Samorka eru samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Samtökin voru stofnuð árið 1995 við samruna Sambands íslenskra hitaveitna (stofnuð 1980) og Sambands íslenskra rafveitna (stofnuð 1942). Innan samtakanna eru hátt í 50 fyrirtæki víðsvegar um landið; fráveitur, hitaveitur, vatnsveitur, raforkuframleiðendur, raforkusalar og flutnings- og dreifingarfyrirtæki raforku. Öll aðildarfyrirtæki Samorku flokkast undir samfélagslega mikilvæga innviði og þjónusta þeirra er forsenda reksturs annarra fyrirtækja í landinu og grunnþjónusta sem öll heimili í landinu reiða sig á. Orku- og veitufyrirtækin sinna því mikla og spennandi verkefni að Ísland sé áfram í fremstu röð í nýtingu endurnýjanlegrar orku og leika lykilhlutverk í því markmiði stjórnvalda að Ísland verði jarðefnaeldsneytislaust innan fárra ára.
Markmið Samorku er að starfrækja trúverðugan, fræðandi og jákvæðan vettvang um starfsemi orku- og veitufyrirtækja og að vera mikilvægur samstarfsaðili stjórnvalda um starfsumhverfi orku- og veitufyrirtækja. Til að ná þeim markmiðum leggur Samorka mikið upp úr faglegri upplýsinga- og þekkingarmiðlun sem nær bæði til stjórnsýslunnar og almennings en ekki síður til aðildarfyrirtækjanna sjálfra. Hátt í 200 fulltrúar aðildarfyrirtækjanna starfa í fagráðum, nefndum og hópum hjá Samorku og er það hornsteinninn í starfi samtakanna. Samtökin veita tugi umsagna um lagafrumvörp og reglugerðartillögur á ári hverju. Þá er Samorka aðili að evrópskum og norrænum samtökum um orku-, veitu- og öryggismál, eins og Eurelectric, NordEnergi, WindEurope, European Geothermal Energy Council og KraftCert.
Samorka hefur staðið fyrir öflugum greiningum á sviði orkuskipta síðustu ár sem veita mikilvægar upplýsingar um stöðu og horfur í málaflokknum. Má þar nefna um þjóðhagslega hagkvæmni rafbílavæðingar, um orkuskipti í haftengdri starfsemi og orkuþörf fyrir jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040.
Samorka stendur reglulega fyrir opnum fundum, ráðstefnum og samkomum. Þeirra á meðal eru árleg fagþing, þar sem fjallað er til skiptis um málefni hita-, vatns- og fráveitna og svo málefni rafmagns. Þriðja hvert ár kemur svo allur geirinn saman á Samorkuþingi á Akureyri og fjallað er um allt sem efst er á baugi í orku- og veitustarfsemi.
Hjá Samorku starfa sérfræðingar í málefnum orku- og veitumála. Árið 2022 voru fimm stöðugildi hjá Samorku og hefur Páll Erland verið framkvæmdastjóri frá árinu 2017. Sjö eru í stjórn Samorku. Samtökin eru til húsa í Borgartúni 35, í Húsi atvinnulífsins.
Frekari upplýsingar um Samorku má sjá á www.samorka.is.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd