Samskip eru fjölþátta flutningafyrirtæki með höfuðstöðvar í Rotterdam. Rætur Samskipa liggja hjá skipadeild Sambandsins sem var stofnuð árið 1946 en skipadeildin sinnti millilandasiglingum til og frá Íslandi í tæplega hálfa öld. Samskip hófu svo formlega starfsemi árið 1991. Í dag felur starfsemin í sér heildarþjónustu á sviði flutninga á Íslandi og í Færeyjum, fjölþátta gámaflutningsþjónustu um alla Evrópu, frystiflutninga og flutningsmiðlun um allan heim. Innan Evrópu eru Samskip á meðal stærstu flutningafyrirtækjanna og leiðandi í fjölþátta flutningum. Meginstarfsemi félagsins byggir á gámaflutningum í Evrópu, flutningum á Norður-Atlantshafi, og hitastýrðum flutningum um allan heim, ásamt flutningsmiðlun og stórflutningum í Evrópu.
Í dag eru Samskip því alþjóðlegt flutningafyrirtæki sem býður flutningalausnir og tengda þjónustu á landi, sjó og í lofti með hagkvæmni og sjálfbærni að leiðarljósi, en umhverfisstefna fyrirtækisins hefur mikið aðdráttarafl fyrir mörg þekktustu vörumerki heimsins þar sem neytendur gera sífellt ríkari kröfur um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Í íslensku samhengi bjóða Samskip upp á fjölbreyttar lausnir fyrir viðskiptavini í Evrópu. Félagið er með tíðar siglingar frá Íslandi og Færeyjum til Bretlands, meginlands Evrópu og Skandinavíu sem liggja til grundvallar þjónustuframboði félagsins á svæðinu. Sú nýbreytni Samskipa að bjóða árið 2013 upp á útflutning frá höfnum víða um land beint á markaði erlendis hefur verið mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf á landsbyggðinni. Viðkomuhafnir utan Reykjavíkur eru nú Ísafjörður, Sauðárkrókur, Akureyri, Vopnafjörður, Reyðarfjörður og Vestmannaeyjar, áður en haldið er til Hull á Bretlandseyjum, Rotterdam í Hollandi og til Skandinavíu. Leiðakerfi Samskipa færir landsbyggðina nær erlendum mörkuðum og býður hagkvæmari valkost fyrir inn- og útflytjendur og endurspeglar þjónustan því vel slagorð félagsins, saman náum við árangri. Þá bjóða Samskip einnig hýsingu fyrir frystivörur og almennar vörur auk þess sem félagið ræður yfir öflugu dreifikerfi innanlands sem er síðasti hlekkurinn í þéttri heildarþjónustu við viðskiptavini félagsins. Samskip reka einnig umboðsþjónustu og leiguskip til ýmissa verkefna og gera út ferjuna Sæfara sem siglir frá Dalvík til Grímseyjar og Hríseyjar á Eyjafirði.
Eigendur og stjórnendur
Samskip eru í eigu Ólafs Ólafssonar kaupsýslumanns, Ingibjargar Kristjánsdóttur, Hjörleifs Jakobssonar og Hjördísar Ásberg. Forstjóri samstæðu Samskipa er Kari-Pekka Laaksonen, en á Íslandi er forstjóri Samskipa Birkir Hólm Guðnason. Framkvæmdastjórar félagsins eru Guðmundur Þór Gunnarsson yfir rekstrarsviði, Ottó Sigurðsson yfir innflutningssviði, Gunnar Kvaran yfir útflutningssviði, Gísli Þór Arnarson yfir innanlandssviði, Ragnar Þór Ragnarsson yfir upplýsingasviði og Kristján Pálsson sem er framkvæmdastjóri Jóna Transport.
Vinnulag og framleiðsluferli
Samskip hafa þrettán gámaskip í föstum áætlunarsiglingum og fimmtán skip eru í öðrum verkefnum, þ.á.m. frystiflutningum. Þá er fjöldi leiguskipa í tímabundnum verkefnum. Fjögur skip eru í föstum áætlunarsiglingum milli Íslands og Evrópu. Flutningaskipin Arnarfell og Helgafell sinna vikulegum siglingum til Skandinavíu, en skipin Samskip Hoffell og Samskip Skaftafell sinna svonefndri Strandleið. Ferjan Sæfari hefur einnig verið í rekstri Samskipa síðan 1996. Skipulag siglingakerfis Samskipa miðar að því að koma til móts við þarfir viðskiptavina á Íslandi sem þurfa styttri flutningstíma, aukinn áreiðanleika og meiri tíðni ferða. Hvað innflutning varðar er þjónustan einnig betri þar sem hún miðar að því að vörur séu afhentar á Íslandi snemma í vikunni. Fyrir útflutning er hins vegar nauðsynlegt að komast í upphafi viku inn á lykilmarkaði í Evrópu. Þá hefur skipt sköpum fyrir landsbyggðina að þjónusta þar hefur verið efld til muna með reglubundnum viðkomum á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi. Markmið siglingakerfis Samskipa er að færa viðskiptavinum aukinn ávinning, t.d. fyrir útflutning á ferskum afurðum frá Íslandi inn á helstu markaði á sem hentugustum tíma og um leið næst innflutningur til Íslands fyrr í vikunni. Siglingakerfið hefur upp á að bjóða sveigjanleika sem mikil þörf er á við íslenskar aðstæður þar sem veður geta verið válynd. Frávik í kerfinu eru því sjaldgæfari fyrir vikið.
Skipulag og sérstaða
Fjölþátta gámaflutningar í Evrópu
Sérstaða Samskipa er að fyrirtækið er alþjóðlegt fjölþátta flutningafyrirtæki sem býður flutningalausnir og tengda þjónustu á landi, sjó, vatni og ám með hagkvæmni og sjálfbærni að leiðarljósi. Raunar eru Samskip leiðandi í Evrópu á þessu sviði og hafa fengið fjölda verðlauna fyrir frumkvæði sitt í umhverfismálum, meðal annars vegna bættrar umgengni um náttúruauðlindir og minni losunar gróðurhúsalofttegunda. Kolefnisfótsporsreiknivél Samskipa hjálpar fyrirtækjum að meta hve mikið sparast af gróðurhúsalofttegundum með flutningi með Samskipum.
Áhersla félagsins hefur ávallt verið á hagkvæmar og áreiðanlegar lausnir fyrir viðskiptavini og notar félagið eigin tæki og búnað í kerfinu, allt frá Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi til Tyrklands og Mið-Asíu.
Hitastýrðir flutningar um allan heim
Á meðal viðfangsefna Samskipa eru líka hitastýrðir flutningar og hefur félagið skipað sér stóran sess á markaðinum fyrir frystar og kældar afurðir. Samskip reka til að mynda frystigeymslur undir merkjum FrigoCare í Rotterdam í Hollandi og í Álasundi í Noregi, auk þess að reka frystigeymslur í Reykjavík og í Kollafirði í Færeyjum. Þá er frystigeymsla FrigoCare í Rotterdam sú fyrsta sem nýtir sólarsellur til að draga úr orkunotkun, en lægra kolefnisfótspor fiskútflutnings skiptir neytendur á erlendum mörkuðum sífellt meira máli.
Heildarþjónusta Samskipa við flytjendur er meðal annars í sjófrakt, for- og framhaldsflutningi, flutningsmiðlun, hýsingu og skjalagerð.
Hjá Samskipum er meðalstarfsaldur hár og því hefur félagið á að skipa reynslumiklu starfsfólki sem veitir mikilvæga ráðgjöf um hvernig best er að standa að flutningunum.
Hitastýrðir flutningar verða umsvifameiri í starfseminni með hverju ári sem líður en Samskip flytja yfir milljón tonn af hitastýrðum afurðum um allan heim. Besta dæmið er fiskútflutningur frá Íslandi til Evrópu og Asíu. Í þessum tilgangi starfrækja Samskip skrifstofur í Evrópu, Asíu, Ástralíu og Norður- og Suður-Ameríku. Stærsta eining Samskipa sem sér um hitastýrða flutninga er starfrækt undir merkjum Samskip Logistics. Samskip sinna flutningsmiðlun um allan heim og bjóða upp á stórflutninga í Evrópu og Mið-Asíu.
Framtíðarsýn
Framtíðarsýn Samskipa er að leiða á sviði fjölþátta flutninga og ná árangri fyrir viðskiptavini. Verkefnið hefur um langt skeið snúist um að byggja upp starfsemina í kringum fjölþátta gámaflutninga með áherslu á Evrópu en bjóða hitastýrða flutninga, for- og framhaldsflutning og flutningsmiðlun með sífellt styrkari fótfestu.
Aðsetur
Höfuðstöðvar Samskipa voru reistar árið 2006 í Waalhaven Oostzijde 81, 3087 BM í Rotterdam, Hollandi og eru hluti af svokölluðu „Dock Works“ svæði. Skrifstofuhúsnæðið í Rotterdam var sérhannað fyrir Samskip og er 4.004 fm. Árið 2016 stigu Samskip það skref að skipta út öllu gleri í skrifstofubyggingunni fyrir orkusparandi gler sem útilokar innrauða geisla með það að markmiði að draga um helming úr orkunotkun vegna kælingar hússins. Skipt var um 548 fm af gleri, en með aðgerðinni voru Samskip á meðal fyrstu fyrirtækja í Evrópu til að nýta þessa leið til orkusparnaðar.
Skrifstofur Samskipa á Íslandi eru í Kjalarvogi 7-15, 104 Reykjavík og var skóflustunga tekin að byggingunni í ágúst 2003. Með byggingunni var öll meginstarfsemi Samskipa sameinuð undir einu þaki, en að jafnaði starfa um 450 manns í Kjalarvogi. Alls er byggingin 28 þúsund fm og 250 metra löng en í henni er að finna bæði vöruhýsingu og vörumiðstöð.
Mannauður og starfsmannafjöldi
Árleg velta Samskipa stefnir yfir 800 milljónir evra og rekur fyrirtækið skrifstofur í 26 löndum í Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Asíu og Ástralíu. Starfsmenn eru um 1.600 um allan heim.
Vöxtur
Samskip hafa vaxið mikið undanfarin ár enda yfirlýst markmið félagsins að stækka flutningskerfið á öllum mörkuðum Norður-Atlantshafsins með sérstaka áherslu samvirkni milli Noregs, Íslands og Færeyja. Þær aðgerðir eru nátengdar vexti í flutningskerfi meginlandsins og viðvarandi aðgerðum sem miða að því að draga úr kostnaði og gera félagið í stakk búið til að takast á við áskoranir framtíðarinnar.
Á meðal mikilvægustu skrefa félagsins í dag eru aukin tæknivæðing sem er ætlað að gefa meiri sveigjanleika og auka gagnsæi rekstrarins og hagkvæmni. Allt er þetta gert til að auðvelda viðskiptavinum að nýta sér einstakt loforð Samskipa um að saman náum við árangri.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd