Samsýn ehf.

2022

Samsýn var stofnað þann 25. febrúar 1995 af Verkfræðistofunni Hnit, Geodata AS frá Noregi og 3 einstaklingum, m.a. Kristni Guðmundssyni núverandi framkvæmdastjóra. Tilgangur félagsins þá var að selja og veita þjónustu á Íslandi fyrir landupplýsingakerfi frá Esri, sem höfðu verið tekin í notkun víða árin á undan.
Fyrsta áratuginn voru yfirleitt starfandi einn eða tveir starfsmenn við fyrirtækið, sem sinnti þá einungis þjónustu við Esri hugbúnaðinn. Í lok árs 2005 hafði Eignarhaldsfélagið Hnit eignast Samsýn að fullu og var þá ráðist í töluverðar breytingar til að stækka fyrirtækið og gera það öflugra á sínu sviði. Samsýn keypti rekstur hugbúnaðar-, landupplýsinga- og kortadeilda Hnits hf. og fékk til starfa starfsmenn með mikla reynslu á þeim sviðum ásamt nýju fólki sem hafa verið burðarásar í að gera fyrirtækið að því sem það er í dag.

Stjórnendur, starfsmenn og aðsetur
Stjórnendur Samsýnar eru Kristinn Guðmundsson framkvæmdastjóri, Stefán Guðlaugsson stjórnarformaður og Magni Þór Birgisson þróunarstjóri. Stjórnendur og starfsmenn Samsýnar hafa ávallt gert sér grein fyrir mikilvægi staðsetningar í starfsemi fyrirtækja og lífi fólks. Staðsetning skiptir höfuðmáli þegar við skipuleggjum okkar daglega líf og þær leiðir sem við förum til að ná markmiðum okkar. Það er því megintilgangur Samsýnar að útbúa lausnir til að aðstoða viðskiptavini sína við að nýta sér staðsetningu á sem hentugastan hátt í starfsemi sinni. Frá árinu 2001 hefur Stefán Guðlaugsson verið formaður stjórnar og gerðist hann seinna eigandi með Eignarhaldsfélaginu Hnit. Eftir það hafa Magni Þór Birgisson, Þórarna Ýr Oddsdóttir og Sölvi Þór Bergsveinsson bæst í hóp eigenda. Í dag eru starfsmenn 14 og hefur farið hægt fjölgandi með auknum umsvifum í verkefnum og veltu á undanförnum árum. Starfsmenn eru með fjölbreyttan bakgrunn og menntun, sem mestmegnis er á háskólastigi. Skrifstofur félagsins hafa alltaf verið á Háaleitisbraut 58-60.
 
Í stórum dráttum má skipta starfseminni í 3 meginsvið
Sölu- og þjónustu við ArcGIS hugbúnaðinn á Íslandi, sem m.a. felst í aðlögun hans að sérstökum þörfum notenda. Birtingarmynd þess má m.a. sjá í Borgarvefsjá og öðrum sambærilegum kortasjám. Þróun eigin lausna og samhæfing kerfa. Þar má helst nefna þróun kerfa hjá Neyðarlínunni 112 og öðrum viðbragðsaðilum. Samsýn hefur hannað frá grunni SiteWatch kerfið sem er notað við flotastýringu og vöktun farartækja. Gagnavinna, sem felst í að búa til og safna saman landupplýsingum og auka verðmæti þeirra fyrir notkun og útgáfu. Dæmi þess má sjá á ýmsum vefkortum eða kortum fyrir leiðsögu- og útivistartæki.
 
Covid-19
Eins og hjá flestum öðrum fyrirtækjum hafði COVID faraldurinn mikil áhrif á rekstur ársins
2020. Strax í upphafi faraldursins var Samsýn falið að þróa hugbúnað fyrir rakningu COVID
tilfella og afrakstur þeirrar vinnu er kerfi sem teygir anga sína um heilbrigðiskerfið og stofnanir
löggæslu og almannavarna.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd