánari upplýsingar um Samkeppniseftirlitið má finna á vefsíðunni: www.samkeppni.is.
Samkeppniseftirlitið
Atvinnugreinar
Upplýsingar
Lesa bókina