Samtök ferðaþjónustunnar

2022

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) eru hagsmunasamtök allra fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu. Samtökin voru stofnuð 11. nóvember 1998 á grunni Sambands veitinga- og gistihúsa og lögðu önnur hagsmunasamtök sem störfuðu innan ferðaþjónustunnar niður starfsemi sína á sama tíma. SAF er ætlað að ná utan um allar undirgreinar ferðaþjónustu á Íslandi og vinna að bættu rekstrarumhverfi greinarinnar. Aðild að samtökunum eiga um 400 fyrirtæki, bæði stór og smá, í öllum geirum ferðaþjónustunnar um land allt. Það eru flugfélög, ferðaskrifstofur, gististaðir, veitingahús, bílaleigur, hópbifreiðafyrirtæki, afþreyingarfyrirtæki svo og önnur fyrirtæki sem telja sig til ferðaþjónustufyrirtækja. SAF starfar með öðrum hagsmunasamtökum og eru þau ein af 6 aðildarsamtökum Samtaka atvinnulífsins sem eru heildarsamtök íslensks atvinnulífs.

Fagmennska í ferðaþjónustu

Frá árinu 1998 hafa íslensk ferðaþjónustufyrirtæki gætt sameiginlegra hagsmuna sinna undir merkjum Samtaka ferðaþjónustunnar. Meginhlutverk SAF er að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna sinna, að vinna að því að fyrirtæki búi við starfsskilyrði sem gera þau samkeppnishæf á alþjóðamarkaði ásamt því að stuðla að því að ferðaþjónusta á Íslandi byggi á virðingu fyrir landi og þjóð. Samtökin stuðla einnig að heilbrigðri samkeppni í íslensku atvinnulífi, nýsköpun og fagmennsku sem öflugum stoðum framtíðar ferðaþjónustunnar og samkeppnishæfum rekstrarskilyrðum og heilbrigðri samkeppni. Aðild að SAF er gæðastimpill fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki en einkunnarorð samtakanna eru fagmennska í ferðaþjónustu. SAF leggja mikla áherslu á að vinna með félagsmönnum og stjórnvöldum í að efla fagmennsku og aðstoða fyrirtæki við að byggja upp og viðhalda fagmennsku og gæðum í ferðaþjónustu.

Öflugt félagsstarf

Í gegnum SAF talar ferðaþjónusta á Íslandi einni og öflugri röddu gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum svo og öðrum sem ferðaþjónustufyrirtæki skipta við. Stefna SAF í hinum ýmsum málum er unnin á vegum stjórnar og nefnda, en innan samtakanna starfa 8 fagnefndir sem kosið er í á aðalfundi. Þá skipar stjórn SAF í umhverfisnefnd samtakanna. Aðalfundur SAF hefur æðsta vald í málefnum samtakanna en 7 manna stjórn stýrir málum milli aðalfunda ásamt fagnefndum og starfsfólki samtakanna. Í ljósi heimsfaraldurs Covid-19 með tilheyrandi takmörkunum á samkomum fór aðalfundur SAF fram með rafrænum hætti í maí árið 2020. Samkvæmt lögum SAF skal stjórnarkjöri þannig háttað að annað hvert ár skal kjósa formann og þrjá meðstjórnendur en hitt árið eru hinir þrír meðstjórnendurnir í kjöri. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, var endurkjörin, en hún hefur verið formaður samtakanna frá árinu 2018.
Stjórn SAF árið 2020:
Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu-DMI, formaður.
Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Radisson Blu Hótel Sögu, varaformaður.
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair Group, meðstjórnandi.
Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða – Reykjavik Excursions, meðstjórnandi.
Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri Snæland Grímsson, meðstjórnandi.
Ívar Ingimarsson, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar Óseyri, meðstjórnandi.
Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri veitingahússins Jómfrúarinnar, meðstjórnandi.
Formenn fagnefnda SAF árið 2020:
Afþreyinganefnd: Arnar Már Ólafsson, Arcanum fjallaleiðsögumenn.
Bíleigunefnd: Bergþór Karlsson, Höldur ehf.
Flugnefnd: Herdís Anna Þorvaldsdóttir, Helo Þyrluþjónustan.
Ferðaskrifstofunefnd: Ásberg Jónsson, Nordic Visitor.
Gististaðanefnd: Birgir Guðmundsson, Icelandair Hotels.
Hópbifreiðanefnd: Eðvarð Þór Williamsson, Guðmundur Jónasson ehf.
Veitinganefnd: Þráinn Lárusson, 701 Hotels.
Siglinganefnd: Vignir Sigursveinsson, Elding.
Umhverfisnefnd: Jón Gestur Ólafsson, Höldur.

Fjölbreytt þjónusta fyrir félagsmenn

Allt árið um kring standa SAF fyrir öflugu félagsstarfi í formi viðburða eins og félagsfunda, námskeiða, fyrirlestra, umræðufunda og annarra viðburða. Þá standa samtökin árlega fyrir stórum viðburði í Hörpu undir yfirskriftinni Ferðaþjónustudagurinn þar sem málefni ferðaþjónustunnar eru í brennidepli. SAF hvetja til góðra verka innan ferðaþjónustunnar m.a. með því að verðlauna það sem vel er gert, en árlega veita samtökin nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar og ritgerðarverðlaun til útskriftarnemenda í ferðamálafræði. Þá koma SAF að því að veita verðlaun til fyrirmyndarfyrirtækja í ábyrgri ferðaþjónustu. Félagsmenn í SAF eiga sterkt bakland í samtökunum við úrlausn mála, m.a. með lögfræðiráðgjöf, aðstoð við vinnumarkaðs- og kjaramál, gerð ráðningarsamninga, starfslokasamninga og aðra samninga við starfsfólk o.s.frv. Þá vinna SAF að öflugri fræðslu og menntun fyrir starfsfólk og fyrirtæki í ferðaþjónustu með fræðslustarfi innan samtakanna og samstarfsaðilum eins og Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Iðunni og öðrum aðilum sem vinna að fræðslu og menntun í atvinnulífinu.

Alþjóðastarf, markaðssetning og öryggismál

SAF er reglulegur og mikilvægur samstarfsaðili stjórnvalda í öllum málefnum er varða ferðaþjónustu á Íslandi. Samtökin eru umsagnaraðili um lagafrumvörp og reglugerðartillögur og eiga fulltrúa í fjölmörgum nefndum, stjórnum og ráðum bæði á vegum opinberra aðila og annarra. Þá eiga SAF samskipti fyrir hönd félagsmanna við opinberar stofnanir eins og Samgöngustofu, Vegagerðina, þjóðgarða o.fl. Á þann hátt hafa samtökin áhrif á starfsumhverfi fyrirtækjanna. SAF eru aðili að alþjóðasamstarfi hagsmunasamtaka í ferðaþjónustu, svo sem Norrænu ferðaþjónustusamtökunum og HOTREC, evrópusamtökum hótel- og veitingaaðila.
Ásamt Íslandsstofu og Atvinnuvegaráðuneytinu koma SAF að markaðssetningarverkefninu Ísland allt árið (Inspired by Iceland), þar sem ferðaþjónustufyrirtæki vinna saman að markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands og leggja markaðsfé til verkefnisins á móti jöfnu framlagi ríkisins. Þá starfaði SAF með fjórum ráðuneytum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga að Stjórnstöð ferðamála á árunum 2015-2020.
Eins starfar SAF með Landsbjörg að Safe Travel verkefninu sem hefur náð miklum árangri í veitingu upplýsinga til ferðamanna um mikilvæg atriði í ferðalögum um Ísland. Verkefnið er m.a. fjármagnað með framlögum frá fyrirtækjum innan SAF.

Kraftmikil starfsemi

Árið 2020 störfuðu 7 starfsmenn hjá SAF undir forystu Jóhannesar Þórs Skúlasonar sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra SAF frá árinu 2018, en forverar hans í starfi eru þær Helga Árnadóttir (2013-2018) og Erna Hauksdóttir (1998-2013). Skrifstofa SAF er í Húsi atvinnulífsins að Borgartúni 35 í Reykjavík og er opin á virkum dögum á milli kl. 8.30 og 16.00.
Allar nánari upplýsingar um SAF er að finna á vefsíðu samtakanna – www.saf.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd